Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:46:57 (7883)


[17:46]
    Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Þó mér þyki út af fyrir sig prýði að því að hæstv. forsrh. sé í salnum og heyri mál mitt þá treysti ég mér, úr því að hæstv. utanrrh. er hér staddur, að kynna þetta nál. sem birtist á þskj. 1093 og er undirritað af okkur Steingrími Hermannssyni. Það hljóðar svo:
    ,,Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið á allmörgum fundum. Embættismenn og fulltrúar stofnana og fyrirtækja mættu á fundi nefndarinnar. Þeir veittu mikilvægar upplýsingar, einkum um það hvaða tilskipanir eru þegar í íslenskum lögum og reglugerðum, hverjar má innleiða með reglugerðum með stoð í gildandi lögum og hverjar krefjast breytinga á íslenskum lögum. Um efnisatriði hinna fjölmörgu og viðamiklu tilskipana vannst hins vegar lítill tími til að ræða.
    Fyrsti minni hluti telur að ýmsar af umræddum tilskipunum kunni að vera þarfar. Aðrar virðast hins vegar orka mjög tvímælis. Flestar tilskipananna hefur a.m.k. 1. minni hluti ekki haft svigrúm til að skoða eins og nauðsynlegt væri.
    Af þeim ástæðum, sem nú hafa verið raktar, tekur 1. minni hluti ekki afstöðu til málsins og mun sitja hjá við afgreiðslu þess.``
    Það er út af fyrir sig ekki um gott að gera með þetta mál. Lýsist nú enn og aftur að við höfðum rétt fyrir okkur sem töldum að höggvið væri nærri íslenskri stjórnarskrá með fullgildingu EES-samningsins. Hér búum við við það að löggjafarvaldið er að raun að hluta flutt til Brussel og við stöndum frammi fyrir gerðum hlut þó að við ,,pro forma`` greiðum um það atkvæði á Alþingi. Þessar tilskipanir má flokka í þrjá flokka. Fáeinar eru til bóta. Ég nefni t.d. tilskipun sem hefur það í för með sér að lyfjaframleiðendur geta ekki lengur mútað læknum með þeim hætti sem þeir hafa gert undanfarið. Margar eru þýðingarlausar, gjörsamlega þýðingarlausar, eins og t.d. klósetttilskipunin fræga, þ.e. að karlar og konur eigi ekki að fara saman á salerni nema þau vilji það. En margar þeirra eru til bölvunar og í nokkrum þeirra getur legið töluverð hætta fyrir okkur að taka í lög, en undanfærin eru ekki mikil.
    Það er allt löðrandi í þessum tilskipunum af tæknilegum viðskiptahindrunum. Þær miða að því að einangra okkur frá umheiminum, þ.e. múra okkur inn í Evrópu, binda viðskipti okkar sem mest við stórríki Evrópu.
    Ég ræddi við fyrri umræðu málsins nokkuð þessar tæknilegu viðskiptahindranir og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér. Ég minni t.d. á lækningatæki, ég minni á bíla, ég minni á landbúnað. Ég vil reyndar bæta nokkrum orðum við um landbúnað af því að mér hefur gefist tími til að skoða það mál nokkuð ítarlegar heldur en ég hafði haft tækifæri til við fyrri umræðu.
    Þannig háttar til að á Íslandi er í gildi mjög ströng mjólkurreglugerð, þ.e. reglugerð um framleiðslu mjólkur og meðferð mjólkur. Hún er svona ströng m.a. vegna þess að henni hefur verið beitt til framleiðslutakmarkana, þ.e. að til þess að fækka kúm í landinu þá hafa verið sett ákvæði í mjólkurreglugerðina þannig að þegar kýrnar eldast þá verður að slátra þeim af því að mjólkin er ekki í nægilega góðum flokki eða frumutalan í henni verður of mikil þegar kýrnar koma nokkuð til aldurs. Þetta er liður í framleiðslutakmörkunum og að þessu búum við núna að mjólkurreglugerðin samræmist fyllilega því sem hér er lagt til. Þó er einn agnúi á sem reyndar kom lítillega til umræðu við fyrri umræðu málsins, það er varðandi búskaparhætti hjá kúabændum. Á bls. 288, þar sem talað er um hreinlæti á bújörðum, þetta er í fyrstu bláu bókinni, þá segir svo:
    ,,Séu mjólkandi dýr látin ganga laus utan dyra skal mjaltahús einnig vera á bújörðinni eða svæði þar sem mjaltir fara fram sem er hæfilega aðskilið frá gripahúsum.``
    Þetta er óhjákvæmilegt að skilja þannig að ef bóndi lætur út kýr sínar á vorin og ætlar þeim að hafa útivist að sumrinu þá má hann ekki nota sitt gamla fjós til þess að mjólka heldur verður að mjólka í húsi sem er hæfilega aðskilið frá gripahúsum. Ef þessu verður framfylgt hér þá hefur það í för með sér alveg gífurlegan kostnað. Búskaparhættir eru þeir á Íslandi að bændur láta kýrnar gjarnan vera úti allt sumarið, taka þær inn í fjós og mjólka á mjaltatímum og þetta er mjög heilsusamlegt og skemmtilegt fyrir kýrnar, en það er ekkert heilsusamlegt eða skemmtilegt fyrir bændurna ef þeir þurfa að fara að byggja sérstök fjós til að mjólka í og geta ekki mjólkað í þeim fjósum sem þeir eiga fyrir. Ef þessu væri fylgt fram í ystu æsar þá mundi það hafa gífurlegan kostnað í för með sér fyrir kúabændur og jafnframt mundi það væntanlega koma fram í mjólkurverði til neytenda. Þetta er um mjólkurframleiðsluna.
    Varðandi kjötframleiðsluna þá er það svo að stór hluti íslenskra sláturhúsa uppfyllir ekki Evrópustaðla. Það eru örfá sláturhús sem gera það, en allur þorri þeirra uppfyllir ekki þá staðla sem krafist er í tilskipunum og af þessu geta hlotist, ef menn fylgja þessu fram með öfgafullum hætti, verulegir erfiðleikar og viðbótarkostnaður. Nú er ég ekki að segja að sláturhús okkar séu slæm eða fullnægi ekki eðlilegum og skynsamlegum hreinlætiskröfum. Flest þeirra gera það, nokkur eru að vísu svartur blettur á sláturhúsamenningu landsmanna og hefur verið haldið úti t.d. af pólitískum ástæðum og hafa haft sláturleyfi, sem menn muna, fengin með misjafnlega geðslegum hætti. Nokkur sláturhús eru fyrirmyndarsláturhús. Ég nefni Hvammstanga, Húsavík og Höfn í Hornafirði. Nú hafa þau gleðilegu tíðindi gerst að samningar eru að takast um útflutning á 300 tonnum af nautakjöti til Bandaríkjanna, með sérstöku hreinleikavottorði og sem er vistvæn afurð og fyrir það verður skilaverð til bænda ekki lakara heldur en fyrir það sem selst á hér innanlandsmarkaði.
    En væri farið stranglega eftir þessari reglugerð þá gæti t.d. formaður Neytendasamtakanna hugsanlega í krossferð sinni gegn íslenskum bændum, hinni endalausu krossferð gegn íslenskum bændum, krafist þess að verulegum hluta af kjötframleiðslunni verði eytt og flutt inn hormónakjöt frá Evrópu í staðinn. Svona tilskipanir geta verið hættulegar ef menn framkvæma þær út í ystu æsar og beygja sig undir þær. Þetta er um tilskipanirnar.
    Mig langar til að fara nokkrum orðum um það hvað við eigum að gera í framtíðinni. Það er meginmálið. Nú vil ég taka það fram strax að ég tel að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim EFTA-löndum sem hafa þegar sótt um inngöngu í Evrópubandalagið séu ekki ráðin. Við getum ekki gefið okkur það að þau verði aðilar að Evrópubandalaginu innan skamms. Í Finnlandi t.d. er mjög veruleg andstaða gegn aðild. Miðflokkurinn er klofinn í málinu, forsætisráðherrann Esko Aho er eindreginn stuðningsmaður innlimunar. Fyrrverandi utanríkisráðherra, Paavo Väyrynen, er hins vegar annarrar skoðunar og fer fyrir þeim hópi sem veitir samningsaðildinni andstöðu.
    Þannig háttar til í Finnlandi að ef ekki á að leggjast af finnskur landbúnaður þá verða þeir að gjöra svo vel að taka upp niðurgreiðslur sem eru gífurlega háar til þess að vera á samkeppnisfæru verði við innflutninginn frá Evrópubandalaginu. Sósíaldemókratar ganga mjög hart eftir því þessa dagana að fá að vita hvað ríkisstjórnin ætlar að leggja til að niðurgreiðslurnar verði háar. Ef ríkisstjórn Esko Aho leggur það til að niðurgreiðslur verði þannig að jöfnuður verði í verði landbúnaðarvara, þ.e. finnskar landbúnaðarvörur verði samkeppnishæfar við innfluttar, þá eru líkur til að sósíaldemókratar snúist öndverðir gegn þessu. Ef hins vegar sósíaldemókratar eru ánægðir með niðurgreiðslustigið þá er borin von að verulegur hluti Finna geti samþykkt samninginn.
    Í Svíþjóð eru úrslitin ekki ráðin heldur og það verður að teljast fremur ólíklegt að Norðmenn samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel þó að öllum hugsanlegum bolabrögðum verði beitt af ríkisstjórn verkamannaflokksins í Noregi til þess að fá samninginn samþykktan. Nú seinast það að láta atkvæðagreiðsluna ekki fara fram fyrr en eftir að allir aðrir eru búnir að greiða atkvæði í von um að það hafi áhrif á úrslitin í Noregi.

    Ríkisstjórn Gro Harlem Brundtland hefur túlkað þessa samninga með mjög óeðlilegum hætti innan lands og hlýtur að falla á eigin bragði vegna þess að hún hefur gyllt þá fyrir þjóðinni í áróðri sínum með mjög óforskömmuðum hætti, t.d. finnst Smuguklausan, sem þeir segja að sé í textanum, ekki nema í norska textanum samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá íslenska sendiráðinu í Brussel. Þar var leitað að Smuguklausunni og leitað vandlega, þ.e. að Evrópubandalagið ætlaði að hjálpa Norðmönnum að hrekja okkar menn út úr Smugunni, en það virðist vera úr lausu lofti gripið og notað til að gylla samninginn í Noregi.
    Jafnframt hlýtur Norðmönnum að verða það ljóst að það verður ekki heimsendir innan tveggja ára og þá tapa Norðmenn að sjálfsögðu forræði á sjávarútvegsmálum sínum. Framtíð EFTA er sem sagt óljós en dauðastundin er ekki komin.
    Alþingi markaði stefnu 5. maí í fyrra með því að samþykkja þáltill. sem borin var fram af hv. þingmönnum Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni um það að ríkisstjórninni bæri að leita tvíhliða samninga við Evrópusameininguna um það að gera viðskiptahlið EES-samningsins að viðskiptasamningi. Þar stendur út af stofnanaþátturinn sem þarf að finna lausn á og það skal viðurkennt að það getur reynst nokkuð vandasamt.
    ,,Emígrantarnir``, þ.e. Íslendingarnir sem hafa flust til Brussel á undanförnum missirum og tekið þar til starfa, faxa nú heim hverja greinina á fætur annarri þar sem þeir reyna að telja öll tormerki á því að við getum náð viðunandi tvíhliða samningi. E.t.v. finnst þessum ,,emígröntum`` að þeir séu strandaðir og eigi á hættu að missa nýju, góðu, vel launuðu vinnuna sína í Brussel. Og hæstv. utanrrh. hefur sannarlega breytt um tón frá því að hann var að berja í gegnum þingið EES-samninginn á sínum tíma. Þá taldi hann EES-samninginn vera fullnægjandi lausn fyrir Íslendinga, en nú er öldin önnur og innganga í Evrópubandalagið er alls ekki orðin fjarri huga hans.
    Ég vil leyfa mér, frú forseti, að vitna til frásagnar frá nýafstöðum ráðherrafundi í Reykjavík. Þetta var á Stöð 2 og fréttin var flutt þann 6. maí. Þá spyr fréttamaður Margarethu af Ugglas, utanríkisráðherra Svíþjóðar, þessarar spurningar: Verður Ísland dálítið utanveltu þegar rætt er um Evrópu?
    Margaretha af Ugglas svarar: ,,Mér skilst á íslenskum starfsbróður mínum að það mál sé til umræðu og því geti svo farið að Ísland gangi í ESB. Fari svo fáið þið góðan stuðning frá hinum norrænu ríkjum.``
    Það er ekki nóg með að hæstv. utanrrh. sé með ábyrgðarlaust og raunar þjóðhættulegt gaspur hér heima fyrir heldur er hann að lepja þessar skoðanir sínar í erlenda starfsbræður sína.
    Nú lætur hæstv. utanrrh. svo sem EES sé ónýtur kostur. Stofnanaþátturinn sé óleysanlegur. Ég tel að svo sé ekki. Ég hef ekki verulega trú á því að hugmyndir sem fram hafa komið um að setja upp eitthvert áheyrnarfulltrúakerfi með málfrelsi og tillögurétti sé fær. Ég er ekki að hafa á móti því að sú leið sé skoðuð og ég vil taka það fram að í henni felst alls ekki nein aukaaðild að Evrópubandalaginu eða eitthvert skref inn í Evrópubandalagið því það er auðvitað skref til baka frá EES-samningnum þar sem við afsöluðum okkur verulegu fullveldi. Ég tel að líklegri sé til árangurs sú umboðsmannsleið sem Björn Friðfinnsson hefur viðrað og kynni að fela í sér fullnægjandi lausn fyrir Íslendinga á stofnanaþættinum. Meginmálið er það að hæstv. ríkisstjórn verður að fara að vinna að þessum tvíhliða samningi. Ég verð að játa það að mér finnst nú ekki að öllu leyti óskynsamlegt að draga það vegna þess að sennilega er ekki óhætt að núv. utanrrh. leiði þá vinnu vegna þeirra viðhorfa sem gætt hefur hjá honum í seinni tíð og helst þyrftum við að skipta fyrst um ríkisstjórn áður en þessir tvíhliða samningar eru teknir upp. Að vísu hefur hæstv. forsrh. tekið myndarlegar til máls um þetta efni og því fagna ég og finn ekki að þeirri afstöðu sem hann hefur sett fram og gagnrýni það ekki að hann fari til Brussel og alveg sama þó hann hafi ekki með sér utanrrh. sinn þangað.
    Framsfl. telur aðild að Evrópusameiningunni ekki koma til greina fyrir Íslendinga og það eru samhljóða samþykktir allra stofnana flokksins um það efni. Við viljum tvíhliða viðskiptasamning og reyna að endurheimta eitthvað af því fullveldi sem afsalað var með EES-samningnum.
    Jafnframt þessu þá leggjum við framsóknarmenn áherslu á að við eigum að fara að leita eftir tvíhliða viðskiptasamningi við Bandaríkin. Ég tel að það sé miklu hagfelldara okkur ef við eigum kost á hagfelldum tvíhliða viðskiptasamningi við Bandaríkin og náum tvíhliða samningi við Evrópubandalagið, þá erum við ekki illa settir í samfélagi þjóðanna.
    Frú forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu í þessari lotu og eins og fram kom í því nál. sem ég kynnti í upphafi máls míns þá mun ég sitja hjá við afgreiðslu þessara tilskipana.