Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:57:52 (7793)


[11:57]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason í ágætri ræðu á margan hátt og rólegri kom víða að og ræddi um bankana og að bankar þyrftu að sýna meira aðhald. Undir það skal tekið. Hann beindi sérstaklega til mín athugasemd vegna þess að ég hafði verið formaður í Búnaðarbanka Íslands. Það liggur fyrir hér í þskj. frá því í vetur að töp og afskriftir gagnvart einstaklingum eru miklu minni í Búnaðarbanka Íslands en í öðrum. Þar hefur verið fylgt mjög aðhaldssamri útlánastefnu sem betur fer. Ég tek undir það að auðvitað þarf að gera það.
    Hv. þm. ræddi um að skuldir hefðu lækkað mjög á síðustu árum. Ég vil segja við hv. þm.: Það verður auðvitað að skoða skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og hver einasti maður sem sér þessa

töflu fær staðfestingu á því sem ég hef sagt hérna, að þessi ríkisstjórn hefur leikið heimilin grátt.
    Það kann að vera að bankastjórar og hv. þm. segi: Nú verður bara að herða ólina. Þessir átta þúsund Reykvíkingar eða þessi áttunda hver fjölskylda sem hefur orðið að leita inn á Félagsmálastofnun á þessum vetri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á enga möguleika, hún þarf á hjálp að halda. Þess vegna er staða heimilanna hjá þúsundum manna þjóðfélagslegt vandamál sem ríkisstjórn og Alþingi verða að leysa. Þess vegna tek ég undir að það þarf að greina þessa skýrslu betur og gera tillögur sem duga til hjálpar fólki. Skrautmyndin af Reykjavík sem nú birtist í fjölmiðlum er röng.