Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:56:44 (7792)


[11:56]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eins og ég lagði áherslu á í máli mínu þá tel ég mjög mikilvægt í umræðu um þessa skýrslu að menn ræði efni hennar. Skýrslan sýnir að á árunum 1980--1992 varð þessi gjörbreyting á íslenska lánamarkaðnum. Hún gefur þá skýringu á skuldastöðu heimilanna að lánsfé hafi aukist og almenningur hafi nýtt sér þennan rétt. Ég get ekki hafnað þessari staðreynd og ég held að hv. 8. þm. Reykv. geti ekki heldur hafnað þessari staðreynd. Þetta er ekkert sérstök stefna Sjálfstfl. Þótt Sjálfstfl. sé talsmaður frelsis í þessum efnum þá var það hv. þm., sem sat oftar en einu sinni í ríkisstjórn á þessu tímabili, sem framfylgdi þessari stefnu og stóð að þeim ákvörðunum sem hafa leitt til þeirrar niðurstöðu sem þessi skýrsla segir okkur frá. Þess vegna tel ég að skýrslan sé gagnleg, hún lýsir þróun í þjóðfélaginu en hún segir að vísu ekki hvernig á að taka á því. Ég tel að það eigi ekki að taka á því með því að hverfa aftur til skömmtunar- og haftatímabilsins sem hv. þm. hefur löngum verið talsmaður fyrir. ( SvG: Hátekjuskatta núna.)