Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:14:07 (7832)


[15:14]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég bað um orðið í andsvarsskyni til að þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir þessa ágætu ræðu sem hún flutti áðan. Ég held að að hafi verið orð í tíma töluð sem hún var með þar sem hún reyndi að

fara yfir vandann þó svo það sé ekki hægt að neita því að ræða hennar líktist talsvert mikið því sem menn úr öðrum flokkum voru að flytja fyrr í dag.
    Af hverju stafar vandinn? Hann stafar af því að vextir eru allt of háir og hafa verið frá því að þeir voru gefnir frjálsir 1984. Hann stafar af því að fjárskuldbindingar voru verðtryggðar og miðaðar við lánskjaravísitölu og eru oftryggðar. Þannig hefur það verið svo að segja alveg frá 1979. Vandinn stafar líka af því að ríkisstjórnin hefur hækkað skatta á fólki um 10 milljarða kr. á einstaklingum. Hann stafar líka af því að vinnan er minni en hún hefur áður verið eins og hv. þm. benti á. Yfirtíð er lítil, yfirborganir litlar og margir eru atvinnulausir, 7.500 manns. Allt er þetta skýring á vandanum. Auk þess er það rétt, sem hv. þm. benti hér á áðan að greiðslumatið sem fólk gekk inn í eftir að húsbréfakerfið var tekið upp verkaði eins og gæðastimpill fyrir marga. Menn treystu því að þeir gætu risið undir þeim skuldbindingum sem greiðslumatið kvað á um. Þó að það sé mjög skrýtið að gera það, þá eru hlutirnir þannig.
    Ég held þess vegna að það sé mjög nauðsynlegt að átta sig á því að hér hefur talað einn stjórnarliði sem er alveg ósammála stjórnarliðinu að öðru leyti. Ég tel það veruleg tíðindi í þessari málefnalegu umræðu sem hér hefur staðið yfir í dag.