Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:10:00 (7801)


[12:10]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að andmæla því sem hv. síðasti ræðumaður sagði í svari við andsvari mínu að ríkisstjórnin hafi gert mikið fyrir almenning. Ég hygg að efni ræðu minnar muni sýna fram á að það þarf ekki að koma mörgum staðreyndum á framfæri til þess að sýna fram á að þetta er að sjálfsögðu algerlega rangt, því miður fyrir almenning sem þarf að búa við þetta. Og það að vextir hér séu lágir er reginfirra. Mestan tíma þessa kjörtímabils hafa vextir verið gríðarlega háir og eru rétt að komast núna niður í það að vera lægri en þeir ógnarvextir sem voru. Það er bara allt annað mál.
    Ég held að það sé ekki hægt að ræða þessa skýrslu öðruvísi en að líta á þann veruleika sem veldur þessari stöðu. Að hluta til er þessi veruleiki rakinn í skýrslunni og það er út af fyrir sig gott að fá slíka samantekt á einn stað.
    Í fyrsta lagi búum við hér á landi við fáránlega lág taxtalaun sem gerir það að verkum að fólk hefur meira og minna nauðugt orðið að leita út á alls konar brautir, m.a. lánamarkaðinn. Lengi vel var hægt að leysa þessi mál, alla vega fyrir hluta þeirra sem bjuggu við þetta, með því að bæta á sig óheyrilega mikilli viðbótarvinnu. Nú er því einfaldlega ekki til að dreifa og meðan við erum með taxta undir 50 þús. kr. á mánuði fyrir fulla vinnu er ekki hægt að furða sig á því að það skuli vera margir sem verða að taka neyslulán. Þeir gera það hvort sem þeir geta eða ekki og því miður stendur það þannig af sér, eins og ég kem að síðar, að þetta er hægt. Þetta verður ekki leyst nema með einum hætti og það er með því að bæta lífskjör fólks hér á landi. Á sama tíma er verið að lækka barnabætur, hækka skatta, læknis- og lyfjakostnaður er hærri og þó að hækkun skatta komi ekki við allra lægstu launin þá er verið að taka skatta af alveg ótrúlega lágum launum. Um leið og fólk er komið rétt yfir lægstu taxtana, þá er það farið að greiða skatta af sínum launum. Hvar er nú fólkið sem lofaði hækkun skattleysismarka? Hvar er þetta fólk sem talaði hvað digrast um þetta í seinustu kosningabaráttu? Mér leikur forvitni á að vita það vegna þess að ég veit ekki betur en þetta fólk sé í ríkisstjórn og hafi alla burði og möguleika til að gera þetta. En það var nú eitthvað annað. Skattar voru hækkaðir en ekki skattleysismörk. Kannski var þetta bara prentvilla allan tímann.
    Það er líka veruleiki að hér er mjög lítill og ótraustur leigumarkaður sem hefur knúið fólk, að mínu mati langt umfram vilja þess, til fara út í að kaupa sér húsnæði eða byggja. Þetta hefur kannski á yfirborðinu verið fýsilegur kostur en þegar út í veruleikann er komið hefur það því miður reynst mjög mörgum hurðarás um öxl og þá erum við ekki að tala um að fólk sé að byggja yfir sig eða kaupa sér eitthvað sem er langt umfram þarfir því það á ekki við nema um hluta þessa hóps. Þegar er verið að tala um eitthvert meðaltal á fermetrum á mann á Íslandi, þá verður að taka tillit til þess að íbúðastærð er mjög misjöfn og það eru mjög margir sem lifa mjög góðu lífi vegna þess að bilið milli þeirra sem hafa það gott og þeirra sem hafa það skítt fer vaxandi og þar af leiðandi hækkar meðaltalið, ekki vegna þess að þeir sem hafa knöppust kjörin séu eitthvað að bruðla heldur vegna þess að þeir sem búa við betri kost lifa lífi sem er kannski ekki hægt að kalla neitt annað en umframraunveruleika og umfram þarfir.
    Ég vil líka taka það fram varðandi bankalánin að þar er ekki um neina einfalda stöðu að ræða. Það eru ýmsir sem taka lán og valda þeim ekki og sem ekki þurfa á þeim að halda, en það eru líka ýmsir sem eru knúðir út á þennan lánamarkað. Því miður er allt of mikið um að fólk taki lán miðað við lánastefnu íslenskra banka þar sem þeir fá lánuð veð hjá fjölskyldumeðlimum eða sjálfskuldarábyrgð og síðan verða heilu fjölskyldurnar bæði sundraðar og gjaldþrota. Þetta er auðvitað nokkuð sem ekki er hægt að líða og umbera og það verður að koma eitthvað annað til, m.a. skynsamlegar greiðsluáætlanir. Í sumum tilvikum væri hægt að komast af með minna en bankarnir sýna ekki þá ábyrgð sem þeir þurfa. Þeir eru ekki sem skyldi í því að gera greiðsluáætlanir, sem full þörf er á, heldur láta þeir sér duga að fá veð eða sjálfskuldarábyrgð einhverra sem hægt er að reyta eitthvað af og hirða ekki um það hvaða afleiðingar þessi lánastefna hefur. Því var það að við kvennalistakonur fluttum á síðasta þingi frv. til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna á grundvelli lánsviðskipta þar sem við vorum m.a. að reyna að taka á þessu máli. Í 1. gr. þess frv. kvað á um það að bankar, sparisjóðir eða aðrar lánastofnanir skyldu í samráði við lántakanda gera greiðsluáætlun fyrir lántakanda og meta greiðslugetu. Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt. Og ég vil grípa örlítið niður í greinargerðina vegna þess að þar kemur kjarni þessa máls fram en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í flestum lánaviðskiptum tíðkast nú að krefjast trygginga fyrir skilvísum greiðslum lántakanda. Algengt er að lántakandi sjálfur leggi fram slíkar tryggingar, t.d. með veði í fasteign sinni. Hitt er ekki síður algengt að krafist sé sjálfskuldarábyrgðar eins eða tveggja manna á greiðslu lántakanda. Þarf lántakandi að útvega þessa ábyrgðarmenn sem oft eru ættingjar lántakanda. Þá er einnig algengt að lántakandi fái lánað veð í eign annars manns til tryggingar á greiðslum sínum, sérstaklega í tengslum við fasteignakaup. Segja má að nánast sé meginregla að lántakandi geti ekki fengið lán án þess að afla tryggingar frá öðrum. Slíkt ætti þó einungis að vera í undantekningartilvikum og gilda um það skýrar reglur.``
    Og síðar: ,,Á síðustu árum hafa gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja aukist mjög mikið og sífellt fleiri ábyrgðarmenn hafa þurft að standa við ábyrgðir sínar, oft með þeim afleiðingum að ábyrgðarmaður verður líka gjaldþrota. Gjaldþrot hafa ekki einungis viðskiptalega hlið því að oft leysast heimili gjaldþrota einstaklinga upp.``
    Þær ógnvekjandi tölur sem komu fram í máli hæstv. félmrh. áðan um fjölgun þeirra búa sem eru tekin til gjaldþrotaskipta eru slíkar að ég neyddist til að athuga hvort mér hefði ekki örugglega bara misheyrst um fjölguna frá 1989--1993, en því miður hafði mér ekki misheyrst. Vissulega er bæði um fyrirtæki og einstaklinga að ræða, en samt sem áður segir þetta hörmulega sögu. Það eru 160 bú sem eru tekin til gjaldþrotaskipta 1989, en 846 1993. Og einhverjar afleiðingar hefur þetta allt saman. Þetta er svo napur veruleiki að það er ekki hægt að sitja bara og hugsa: Æ, ansans óheppni. Það virðist samt sem áður vera það

sem hugsað er hér á meðan ekki er tekið á þessu af neinni festu. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv., sagði að í þessari skýrslu er fyrst og fremst verið að fjalla um stöðuna en ekki úrræðin. En hann virtist telja að það væri gott en mér finnst það mjög vont. Ég vildi sjá hér úrræði.
    Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. félmrh. að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að taka á þessum málum, en ég tel að hún sé í svo slæmum félagsskap í ríkisstjórninni að hún hafi ekki nokkra möguleika eða burði til að gera það. Það er út af fyrir sig afskaplega erfið staða og ég er því ekkert undrandi á því að í þessari skýrslu sé fyrst og fremst stöðuúttekt á ferðinni en lítið um fyrirheit.
    Vissulega kom það fram hjá hæstv. félmrh. að hún hefði ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að gera hlutina. Hún vildi gjarnan að það yrði tekið á greiðsluvanda alla vega einhverra einstaklinga en ég bendi á að það er svo gífurlegur fjöldi fólks sem er ekki í verst setta hópnum en stefnir samt sem áður hraðbyri í gjaldþrot. Það er kannski það alvarlega hversu stór sá hópur er sem stendur verulega illa.
    Ábyrgð núv. ríkisstjórnar er feikilega mikil. Í fyrsta lagi vegna þeirrar vaxtahækkunar sem varð vorið 1991 og var í rauninni gjöf þessarar ríkisstjórnar og skilaboð til þeirra kjósenda sem gáfu henni umboð. Hún var það veganesti sem við höfum fengið til þess, bæði fólk og fyrirtæki, að búa við og afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa.
    Á bls. 9 í skýrslu hæstv. félmrh. stendur eilítið um þetta mál, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til skýringa á aukningu skulda frá 1990 má nefna mikla lækkun ráðstöfunartekna, mikla hækkun raunvaxta og loks aukið framboð lána til heimilanna með tilkomu húsbréfakerfisins.``
    Ég gagnrýni ekki aukið framboð lána til heimilanna en mér þykir það mjög slæmt að við skulum hafa ríkisstjórn sem eykur eftirspurnina vegna þess að eigið fé fjölskyldna er svo lítið. Það er þessi aukna eftirspurn sem er okkar stóra vandamál. Ekki framboðið á lánsfé.
    Ég vil ekki gera lítið úr því að það hafi orðið hrun á árinu 1983 þegar misgengið illræmda milli lána og launa varð til. Ég vil benda á að fjöldi ungs fólks og fólks á miðjum aldri situr enn í þeirri súpu, sem hefur verið að fleyta sér á skammtímalánum í meira en áratug. Þetta fólk er orðið langþreytt. Það er algjörlega úrræðalaust en hefur ekki haft það nógu slæmt til þess að hafa möguleika á skuldbreytingum. Þetta er fólkið sem er jafnvel enn eftir 10 ára basl að missa sín hús. Ég þekki mörg slík dæmi þar sem ég bý í nýbyggingahverfi þar sem hefur verið byggt síðustu 15 árin og því miður blasa þessar staðreyndir við. Þarna er í rauninni hópur sem hefur verið skilinn svo eftir að hann sér engin úrræði í þessum málum.
    Virðulegi forseti. Það er svo sannarlega ýmislegt sem væri ástæða til að koma sérstaklega inn á en ég vil vekja athygli á því að sá hópur sem hér um ræðir er ekki bara þær fjölskyldur sem eru mamma, pabbi, börn og bíll, heldur líka fjölskyldur einstæðra foreldra og 93% fjölskyldna einstæðra foreldra eru ungar konur með börn sín. Það fer saman við þeirra erfiðleika að þær eru mjög oft á lágum launum og atvinnuleysi er meira í hópi kvenna heldur en karla, 7,5% á móti 5,5% í marsmánuði sl., og það sem verra er að langvarandi atvinnuleysi hefur bitnað meira á konum en körlum. Þetta kom m.a. fram á málþingi norræna jafnlaunaverkefnisins sem haldið var í Stokkhólmi þann 14. sept. sl.
    Virðulegi forseti. Ég sé að það eru ekki margar sekúndur eftir af mínum ræðutíma. Það er fjöldamargt annað sem ég hefði gjarnan viljað koma inn á í þessari umræðu en ég læt þessu lokið í bili. Ég lýsi hins vegar fullri ábyrgð á hendur þessarar ríkisstjórnar og ég held að staðan sem er hér nú sé svo alvarleg að það dugi ekkert annað en nýtt fólk við stjórnartaumana til þess að taka á því.