Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:01:04 (7827)


[15:01]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla félmrh. um skuldastöðu heimilanna. Ég hygg að þeir hv. þingmenn sem um skýrsluna báðu hafi gert það í kjölfarið á utandagskrárumræðu sem var hér í byrjun desember um skuldastöðu heimilanna. Að mínu mati kom harla lítið út úr þeirri utandagskrárumræðu nema ásakanir stjórnarandstöðunnar í garð ríkisstjórnarinnar þess efnis að skuldir heimila hefðu aldrei verið jafnmiklar og nú, sem að vísu er ekki nema hálfur sannleikur, eins og kemur fram við lestur þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu.
    Sannleikurinn er sá að nokkur atriði eru þess valdandi að skuldir heimila hafa aukist gífurlega nú hin síðari ár. Sérstaka athygli vekur við lestur skýrslunnar sem hér er til umræðu að hlutfall húsnæðisskulda í heildarskuldum heimila hefur farið lækkandi þrátt fyrir hina miklu aukningu sem orðið hefur á heildarskuldum á síðustu árum.
    Það kemur fram í greinargerð Þjóðhagsstofnunar að á fyrri hluta 9. áratugarins hafi allt að 80% skulda heimilanna verið tilkomin vegna húsnæðisöflunar en um 70% nú síðustu árin.
    Í upphafi 9. áratugarins áttu heimilin að verulegu leyti skuldlausar eignir. Skýringarnar eru ljósar að því leyti að fyrir 1980 voru lánin veitt á lægri vöxtum en svaraði til verðbólgu. Meginskýringin á miklum vexti á skuldum heimila er m.a. verðtrygging sem komið var á í upphafi 9. áratugarins. Það sem upp úr stendur að mínu mati varðandi lestur skýrslunnar er það að ungt fólk sem er á húsnæðismarkaðinum hefur þurft að búa við allt aðra möguleika til húsnæðisöflunar heldur en eldri kynslóðir.
    Vissulega er hægt að rökstyðja það að með þeirri breytingu sem hefur orðið með tilkomu húsnæðisbréfakerfisins hefur verulega dregið úr þörf fyrir skammtímalán. Fólki býðst nú lán á einum stað miðað við greiðslumat. Lán húsnæðiskerfisins eru veitt á grundvelli athugunar á þörf fyrir láni, greiðslugetu og veðhæfni. En hvernig er staðið að greiðslumati fólks? Það væri gaman að vita hve stór hluti fólks sem fór í greiðslumat hefur þurft á frekari hjálp að halda. Er reynt að fegra skuldastöðu með ofmati á ráðstöfunartekjum fólks? Ég get nefnt hér dæmi.
    Hjón fengu 3,9 millj. í greiðsluerfiðleikalán, húsbréf. Afföll voru 800 þús. kr. Þetta var fyrir um það bil tveimur og hálfu ári. Í dag er staða þessa fólks þannig að það hefur ekki getað staðið við afborganir miðað við greiðslumat. Skuldir hafa hrannast upp, uppboð blasti við. Þau fengu síðan skuldbreytingu vanskilaskulda. Hjá þessum hjónum er fyrirsjáanlegt að ekki verður hægt að standa í skilum þrátt fyrir mat Húsnæðisstofnunar. Þarna er um að ræða hjón með þrjú börn sem búa í 125 fermetra húsnæði, skuldir upp á 5,5 millj. vegna húsnæðiskaupa. Þessi hjón hafa 3,1 millj. í tekjur. Þau borga 70 þús. kr. á mánuði í afborganir. Þetta dæmi gengur ekki upp hjá þeim.
    Lán til húsnæðisöflunar hefur verið stytt úr 42 árum í 25 ár. Gengur það upp núna, t.d. þegar laun launþega hafa staðið í stað og yfirvinna dregist saman? Það gefur auga leið að ef þessi hjón, sem ég áður nefndi, gætu fengið næga yfirvinnu hefðu þau væntanlega meiri möguleika til að standa í skilum. En yfirvinnu hafa þau ekki nú. Því spyr ég: Verður ekki að hugsa þetta mál upp á nýtt með breytta stöðu atvinnumöguleika þjóðfélagsins í huga? Ungt fólk sem kemur úr námi núna með miklar skuldir við lánasjóðinn og ætlar sér út í húsnæðisöflun á ekki mikla möguleika. Þetta fólk hefur ekki möguleika með afborgunum af sínum námslánum og greiðslum af öðrum lánum. Það á sér ekki miklar vonir. Það getur vissulega fengið lán til húsnæðisöflunar, en verða afborganir ekki svo miklar að fólk hreinlega stendur ekki undir afborgunum? Þetta er umhugsunarvert.
    Ég tel að menn verði að stórauka forvarnastarf, auka fræðslu til einstaklinga, ungs fólks um fjármál. Hvað kostar að taka lán? Hvað ber að varast? Það verður að taka mið af raunverulegri greiðslugetu fólks. Fjármagnsmarkaður hefur gerbreyst hér nú hin síðari ár. Það verður að kenna ungu fólki allt um markaðinn. Það er ekki nema í örfáum tilvikum sem um meðfæddan hæfileika er að ræða hjá fólki til að kunna allt um fjármagnsmarkaðinn. Ég tel tímabært að menn fari með kennslu um fjármál inn í skóla þannig að sem fyrst læri ungt fólk um fjármál, hvað ber að varast og hvernig á að taka á fjármálum svo að gott hljótist af.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum beina því til hv. þingmanna í umræðu um þessi mál að varast að finna ákveðna sökudólga, hvers vegna skuldir hafa aukist svo mikið. Þetta er áhyggjuefni alls þjóðfélagsins og breyttar aðstæður valda þar miklu um. Þetta á að vera okkar áhyggjuefni. Hvernig getum við snúið þessari þróun við. Það er fullvíst að það er hægt að snúa óheillaþróun við með málefnalegri umfjöllun um málin en ekki með stóryrtum yfirlýsingum: Hver er sökudólgurinn? Þingmenn ættu frekar að spyrja sig: Hvað

getum við gert?