Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:02:41 (7796)


[12:02]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi gert meira en fyrrv. ríkisstjórnir til þess að tryggja stöðu almennings í landinu við þessar aðstæður. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir lækkun vaxta, þeir hafa stórlækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur staðið þannig að málum að það er stöðugt verðlag og fyrir þá sem skulda eru þetta meginforsendur fyrir því að unnt sé að vinna sig út úr vandanum. Ég held því að þessi ríkisstjórn hafi gert meira fyrir þetta fólk en aðrar ríkisstjórnir og það er ástæðulaust að gera lítið úr því þegar um þetta mál er rætt.
    Það sem við erum að ræða hér er greining á því hvers vegna skuldir heimilanna hafa vaxið svo mjög sem raun ber vitni um og það liggur fyrir í þessari skýrslu. Ef við ætlum hins vegar að ræða um hvernig á að komast út úr því þá er sjálfsagt að líta á málefni einstakra manna í hverju tilviki fyrir sig, en almennt séð hefur þessi ríkisstjórn með stefnu sinni skapað betri forsendur en forverar hennar fyrir því að unnt sé að leysa þennan vanda.