Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:25:20 (7863)


[17:25]
     Guðni Ágústsson: (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. ber auðvitað ábyrgð á þessari ríkisstjórn og í því ástandi sem ríkir á vinnumarkaðinum hefur það gerst að stærstu verktökum þessa lands hefur verið sigað á eldri kynslóðina. Ginna hana til þess að fara úr ágætum íbúðum í þjónustuíbúðir aldraðra. Þetta er til þess að stækka húsrými á Íslandi. Ég ítreka það því að það eru önnur úrræði sem snerta þær fjölskyldur sem nú eiga erfiðast.
    Ég vil líka segja í sambandi við ræðu hæstv. ráðherra að útlánatöp bankanna má að miklu leyti einnig rekja til stjórnarstefnunnar. Ég hygg að þeir sem sitja jafnvel í Íslandsbanka og tengdastir eru Sjálfstfl. telji það alla vega á stórum stundum að stjórnarstefnan ráði töluverðu um það hversu mikil töp bankans hafa verið á síðustu árum.