Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:54:57 (7791)


[11:54]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það dásamlega frelsi sem blasir við fólkinu í landinu og hv. 3. þm. Reykv. var að tala um hér áðan er frelsi fátæktarinnar. Frelsi gjaldþrotanna. Það er sá veruleiki sem blasir við þúsundum íslenskra heimila um þessar mundir. Staðreyndin er sú að fólk er hneppt í viðjar fátæktar á Íslandi á nýjan leik sem er afleiðing þeirrar stjórnarstefnu sem þingmaðurinn ber ábyrgð á. Það er hinn alvarlegi veruleiki. Staðreyndin er sú að eiginhúsnæðisstefnan, sem Sjálfstfl. gortaði af árum og áratugum saman, er úr sögunni hjá millistéttarhópum og meðaltekjuhópum í landinu af því að hin byggjandi alþýða þessa lands er að kikna undan gjaldþrotakröfum alls staðar að. Þess vegna tel ég að þessi skýrsla sé slæm vegna þess að hún sýnir ekki vandann eins og hann í raun og veru er. Hún opnar það ekki fyrir fólki og þingheimi af hverju fátæktin er orðin merkimiði á hinum efnahagslega veruleika þúsunda íslenskra heimila í dag. Þess vegna finnst mér það satt að segja fyrir neðan allar hellur að einn þingmaður Reykvíkinga skuli koma í þennan stól og tala um hið dásamlega frelsi einmitt nú þegar fjölskyldurnar eru að kikna undan gjaldþrotum og þegar Húsnæðisstofnun ríkisins á í dag 129 íbúðir sem hún hefur fengið vegna gjaldþrotaskipta.