Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:56:52 (7824)


[14:56]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega alveg rétt hjá hv. þm. að haustið 1988 var dapurlegur tími. Dapurlegur tími vegna þess hvernig sú ríkisstjórn sem þá var við lýði undir forustu Þorsteins Pálssonar lauk sínum ferli. Það er alveg rétt, það var dapurlegur tími. En það var líka dapurlegur tími vegna þess að það var upphaf annars dapurlegs tíma þegar menn streittust við það hér í stjórn landsins að moka vandamálunum undir teppið og gleyma þeim. Ég reikna fastlega með því að þegar sagan skoðar þessa atburði þá muni hún líta til þess hvernig að málum var staðið á þessum tíma, hvernig menn fóru að því að draga lengi framan af að fella gengið vegna þess að það var óvinsælt, en gerðu það síðan mjög samviskusamlega þegar það var orðið nokkuð seint, hvernig skuldirnar jukust stórlega á þessum tíma, hvernig þessi staða sem er verið að lýsa hér í þessari skýrslu, hv. þm., þ.e. hlutfall skuldastöðu heimilanna og rauntekna, hvernig það versnaði á þessum tíma, sem var þó ekki eins erfiður tími þjóðhagslega séð og síðustu tvö árin hafa verið, þá hygg ég að menn muni bara komast að þeirri niðurstöðu að þetta stjórnartímabil frá 1988--1991 hafi verið í heild dapurlegur tími.