Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:04:06 (7808)


[14:04]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. lýsti því yfir að hann vildi frekar hafa gamla biðraðakerfið en húsbréfkerfið og sagði að þar væru betri kjör og lægri vextir. Ég hygg að hv. þm. sé búinn að gleyma svörtu skýrslunni frá Ríkisendurskoðun um 86-kerfið. Hvað sagði sú skýrsla? Hún sagði að kerfið stefndi í gjaldþrot og það þyrfti tvennt að koma til. Annaðhvort að hækka verulega ríkisframlagið sem var ærið fyrir eða hækka verulega vexti í því kerfi. Það er nú raunveruleikinn, virðulegi þingmaður. Það er alveg ljóst að þegar hv. þm. talar um afföll þá voru afföll í því kerfi líka. Fólk þurfti ekki bara að bíða í 3--4 ár heldur þurfti að bíða í 18 mánuði loksins þegar það kom að því í því kerfi vegna þess að lánin voru afgreitt í þremur hlutum. Og hvað þurfti að gera á þeim tíma? Taka skammtímalán eftir skammtímalán með háum vöxtum, 8--9% vöxtum. Oft lenti það með lánin á borði lögfræðinga með ærnum tilkostnaði. Ég held að það sé enginn nema hv. þm. og kannski einhverjir framsóknarmenn sem vilja taka upp það gamla kerfi.
    Ég vil segja það þegar verið er að tala um skuldaaukningu heimilanna að mér finnst að framsóknarmenn eigi ekki að hafa hátt í því efni. Það varð veruleg skuldaaukning hér á tímum góðæris, 1985--1986, veruleg skuldaaukning. Jafnvel þó að ráðstöfunartekjur heimila ykjust um 40%. Hv. þm. veit það og hans flokkur hefur verið í ríkisstjórn á tíma þeirra efnahagsþrenginga sem við höfum búið við sl. sjö ár og þá jukust líka skuldir heimilanna verulega.