Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:41:55 (7803)


[12:41]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi skýrsla er um margt mjög fróðleg og líka ógnvænleg. Skuldastaða heimilanna sem þar kemur fram er slík að mönnum hlýtur að hitna í hamsi við það sem hefur verið að gerast síðasta kjörtímabil. Eins og kemur fram í skýrslunni má rekja skuldastöðu heimilanna fyrst til misgengis lánskjaravísitölu og launa árið 1983 þegar þessi þróun byrjar að snúast við. Það fer ekki á milli mála að þeir hópar fólks sem lentu í því ástandi eru ekki enn búnir að ná sér síðan það gerðist. Það hefur verið tekið á málum nokkurra aðila en ekki nægilega heildstætt á málinu. Það hefur og verið að gerast að aðgengi að fjármagni er frjálsara hjá bönkum og lánastofnunum og bankar hafa ekki alltaf spurt um greiðslugetu fólksins sem taka lánin heldur fyrst og fremst um hvaða veð það hefur.
    Það væri nærtækt að spyrja á hinu háa Alþingi, þó e.t.v. geti hæstv. félmrh. ekki svarað því: Hvaða reglur setja bankastofnanir sér um lánveitingar og ábyrgðir bankanna og tryggingar fyrir lánum? Það segir í sameiginlegum ákvæðum laga um bankastofnanir, með leyfi forseta:
    ,,Bankaráð setur að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans. Þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Reglur þessar skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega og skulu þær sendar bankaeftirliti sem láta skal í té álit á þeim hverju sinni.``
    Það væri fróðlegt að vita hvort það hefur ekkert verið skoðað hvaða reglur bankastofnanir ættu að setja um það að lána fólki, einstaklingum, á þessu 13 ára tímabili sem skuldir hafa verið að aukast með þessum hætti. Við vitum að það hefur farið vaxandi á síðustu árum að bankastofnanir taka íbúðarhúsnæði upp í gjaldþrot hjá fólki og reyna síðan að selja það og venjulega bara fyrir þeirri skuld sem bankinn á þannig að bæði tapar fólkið öllu sínu og hugsanlega aðrar lánastofnanir eða aðrir skuldarar hjá þeim sama einstaklingi þar sem bankinn hefur aðeins talið sér skylt að taka veð í húsnæðinu eða einhverri steinsteypu og

geta síðan selt það fyrir sinni skuld og það sé bankanum ekkert viðkomandi hvort lántakandinn getur greitt til baka. Það er fyrst og fremst hugsað um það að bankinn hafi eitthvert veð sem hann geti hugsanlega selt bara fyrir sinni eigin skuld.
    Ég held að það væri verðugt verkefni hjá hæstv. ríkisstjórn að athuga hvaða reglur um lánveitingar og ábyrgðir gilda hjá bönkunum þegar þeir lána heimilum og einstaklingum. Hvort ekki sé tími til kominn að það fari fram meiri athugun á greiðslugetu og meiri athugun á því hvort menn raunverulega eru meðvitaðir um það og hvort eðlileg fræðsla er í gangi um það hvaða áhrif það hefur á fjárhag einstaklinga að taka viðkomandi lán.
    Það leiðir auðvitað hugann að því að fræðsla um fjármál einstaklinga og heimila hefur verið í algeru lágmarki hér á landi.
    Það er einnig athyglisvert sem kemur fram í þessari skýrslu að árið 1988 hafi 67% íbúða verið í eigu 50 ára og eldri. Það segir okkur að fyrir aðeins 6 árum var nærri 70% af íbúðum í eigu þessa aldursflokks og að mestu leyti skuldlaust líklega. En síðan hefur þetta verið að snúast nokkuð við og það hlýtur að hafa það í för með sér að þeir sem kaupa íbúðir fara út á lánamarkaðinn.
    Mér fannst líka mjög athyglisvert það sem hæstv. félmrh. sagði áðan að það væri í raun og veru ekkert gagn í þeim úrræðum sem til væru í dag. Það þyrfti úr að bæta og hún nefndi ráðstafanir og staðreyndir sem eru fyrir hendi á hinum Norðurlöndunum sem eru búnar að vera þar í gildi í ein 13 eða 14 ár. Við erum hér svo langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum að við höfum ekki enn þá tekið á þessu máli. Ég vænti þess að eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan að þetta væri verið að skoða og það fari að fást niðurstaða í það mál. Ég vil í því sambandi benda á, af því að hæstv. ráðherrann vitnaði einmitt til reynslu nágrannaþjóðanna í þessu sambandi, að við á Íslandi við þurfum ekkert alltaf að vera að finna upp hjólið. Við getum farið eftir reynslu annarra þjóða sem við teljum okkur skyldar og hafa gengið í gegnum það sama. Við vitum að við erum að mörgu leyti um tíu árum á eftir í ýmissi þróun miðað við hin Norðurlöndin og hvers vegna ekki að læra af reynslu þeirra? Hún vitnaði til reynslu Norðmanna og að Svíar væru að taka upp svipað kerfi og hefði reynst Norðmönnum vel. Hvers vegna er ekki hægt að nýta sér í meira mæli þessa reynslu og þurfa ekki endilega að vera að gera einhverjar tilraunir á Íslandi með þetta? Ég vænti þess að fá svar við því.
    Mér finnst líka mjög vert að benda á að samkvæmt skýrslunni frá Þjóðhagsstofnun hafa skuldir íslenskra heimila aukist um 14% á ári á meðan kaupmátturinn hefur aukist um 1% á ári síðustu 14 ár. Skuldirnar hafa aukist um 14% á ári en kaupmátturinn um 1% síðustu 14 árin. Og tölur frá síðasta ári benda til þess að skuldir heimilanna hafi enn aukist og nú séu þær sem sagt orðnar 14% hærri en ráðstöfunartekjur. Manni dettur nú í hug fjölskyldurnar 14 þegar verið er að ræða um allar þessar fjórtántölur hér.
    Við stöndum frammi fyrir því að skuldir heimilanna eru orðnar jafngífurlegar og nefnt er í skýrslunni, 256 milljarðar kr. Ég spyr: Hvernig eiga heimilin að geta greitt sínar skuldir þegar skattbyrðin hefur verið færð af fyrirtækjunum yfir á einstaklingana í svo miklum mæli sem gert hefur verið á tímabili þessarar ríkisstjórnar? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér áðan að af þeim 18 milljörðum sem skuldirnir hefðu aukist núna væru líklega einir 6 milljarðar fólgnir beint í því að skattbyrðin hefði verið flutt af fyrirtækjum yfir á einstaklinga. Það getur látið nærri þar sem breytingin á aðstöðugjaldinu var metin á u.þ.b. 4 milljarða kr. Síðan hafa aðrar breytingar fylgt í kjölfarið.
    Það hefur nokkuð verið nefnt að þær fjölskyldur sem hér sé aðallega um að ræða sé unga fólkið í dag. Það er unga fólkið sem fætt er á milli 1950 og 1960 og er í dag að koma undir sig fótunum og komið með fjölskyldu. Vissulega hefur margt af því fólk lent í misgengi launa og lánskjaravísitölu og hefur átt fullt í fangi með að komast út úr þeim aðstæðum. Hins vegar hefur það sama fólk þó búið við hagstæðari námslán og það hefur einnig búið við það að hafa öruggt atvinnuástand þangað til síðustu ár. Það hefur getað lagt á sig mikla vinnu til að standa í skilum með sínar greiðslur. En unga fólkið í dag sem er að reyna að mennta sig fær kannski ekki einu sinni vinnu. Ef það fær vinnu þá leggur það á sig alla þá vinnu sem það getur en það fara 50% af tekjunum í skatta. Jafnframt er dregið úr möguleikum þess til námslána ef það vinnur sér inn meira en viðmiðunarlaunin eiga að vera samkvæmt reglum. Það getur því verið mjög erfitt um vik hjá því unga fólki sem í dag er bæði að mennta sig og ætlar að koma sér upp eigin húsnæði, hvort sem það gerir það með eigin húsnæði eða leigu þá er bara staðreyndin sú að kjör þessa unga fóks eru sífellt að versna.
    Á sl. vetri var ég á ráðstefnu þar sem rætt var um það hvers vegna unga fólkið byggi svo lengi í heimahúsum á Íslandi. Það býr miklu lengur í heimahúsum hér, upp í hærri aldursflokka en gerist á hinum Norðurlöndunum. Það komu fram ýmsar skýringar á þessari ráðstefnu á því hvers vegna það væri. Það var nefnt að launin væru svo lág að fólk gæti ekki lifað af sínum launum á meðan það væri að koma sér upp einhverri framtíðaraðstöðu. Það var einnig nefnt að fólk væri lengur í námi, að foreldrar byggju rýmra en hefði verið áður fyrr og unga fólkið gæti því búið lengur í heimahúsi. Það voru einnig nefndar aðstæður einstæðra mæðra sem væru að reyna að búa sig undir framtíðina með því að fara í eitthvert nám. Þær hefðu ekki aðstöðu eða efni á því að búa í eigin húsnæði og halda sér uppi í námi. Þær neyddust til þess, þó þær hefðu verið farnar að heiman, að flytja aftur heim. Þessu er alveg öfugt farið á hinum Norðurlöndunum. Þar gerist það að fólk flytur úr heimahúsum í kringum tvítugt. Launin eru þar víða allt að helmingi hærri fyrir sambærileg störf en hér á landi. Ég þekki dæmi af ungum manni sem er með stúdentspróf og vinnur á leikskóla í Danmörku. Hann hefur 80--90 þús. kr. á mánuði. Hann hefur enga menntun nema stúdentsprófið. Hvað hafa lærðar fóstrur eða leikskólakennarar, eins og það heitir núna? Hvað hafa þær þegar þær fara út á vinnumarkaðinn og fara að vinna á leikskólunum? Í kringum 50 þús. kr., kannski 55 þús. kr., þær ná kannski skattleysismörkunum. En þarna hefur ófaglært starfsfólk allt að 90 þús. kr. á mánuði. Launastefnan á Íslandi á stóran þátt í því hvernig skuldir einstaklinga og heimila eru í dag og hver aðstaða ungs fólks er í dag.
    Virðulegi forseti. Mér sýnist að tíma mínum sé að ljúka. Ég vildi aðeins segja að lokum að ég tel að ef ríkisstjórnin ætlar sér að sitja áfram þá verði hún að endurskoða skattlagningu einstaklinga, draga aftur úr henni og láta fyrirtækin greiða a.m.k. sambærilega skatta á við heimilin.