Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:36:55 (7838)


[15:36]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að þakka hv. 6. þm. Suðurl. fyrir ágæta ræðu og rifja það upp með honum til glöggvunar hvernig lánskjaravísitalan varð til. Það er alveg rétt að það var á árinu 1979 og þá sat ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og menn vita hvaða flokkar voru aðilar að þeirri stjórn. Alþb. var aðili að stjórninni og var mjög andvígt verðtryggingarkafla frv. til Ólafslaga á þeim tíma. Þá gerðust þau undur að þingflokkur Sjálfstfl. gerði samþykkt um að hann styddi frv. eins og það þá lá fyrir þannig að því miður fór það svo að stjórnarandstaðan gekk í lið með verðtryggingarliðinu og þar með var lánskjaravísitalan orðin að lögum.
    Þar með er það því miður þannig að frá upphafi ber Sjálfstfl. alla ábyrgð á þessu máli rétt eins og aðrir sem að því hafa komið. Til þess að hafa þetta á hreinu vildi ég nefna þetta.

    Varðandi þjóðarsáttina 1990, þá er það alveg rétt að það hafði verið gert ráð fyrir um það bil 18% verðbólgu í fjárlagafrv. haustið 1989. Ég bendi hins vegar á það að enginn sá það fyrir að gerðir yrðu kjarasamningar af því tagi sem gerðir voru í janúar 1990 og stjórnarandstaða Sjálfstfl. gerði engar athugasemdir við þær verðlagsforsendur sem fjárlögin fyrir árið 1990 byggðust á. Það er því útilokað að setja dæmið upp eins og gert var hér áðan að þáv. ríkisstjórn hafi í raun og veru verið dæmd til að falla frá áætlun um meiri verðbólgu. Þannig var það ekki eins og hv. þm. veit ef hann skoðar aðeins betur hug sinn.