Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 13:49:42 (7807)


[13:49]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér liggur fyrir frá hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, um skuldastöðu heimilanna er að vissu leyti þungur dómur yfir ríkisstjórnum undangenginna ára og þá sama hverjir koma að, en hún er ekki síst þungur dómur yfir störfum þessarar ríkisstjórnar á síðustu árum og þá um leið störfum hæstv. félmrh.
    Það má endalaust deila um það hvaða ástæður liggja að baki því hvernig sú staða sem heimilin nú eru komin í hefur orðið til. Ég vil þó skýra það út frá tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi er það húsnæðiskerfi sem hér hefur verið hringlað í á undanförnum árum sem veldur þar miklu um og í öðru lagi er það hið almenna efnahagsástand sem er í þjóðfélaginu.
    Hæstv. félmrh. sagði það áðan við þessa umræðu að það vildi enginn kalla yfir sig biðraðakerfið frá árinu 1986 sem núv. hæstv. félmrh. státar svo af að hafa lagt af. Mér finnst það vera heldur skárra ef ég ætti að svara einvörðungu fyrir sjálfan mig og lít þá til annarra sem hugsanlega gætu verið í svipaðri stöðu. Mér þætti heldur skárra að búa við það að þurfa vera í biðröð til að bíða eftir því að geta fengið lán með þokkalegum kjörum, löngum greiðslufresti, lágum vöxtum til þess að koma þaki yfir höfuðið, heldur en að vera í þeim biðröðum sem fjöldi fólks er í í dag hjá fógeta þar sem verið er að bíða eftir því að fólk sé tekið til gjaldþrotaskipta. Hin biðröðin er miklu betri, biðröðin sem menn biðu í árið 1986, en ekki sú biðröð sem hæstv. félmrh. hefur nú og á hlut í því að hafi myndast hjá fógeta, gjaldþrotin þar sem búið er að blekkja stóran hluta fólks til að fara inn í húsnæðislánakerfið, húsbréfakerfið, með miklum afföllum og háum vöxtum. Þetta er auðvitað ein megin- og langstærsta ástæðan fyrir því hvernig komið er fyrir ungu fólki í dag.
    Hitt er svo aftur annað mál að á sama tíma og hæstv. félmrh. hreykir sér af því að þetta kerfi sé svo óskaplega gott, gjaldþrotakerfið sem tók við eftir kerfið 1986, húsbréfakerfið, hefur hæstv. félmrh. með aðgerðum sínum á Alþingi greitt fyrir því að vextir væru hækkaðir í þessu kerfi, vaxtabætur til fólks sem er í miklum erfiðleikum væru lækkaðar og barnabætur til þessa fólks sem er líka í mestu erfiðleikunum hafa verið lækkaðar stórkostlega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar þetta fer allt saman saman, háir vextir, lækkandi vaxtabætur, lækkandi barnabætur, þá er auðvitað auðséð og þarf enga spámenn til, það þarf enga skýrslu um það til að meta hvernig komið er fyrir utan það að það efnahagsástand sem hér hefur myndast frá árinu 1991 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Þegar þetta allt saman leggst saman þá blasa þær staðreyndir við sem koma fram í þessari skýrslu.
    Þó svo að sá sem hér stendur sé einn af skýrslubeiðendum þá er það nú svo að það hefði sennilega átt að fara örlítið lengra aftur en aftur til ársins 1980 og fá upplýsingar sem eru auðvitað sérrannsóknarefni og meta og skoða hvernig ástandið er annars vegar hjá kynslóðinni sem hefur þurft að vera að fjárfesta, mennta sig og koma upp börnum eftir árið 1980 og svo þeirri kynslóð sem lifði hér fyrir árið 1980 og kom sér þá þaki yfir höfuðið, var í námi og var að koma upp börnum. Þarna eru auðvitað algjör kynslóðaskipti. Þeir sem hafa þurft að standa í lífsbaráttunni, þessari hörðu lífsbaráttu, eftir 1980 þurfa nú að greiða

námslánin sín að fullu, þurfa að greiða hærri vexti af húsnæðislánunum og bankalánunum og verðtrygginguna. Þetta fólk hefur líka orðið fyrir kjaraskerðingunni með lækkun vaxtabótanna, lækkun barnabótanna. Hins vegar þeir sem stóðu í þessari hörðu lífsbaráttu, sem alls ekki var hörð þá að mínu viti, fyrir árið 1980, þeir eiga skuldlausar eignir í dag. Þeir eru að greiða nokkur hundruð krónur á ári af námslánunum sínum. Þeir eru að greiða nokkur hundruð krónur á ári af húsnæðislánunum sínum. Og þegar þetta er borið saman og skoðað þá hljóta allir að sjá að þarna er um algjör kynslóðaskipti að ræða. En það hafa orðið umskipti, algjör umskipti í íslensku samfélagi á síðustu þremur árum. Um mitt ár 1991 gerist það að kynslóðin sem er fædd eftir 1940 upplifir alveg nýjar aðstæður í samfélaginu. Það er atvinnuleysið. Það er atvinnuleysið og kjaraskerðingin sem þessi ríkisstjórn hefur leitt yfir þjóðina. Því miður er það svo að um leið hafa verið lagðar á þennan hóp, sem er að upplifa atvinnuleysið og kjaraskerðinguna, auknar álögur í heilbrigðisþjónustunni, auknar álögur á ýmiss konar félagslegri þjónustu. Allt sem menn þurfa að leita með til ríkisins og áður var einstaklingunum að kostnaðarlausu þurfa menn nú að greiða fyrir.
    Ég held það hljóti að vera að hæstv. félmrh. þekki margar sögur af þessum hlutum hér úr Reykjavíkurkjördæmi þar sem hæstv. félmrh. er þingmaður þessa kjördæmis. Það er því miður svo að hér í borginni er fullt af fólki sem ekki hefur efni á því að bjóða börnunum sínum upp á sömu aðstöðu t.d. til íþróttaiðkana og almenningur hefur. Það er hér fullt af fólki sem ekki hefur peninga til að kaupa skólavörur handa börnunum sínum. Það er hér fullt af fólki í borginni sem ekki hefur efni á því að kaupa sér mat og þannig hefur efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar sem fór af stað um mitt ár 1991 leitt þær skelfingar yfir þessa þjóð. Það er því ekkert skrýtið þó að þetta fólk spyrji: Hvar eru skattalækkanirnar sem Sjálfstfl. lofaði þjóðinni fyrir kosningarnar 1991? Hvar er 35% skattahlutfallið sem Sjálfstfl. lofaði Reykvíkingum og landsmönnum öllum fyrir kosningarnar 1991 sem hefði sparað almenningi í landinu 9.150 millj. kr.? Þá var skattprósentan 39,79% en hver er hún í dag? Hún er tæp 42%. Með hækkun beinna skatta, með hækkun óbeinna skatta, með hækkun á þjónustu heilbrigðisþjónustunnar, með hækkun og álögum á almenning í menntakerfinu, hafa skattálögur á einstaklinga sennilega hækkað á þessum tíma um 12.000 millj. kr.
    En þetta fólk spyr líka hæstv. félmrh.: Hvar eru 80 þús. kr. skattleysismörkin sem Alþfl. lofaði fólkinu fyrir alþingiskosningarnar 1991? Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvar eru þessi 80 þús. kr. skattleysismörk sem hæstv. félmrh. ásamt öðrum alþýðuflokksmönnum lofaði fólkinu í landinu fyrir kosningarnar 1991? Staðreyndin er sú að svo er búið að breyta þessu skattkerfi á undanförnum árum að nú er á hinn vinnandi mann, almenning í landinu, orðinn jaðarskattur upp á 70% fyrir þá sem þó hafa vinnu og hafa möguleika á því að afla sér viðbótartekna með yfirvinnu þá þurfa þeir einstaklingar af hverjum 100 kr. sem þeir vinna sér inn til viðbótar að byrja á því að skila 70 kr. til hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar. 70% jaðarskattur hjá hæstv. fjmrh., þeim manni sem fyrir alþingiskosningarnar 1991 lofaði að skattprósenta í tekjuskatti einstaklinganna yrði komin niður í 35%. En ég þykist viss um að hæstv. félmrh. komi í ræðustólinn á eftir og lýsi því hversu ytri aðstæður eru alveg skelfilega erfiðar og hvað þessi ríkisstjórn hefur gert fyrir þjóðina að geta siglt þjóðarskútunni í gegnum þessa miklu erfiðleika. Staðreyndin er hins vegar sú, hæstv. félmrh., að ytri aðstæður í samfélaginu eru betri nú en oft áður. Það þori ég að fullyrða, hæstv. félmrh.
    Þorskaflinn er meiri að verðmætum nú en hann var 1983. Þá veiddu menn ekkert einasta tonn af loðnu. Nú veiða menn milljón tonn af loðnu. Þá voru menn ekki farnir að veiða rækju. Nú veiða menn tugi þúsunda tonna af rækju og þannig mætti lengi halda áfram í þessum samanburði. Staðreyndin er hins vegar sú að sá vandi sem menn standa frammi fyrir nú er heimatilbúinn vandi. Það er vandi sem þessi ríkisstjórn bjó til um mitt ár 1991 og það eru þær aðgerðir sem hafa skapað, hæstv. félmrh., það ástand sem hér er lýst í þessari skýrslu um skuldastöðu heimilanna að langstærstum hluta til. Menn byrjuðu á því að hækka vextina um mitt ár. Menn skáru niður opinberar framkvæmdir. Það varð samdráttur í samfélaginu. Menn hækkuðu opinberu gjöldin á atvinnulífið. Það leiddi til taps á fyrirtækin. Menn hafa hins vegar leiðrétt það örlítið á undanförnum mánuðum og árum þar sem menn hafa aftur lækkað gjöldin á atvinnulífið. Örlítið. En menn byrjuðu á því að hækka álögurnar á atvinnulífið sem varð til þess að fyrirtækin fóru að tapa. Skattar hafa verið hækkaðir, álögur í opinberri þjónustu hafa verið hækkaðar og þetta hefur leitt til þess að við erum komin inn í ákveðinn vítahring sem lýsir sér í stórum dráttum þannig að fyrirtækin tapa. Það er engin ný fjárfesting. Atvinnutækifærum fækkar. Fólki er sagt upp. Atvinnuleysið tekur við. Kjaraskerðing fyrir þá sem þó hafa atvinnu. Kjaraskerðingin leiðir til þess að samdráttur verður í ríkisbúskapnum í tekjum ríkisins. Það myndar halla á fjárlögum um leið og atvinnuleysisbæturnar auka útgjöldin. Menn fara þá leið að hækka skattana til þess að loka fjárlagagatinu. Skattahækkunin leiðir til kjaraskerðingar sem aftur leiðir til minni tekna ríkissjóðs. Þannig erum við föst inni í þessum vítahring sem þessi ríkisstjórn er ófær um að koma okkur út úr. Til þess að við komumst út úr þessum vítahring þarf að gjörbreyta um stefnu. Hér þarf að skapa ný atvinnutækifæri. Hér þarf í raun og veru að koma hjólum atvinnulífsins af stað.
    Því miður er tíma mínum við þessa umræðu að ljúka en ég kem kannski inn í hana aftur því ég hef rétt á að tala tvisvar og ætla þá að nota seinni hluta ræðutíma míns í það að gera grein fyrir því hvernig við framsóknarmenn viljum komast út úr þeim vítahring sem þessi ríkisstjórn er búin að koma okkur inn í og er allsendis ófær um að koma okkur út úr.