Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:11:02 (7786)


[11:11]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það gæti nú hugsast að einhverir þeir sem lentu í því á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að missa eina af fjórum milljónum sem þeir áttu að fá í lán í húsréfum út um gluggann, missa þær í afföll. Fyrsta verk ríkisstjórnar hæstv. félmrh. var að hækka raunvexti á Íslandi. Það varð til þess að afföllin risu hæst haustið 1991. Unga fólkið sem þá var að byggja sína íbúð beið eftir húsnæðisláninu sínu. Það komu 3 millj. í hendurnar á því af fjórum. Hitt fór í afföll. Það kann að vera að þetta fólk hugsi ekki hlýtt til verka þessarar ríkisstjórnar og gæti vel hafa hugsað sér það að hér væri réttlátara húsnæðislánakerfi heldur en húsbréfakerfið hefur því miður reynst. Og mig uggir það, hæstv. forseti, að það verði kannski eitt stærsta vandamálið lok þessarar aldar að margt það fólk sem býr við þessa skuldastöðu muni verða að afsala íslenska ríkinu sínu húsnæði.