Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:05:50 (7783)


[11:05]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. dró húsbréfakerfið inn í þá skýringu sína að það væri ein orsökin fyrir skuldastöðu heimilanna. Hv. þm. ætti að lesa skýrslu Þjóðhagsstofnunar betur. Þar kemur fram að breytingar á húsnæðislánakerfinu á 9. áratugnum eru mikilsverður þáttur til skýringar á aukningu skulda heimilanna þannig að 86-kerfið sem Framsfl. kom á er ekkert undanskilið. Ég greindi frá því að lenging lána þar sem skuldirnar eru greiddar hægar niður er vissulega skýring því ef við hefðum ekki svona langan lánstíma þá væri greiðslubyrði heimilanna mjög þung og ég hygg að enginn vildi skipta á því. Ég hygg líka að hv. þm. ætti að tala varlega þegar hann kennir Alþfl. um aukningu á skuldastöðu heimilanna. Vill hv. þm. ekki líta til áranna 1982 og 1983 og áranna 1985--1986? Er það tilviljun að þá hækka skuldirnar, breytast þær mest að raungildi milli ára á árunum 1982--1983 þegar Framsfl. er við stjórn? Og hvað með árin 1985--1986 þar sem þær hækka um 17% að raungildi milli ára og 18% 1982. Við erum að tala um 7% núna á sl. ári sem þingmaðurinn gerir hvað mest úr. Og skyldi það vera tilviljun að Framsfl. var við stjórn 1982--1983 þegar hinn svokallaði misgengishópur varð til? Og er það tilviljun að greiðsluerfiðleikalánin, víðtæk greiðsluerfiðleikaaðstoð byrjaði á árunum 1985 þegar Framsfl. var við stjórn? Ég hygg að Framsfl. ætti að tala varlega í þessari umræðu og kenna öðrum um aukningu á skuldastöðu heimilanna. Þegar grannt er skoðað, þá verður aukningin mest þegar Framsfl. er við stjórn. Þá verður misgengið mest, þá verður greiðsluerfiðleikaaðstoðin mest sem fólk þarf á að halda.