Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:26:50 (7814)


[14:26]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú sem hér er til umræðu varpar athyglisverðu ljósi á þróun mála á nokkuð löngum tíma eins og bent hefur verið á í þessari umræðu. Auðvitað er ekki hægt að loka augum fyrir því að erfið skuldastaða heimilanna á sama tíma og dregið hefur úr kaupmætti undanfarin ár er mikið áhyggjuefni. Hins vegar er ekki hægt að fjalla um þetta mál án þess að líta til þróunar mála hér á landi í lengri tíma og skýrslan tekur raunar tillit til þess og skýrir þróunina að nokkru leyti með þeim hætti. Þau miklu umskipti sem hafa orðið hér á landi í málefnum skuldara má raunar rekja að miklu leyti til þess sem gerðist hér þegar verðtrygging fjárskuldbindinga hófst árið 1979 með Ólafslögum sem svo voru kölluð. Sú lagasetning sem tók raunar gildi á árinu 1980 gjörbreytti öllum viðmiðunum í sambandi við lántökur á Íslandi. Fram að þeim tíma og raunar fram yfir þann tíma höfðu lánamál verið með allt öðrum hætti, ekki síst til húsbygginga, en tíðkaðist í nágrannalöndunum. Í nágrannalöndum okkar var boðið upp á langtímalán til húsakaupa og húsbygginga en slík lán tíðkuðust ekki nema í mjög takmörkuðum mæli hér á landi. Það sem gerði mönnum kleift að byggja yfir sig húsnæði á þessum árum fyrir 1980 var fyrst og fremst að það átti sér stað í þjóðfélaginu með vitund og vilja stjórnvalda gífurlegir flutningar á fjármagni frá fjármagnseigendum, þ.e. einkum og sér í lagi sparifjáreigendum yfir til atvinnulífsins og til einstaklinga sem stóðu í framkvæmdum. Með þessum hætti var staðið að uppbyggingu húsnæðismála einstaklinga árum saman og raunar áratugum saman en breyting var á þessu með Ólafslögum 1979 þegar verðtrygging fjárskuldbindinga hófst.
    Sú mikla skuldaaukning sem hefur verið hjá einstaklingum sem þessi skýrsla varpar ljósi á tengist að sjálfsögðu þeirri staðreynd að á níunda áratugnum buðust mönnum aðrir kostir til að fjármagna húsnæðiskaup. Lán til lengri tíma breyttu stöðu einstaklinganna gagnvart húsnæðiskaupum og byggingu húsnæðis og að sjálfsögðu fylgdi í kjölfar þess allveruleg skuldaaukning.
    Það er hins vegar rétt, vegna þess sem fram hefur komið hér í umræðunni að skoða hvenær þessi skuldaaukning verður einkum og sér í lagi en þó er sérstaklega ástæða til þess að skoða það hvenær breyting verður veruleg á þróun skulda heimilanna þegar þær eru bornar saman við ráðstöfunartekjur, þegar litið er á þær sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Það hefur komið fram í máli allmargra þingmanna, ég minnist sérstaklega ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, þar sem hún spurðist fyrir um samvisku stjórnmálaflokkanna og hældi Sverri Hermannssyni bankastjóra og fyrrv. þingmanni og ráðherra fyrir hreinskilni í þeim efnum, þar sem hann barði sér á brjóst og játaði syndir sínar. Þá spurði hv. þm. Guðrún Helgadóttir að því hvar samviska stjórnarflokkanna væri í þessum efnum. Hún fór nú samt ekki að dæmi bankastjórans og játaði syndir sínar, sem hefði þó verið full ástæða til að gera, því ef skoðuð er þróun skulda heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og menn velta því fyrir sér hvar það hlutfall fer virkilega að verða óhagstætt þá kemur það fram á bls. 9 í skýrslunni og raunar kemur það einnig fram síðar, á bls. 14, að skuldahlutfallið hér stendur nokkuð í stað á árunum 1985 til 1987. Þess ber þó að geta að þarna er um hlutfall að ræða og þar sem það er vitað að kaupmáttur launa jókst mjög mikið á þessu tímabili þá ber að geta þess að skuldirnar aukast að raungildi talsvert mikið þó að þær aukist ekki sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. En síðan gerist það, eins og skýrslan varpar ljósi á á bls. 14, þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Skuldahlutfallið nær hámarki á hinum Norðurlöndunum 1988 en um það leyti snarhækkar hlutfallið á milli skulda og ráðstöfunartekna hér á landi.``
    Með öðrum orðum, ef litið er yfir þessa þróun þá kemur það í ljós að á þeim árum, 1988 og þar á eftir, 1989 og 1990, verður hröð þróun til hins verra á hlutfalli milli skulda heimilanna og ráðstöfunarteknanna. Það er að sjálfsögðu það sem stjórnarandstaðan, sem hefur haft sig mjög í frammi í þessari umræðu, verður að horfast í augu við, að þetta hlutfall, ráðstöfunartekjurnar annars vegar og skuldir heimilanna hins vegar, verður mjög óhagstætt á þessum árum.
    Ég reikna fastlega með því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hér hafa haft sig mest í frammi telji sig ekki bera neina ábyrgð á þeirri þróun frekar en á annarri þróun. En svona er þetta nú samt og það verður þá að líta á það í sama ljósi og þá staðreynd að ef litið er til þróunarinnar sl. þrjú ár þá kemur vissulega fram þar aukning skulda heimilanna sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af og skal ég ekki draga neitt úr því að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því. En það ber þó að líta á það sem meginstaðreynd málsins að það hefur dregið verulega úr hraða skuldaaukningarinnar og þó mest á sl. ári. ( Gripið fram í: Miðað við kaupmátt?) Miðað við kaupmátt. Þetta hefur gerst akkúrat á sama tíma og við höfum gengið í gegnum mikla erfiðleika í okkar efnahagslífi og ætti ekki að þurfa að skýra það nákvæmlega fyrir hv. þingheimi, hann ætti að þekkja það svo vel að ekki þyrfti að fara ofan í saumana á þeim málum í þeim erfiðleikum sem við höfum verið að ganga í gegnum. Þó er það víst nauðsynlegt vegna þess að hér hafa komið fram mjög sérkennilegar fullyrðingar um það hvernig á málum okkar hafi verið haldið sl. ár.
    Ég vil geta þess sérstaklega að það kom fram áðan í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar að skattahækkanir hefðu verið miklar hjá þessari ríkisstjórn og það bæri að taka það til greina sérstaklega þegar kaupmátturinn og skuldastaðan væri til umræðu. Nú er það svo að þetta er alveg hárrétt athugasemd, auðvitað þarf að taka tillit til þess hvernig heildarskattheimtu á ársgrundvelli hefur verið hagað því auðvitað hefur hún mjög mikil áhrif á stöðu heimilanna og kaupmáttinn almennt.
    Ég er hér með yfirlit frá fjmrn. um breytingar á skattalögum og þær breytingar sem þær hafa haft í för með sér á skattbyrði þegnanna. Þetta plagg varpar ljósi á það að ef við lítum til heildarskattgreiðslna á ársgrundvelli þá var hækkunin þar, á tímabilinu 1989 til 1991, 10 milljarðar. En þessi hækkun, sambærileg hækkun á árunum 1992 til 1994, er 850 millj. Með öðrum orðum, þegar litið er á dæmið í heild sinni þá er meira en tíföld hækkun á sköttum á kjörtímabili fyrri stjórnar, 1989--1991. Þannig að þessi lýsing hv. þm. á aðstæðum stenst engan veginn. Ég held að það hljóti að koma inn í þetta dæmi m.a. hvað virðisaukaskattslækkunin vegur þungt í þessu dæmi. Ef þingmenn velta vöngum yfir því hvar þessar upplýsingar sé að finna þá er þær að finna í gögnum frá fjmrn. sem sjálfsagt er að afhenda þingmönnum ef þeir óska eftir því.
    Það var einnig fullyrt áðan að sjaldan eða aldrei hefði verðmæti sjávarafurða verið meira heldur en í dag. Ég held að ég muni það rétt, án þess að ég hafi þau plögg við höndina, að heildarvirði sjávarafurða hafi lækkað um 25% sl. 2--3 ár og geta menn leitt að því líkum hvaða áhrif það hefur haft á þjóðarbúskap. ( Gripið fram í: Við vildum gjarnan fá að sjá það.) Það væri einnig rétt fyrir þingheim að hugleiða það þegar verið er að líta á þessa skýrslu hér og þróun skulda heimilanna síðustu tvö árin að þar er varpað ljósi á það hvernig þessi ríkisstjórn hefur verið að reyna að glíma við þann vanda sem óx en minnkaði ekki í höndum fyrri ríkisstjórnar.
    Því var haldið fram í þingræðu um þetta sama mál og er til umræðu nú að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði lækkað verðbólguna. Það má vera að sínum augum líti hver silfrið, en ef ég man það rétt þá gerðist það þannig að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði mótað sér ákveðna stefnu í samningum við opinbera starfsmenn árið 1989. Þeir samningar náðust eftir harkaleg verkföll sem höfðu orðið hjá kennarastéttinni. Eftir að nýir samningar höfðu markað efnahagsstefnu, verðbólgustefnu ríkisstjórnarinnar, þá tók verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og ómerkti þessa stefnu en markaði nýja stefnu sem leiddi til þess að það varð að setja bráðabirgðalög ( ÓÞÞ: Setti verkalýðshreyfingin þessi bráðabirgðalög?) á þessar stéttir sem höfðu fengið nýjan samning, sem hafði raunar verið lýst af þáv. hæstv. fjmrh., hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem tímamótasamningi, sem þarna var ógiltur með bráðabirgðalögum snemma árs 1990.
    Það hafa verið hér talsverðar umræður um vaxtamál og sérstaklega var hv. þm. Finnur Ingólfsson með það sem innlegg í þessa umræðu að ríkisstjórnin hefði byrjað á því óhappaverki að hækka vexti þegar hún tók við völdum en þeir hefðu síðan lækkað lítillega. Það er nú svo að vorið 1991 hafa vextir líklega verið á bilinu 6,5--7%, en þá hafði ríkisstjórnin í raun og veru ekki tekið á því máli, ekki hækkað vextina í samræmi við hvaða eftirspurn var eftir ríkisbréfum og þá seldust ríkisbréf ekki og þar af leiðandi var það bein afleiðing af þeirri óstjórn sem hafði verið á þessum málum að ríkisstjórnin neyddist til þess að hækka vextina snemma á ferli sínum. Vextirnir fóru yfir 8% en síðan eru þeir komnir nú undir 5% og er það athyglisverður árangur í baráttunni við háa vexti sem sjálfsagt er að viðurkenna.
    Ávöxtun ríkisvíxla hefur lækkað mjög mikið á Íslandi nú að síðustu og hefur raunar lækkað meira heldur en í flestum nágrannalöndum okkar. ( Gripið fram í: Enda var hún hærri.) Enda var hún hærri, kallar einn af stjórnarandstöðuþingmönnum og það er alveg rétt. Vextirnir voru hærri hér en það var m.a. vegna þess hverslags óráðsía hafði verið í fjármálum ríkisins áður og þekkja það jú flestir.
    Ég vil að lokum geta þess að mér finnst að umræðan um þessa skýrslu, sem er athyglisvert plagg, hafi litið nokkuð fram hjá því að hér er verið að lýsa þeirri þróun sem hefur orðið á undanförnum árum og er ekki sambærileg við þróun í nágrannalöndum okkar. Lánamarkaðurinn var hér með allt öðrum hætti á áttunda áratugnum. Þar var lánað og þar var byggt og þar var fjárfest á kostnað sparifjáreigenda, en þær aðstæður breyttust árið 1979 þegar verðtrygging fjárskuldbindinga hóf innreið sína hér. Það má segja að þjóðin hafi verið nokkuð lengi að læra á þá staðreynd að það verði að borga lánin til baka, en þegar á heildina er litið verður að telja það að hluti af þessari skuldaaukningu sé bein afleiðing af því að við höfum boðið upp á verulega aukna lánamöguleika til einstaklinga, bæði til fjárfestinga og einnig til eyðslu og held ég að það verði þá að líta á það mál í heild sinni, það sé fáránlegt í raun og veru að lýsa því sem sérstökum mistökum núv. ríkisstjórnar.