Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:49:55 (7819)


[14:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrst vil ég taka undir það hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að kennslan mistókst algjörlega. Ég vil ekki að öllu leyti bera það á kennarann því það var yfirlýst af nemandans hálfu að hann hefði engan áhuga á að læra neitt af viðkomandi kennara og það er löng reynsla fyrir því að þegar þannig stendur á þá er árangur enginn. En ég hef ekki hlýtt á öllu ósvífnari málflutning en fluttur var af hv. þm. Tómasi Inga Olrich. Ef það er hagfræðikenning vorra tíma að ekki megi hækka laun hjá kennurum, að þá fari allt efnahagslíf til fjandans, þá er það sérstæð kenning.
    Í annan stað. Ef hann ætlar að halda því fram að íslenskur vaxtamarkaður sé eitthvert sérfyrirbrigði í 250 þús. manna samfélagi á Vesturlöndum, ef hann trúir þessu virkilega --- landið var lokað af til þess að hægt væri að halda hér uppi okurvöxtum. Það vita það allir. Hv. þm. veit þetta mætavel. Hvað var með þessi ríki allt í kringum okkur þar sem íhaldið hafði stjórnað? Voru vextir þá ekki lágir þar til að bjóða upp á lán fyrir þessa ríkisstjórn ef allt var vitlaust hér? Og hvað með hallann á ríkissjóði, 10 milljarðana ár eftir ár eftir ár, sem hefur verið stutt af núverandi valdhöfum. Og menn hafa komið hér brosandi og sagt: Bestu fjárlög í heimi, og leyft sér að kalla aðra skepnur og vindhana af því að þeir hafa ekki viljað lofsyngja þá sem nú fara með völdin. Hvað með þetta lið? Svo segja menn hérna og horfa yfir salinn, að það hafi þurft og tekist að kenna Íslendingum að læra það upp á nýtt að þeir þyrftu að greiða skuldir sínar. Íslandsbanki er að fara fram á það í dag og bankakerfið að menn greiði fyrir töpin, það sem aðrir hafa ekki borgað. Það er réttlætið sem boðið er upp á.