Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:07:33 (7810)


[14:07]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ef hv. þm. talaði hér af einhverri sanngirni þá ætti hann að láta það koma fram að það er stöðugleiki ríkjandi varðandi húsbréfakerfið. Hver eru afföllin? Undir 5%. Vextir í húsbréfakerfinu 5%. Afföllin voru mikil á sínum tíma en af hverju var það? Vegna þess að við þurftum að grípa til greiðsluerfiðleikalána út af 86-kerfinu og við vorum með tvö kerfi í gangi vegna þess að framsóknarmenn vildu halda í þetta gamla 86-kerfi. Það er staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir.
    Þegar við gátum losað okkur einmitt út úr þessu 86-kerfi, losað okkur við þau ríkisframlög sem því fylgdu, þá gátum við einmitt skapað svigrúm til þess að byggja upp félagslega íbúðakerfið. Ég held að hv. þm. ætti að muna það. Nei, ég held að það vilji enginn taka upp þetta galna kerfi sem við bjuggum við sem stefndi ekki í neitt annað en gjaldþrot samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar.