Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:45:02 (7858)


[16:45]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt þegar jafnviðkvæm mál fyrir alla, hverja einustu fjölskyldu í landinu, ber á góma hér í þinginu að það hitni örlítið í kolum og kannski fljúgi hnútur um borð eins og stendur í gömlu, góðu kvæði.
    Ég vil byrja á því að þakka þeim sem báðu um þessa skýrslu að þeir skyldu gera það. Ég þakka líka hæstv. félmrh. fyrir að hafa látið gera þessa skýrslu sem er fróðleg og merkileg, en kannski mætti við hana bæta.
    Þegar litið er til baka til áranna í kringum 1980 eða jafnvel fyrir þann tíma er rætt um það að lán hafi brunnið upp í verðbólgunni, orðið að engu, fólk hafi eignast stórfé eða stórverðmæti á þann hátt að fá lán þegar það var þó þannig að það var erfitt að fá lán úr bönkum og til húsbygginga. Það voru aðeins þeir sem á vissan hátt höfðu góða aðstöðu til að leggja fram veð og ábyrgðir sem gátu fengið lán og þar af leiðandi var það viss stétt fólks í landinu sem græddi á lánveitingunum sem brunnu upp og urðu að engu og voru gjöf en ekki gjald á árunum fyrir 1978. Það var því eðlilegt og sjálfsagt að koma á verðtryggingu lána árið 1979. Það var ekki til nein önnur leið. Við verðum bara að viðurkenna það. Þetta var auðvitað erfitt fyrir fjöldann allan af fólki, en þetta var eina leiðin sem hægt var að fara.
    Árið 1982 skeði svo það að laun voru tekin úr sambandi við vísitöluna þannig að þau voru ekki lengur verðtryggð. Það var hrossalækning vegna þess að fólk hafði, eins og hefur verið skýrt frá áður, gert áætlanir samkvæmt þeim venjum sem voru að laun hækkuðu um leið og lánskjaravísitalan og bjóst við að geta greitt af sínum skuldum á þann hátt að vinna fyrir hlutfallslega álíka miklum tekjum og áður. Þetta gekk ekki eftir og þá byrjuðu erfiðleikarnar. Upp frá því fór smátt og smátt að vaxa mismunurinn á þeim lánum og skuldum sem fólk skapaði sér vegna húsnæðiskaupa og vegna einkaneyslu eða annarrar neyslu. En ég held að ástæðan fyrir því að lán, sem tekin voru til eigin neyslu, fóru sífellt vaxandi upp úr þessu hafi hreinlega verið sú að þau laun sem fólk vann sér fyrir og hefði farið til matarkaupa og því um líks urðu að fara í afborganir af lánunum. Þar af leiðandi er þessi mismunur sem orðinn er á því að fasteignalán eða lán af íbúðum eru lægri en áður, þessi mismunur á samt rætur að rekja til þess að fólk hefur þurft að fjármagna afborganir af vöxtum, lánum og verðbótum með peningum sem það annars hefði við eðlilegar aðstæður getað notað til að borga aðrar greiðslur fyrir fjölskyldu og heimili. Þetta er þar af leiðandi bein afleiðing þess að laun voru tekin úr sambandi við verðbólguþróunina.
    Nú í dag er svo komið að fólk sem árið 1993 keypti sér, þó ekki sé nema litla íbúð, er með mjög þungar byrðar á herðunum og er hvert á fætur öðru að missa íbúðirnar sínar. Fólk sem er með 1 millj. kr. í árstekjur þarf kannski að borga 60.000 kr. á mánuði í vexti og afborganir af lánum. Það er ekki hægt og þar af leiðandi hlýtur fólkið að missa íbúðirnar, selja þær áður en þær fara á uppboð eða hreinlega missa þær á uppboði. Eins og fram hefur komið er fólk sem er á aldrinum 30--40 ára sá hópur fólks sem ber þyngstar lánabyrðar núna. Það hefur sagt mér það að aldrei hafi gengið jafnilla að standa undir afborgunum og greiðslum og nú í vetur. Það getur vel verið að vextir hafi lækkað, það getur vel verið að verðlag hafi lækkað en samt er þetta staðreyndin að fólk sem er vandað í alla staði og eyðir ekki meira en það nauðsynlega þarf stendur í þessum sporum í dag. Ég kann ekki skýringuna á þessu en ég held að það sé of mikið gumað af vaxtalækkunum og verðlækkunum.
    Nú vita allir að sá hópur fólks sem atvinnuleysi herjar mest á er fólk sem er um og rétt yfir tvítugt og jafnvel fram undir þrítugt. Það er sá hópur í landinu þar sem atvinnuleysið er langverst. Þetta fólk mun á næstu árum gjarnan vilja setja saman bú. Það mun gjarnan vilja eignast heimili og húsþak yfir höfuðið. Ég

sé ekki hvernig atvinnulítið eða atvinnulaust fólk á að geta það á næstunni. Kannski geta sumir með aðstoð í gegnum verkamannabústaðakerfið eða búsetaíbúðakerfið eignast það en mjög stór hluti mun ekki vera fær um að kaupa sér íbúðir. Þar af leiðandi held ég að eitt af því sem verður að efla sé leiguíbúðakerfi. Hæstv. félmrh. hefur sagt það ítrekað í dag að fjölgun leiguíbúða hafi orðið mikil í hennar valdatíð og ég dreg það ekki í efa en ég er viss um að þá leið verður að troða enn þá meira en hingað til á næstu árum. Svo lengi sem atvinnuleysisvofan grúfir yfir okkur og eltir mun unga fólkið þurfa einmitt á þessari fyrirgreiðslu að halda.
    Á bls. 5 í skýrslu hæstv. félmrh. stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með hliðsjón af því sem hér hefur verið fjallað um varðandi ólíka skuldastöðu aldurshópa telur félmrn. ástæðu til þess að láta fara fram sérstaka athugun sem leiði frekar í ljós þann mun sem virðist vera á milli kynslóða með tilliti til lífskjara, skulda, eigna og afkomumöguleika.``
    Þetta álít ég að sé nauðsynlegt og væri í því sambandi mjög nauðsynlegt að komast að því hvað mikið af þessum íbúðum sem verið er að ræða um að fólk sé búið að borga allar sínar skuldir af eru samt veðsettar upp í topp, veðsettar fyrir það unga fólk sem er skuldum hlaðið. Það væri líka fróðlegt, ef sú rannsókn verður gerð að finna það út hvað margir úr hópi eldra fólks, 50--70 ára, missir hreinlega íbúðirnar og húsin sín ofan af sér vegna þess að þau hafa gengið í ábyrgð fyrir skuldara sem eru í yngri aldursflokkunum.
    Það væri líka sannarlega gott ef þessi nýja rannsókn sem hæstv. félmrh. ræðir um gæti náð til þeirra sjakala sem læðast um á gráa svæðinu í íslensku samfélagi, í hálfmyrkrinu, og sölsa undir sig með ólöglegum og stundum löglegum hætti íbúðir þessa fólks sem hefur komast í greiðsluerfiðleika. Það er vitað að slíkt fólk er víðs vegar í samfélaginu. Það leikur lausum hala. Ef hæstv. félmrh. gæti, sem ég hef raunar áður beðið hæstv. dómsmrh. að reyna að gera, fundið leiðir til þess að koma einhverjum böndum á þessa sjakala, sem ég kalla svo, þ.e. aðila sem virðast geta leikið á veikar lagasetningar okkar, virðast geta notfært sér göt í kerfinu, göt í lögunum, til þess að ná undir sig eignum fólks, bæði þess sem lendir í greiðsluerfiðleikum og þess sem er í ábyrgðum fyrir greiðsluerfiðleikafólkið. Ef hæstv. félmrh. gæti fundið einhverja leið til að koma böndum á þetta lið þá væri sannarlega stórkostlegt afrek unnið af hennar hálfu.