Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 18:09:34 (7885)


[18:09]
    Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá 3. minni hluta utanrmn. í 537. máli, þ.e. till. til þál. um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn og ætti nú þingheimur að vera búinn að fá nóg að heyra nafn þessarar bókunar. En svo sem kunnugt er hefur fylgt töluvert mikið meira þar með og þar af leiðandi hefur verið óhjákvæmilegt að leggja nokkra vinnu í það að fara yfir þetta mál en því miður er ekki, þrátt fyrir góðan vilja, mögulegt að gera það svo fullnægjandi sé.
    ,,Með afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu lýkur lögfestingu EES-samningsins að mestu leyti. Þær viðbótargerðir, sem Íslendingar skuldbinda sig til að hlíta samkvæmt henni, eru óaðskiljanlegur hluti samningsins þar sem Íslendingar eiga ekki annarra kosta völ en að fella þær inn í lög og reglugerðir án athugasemda, líkt og EES-samninginn. Auk þeirra rúmlega 400 gerða, sem Íslendingar undirgangast samkvæmt þessari þingsályktunartillögu, má vænta örfárra gerða í viðbót samkvæmt upplýsingum er Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra veitti nefndinni. Þessi viðbótarpakki er að því leyti ólíkur þeim gerðum sem á eftir koma að Íslendingar koma hvergi nærri vinnslu þeirra gerða sem í honum eru og hafa því ekki einu sinni formlega séð möguleika á að hafa áhrif á efni þeirra.``
    Það má búast við því að sá viðbótarpakki sem enn er í pípunum eins og orðað var á fundi utanrmn. verði lagður fyrir Alþingi sem ein heild. Við vitum ekki hversu margar gerðir þar er um að ræða og ég hef raunar beðið um að fá þær upplýsingar til utanrmn. en þær hafa alla vega ekki borist enn þá. Hér er því ekki um að ræða algjörlega lokapakkann eins og látið var í veðri vaka fyrr í vetur heldur má enn búast við að einhverri slummu verði slett í okkur hér af gerðum sem við ekki getum gert neitt annað en bara að samþykkja af því að það tilheyrir í raun því tímabili sem um er að ræða. Eftir það verður a.m.k. formlega séð mögulegt að fylgjast með gangi hvers máls fyrir sig á undirbúningsstigi en að sjálfsögðu höfum við ekki mannafla til þess að fylgja því eftir. Það er kannski mergurinn málsins að það er verið að tala um að það skipti Íslendinga verulega máli að koma að þessum málum á undirbúningsstigi, en hvaða burði höfum við til þess? Hvaða mannskap höfum við og hvaða fjármagn höfum við til að leggja í þann lobbíisma sem virðist vera eina tungumálið sem talað er í Brussel og sem tekið er bókstaflega og tekið er mark á? Það er gert ráð fyrir því að það þurfi að vera her manna til að hafa áhrif á þá embættismenn sem þar ráða lögum og lofum og sem betur fer höfum við Íslendingar fram til þessa reynt að eyða tíma okkar og kröftum í arðvænlegri störf heldur en þau. En það má vera að þarna sé einhver breyting að verða á og menn ætli sér í raun og veru að hafa einhver áhrif og sumir láta sig nú dreyma um það að taka allt yfir og það mætti halda af ummælum sumra að hafa veruleg áhrif á Evrópusambandið og gang mála þar. En það er auðvitað bæði óraunsætt og að mínu mati mjög heimskulegt að hafa slíka afstöðu og þar að auki er þetta hrokafull afstaða sem hlýtur að byggjast fyrst og fremst á minnimáttarkennd þeirra sem ekki sætta sig við að tilheyra smáríki. Ég tel því ástæðu til að taka þetta sérstaklega fram í ljósi þess sem á eftir kemur í nál. því þótt ég geri skýran greinarmun á þeim pakka sem við erum hér að afgreiða og þeirri litlu slettu sem á eftir mun fylgja annars vegar og svo hins vegar þeim gjörðum sem við höfum möguleika á að koma að þá vil ég ekki að nokkur skilji mál mitt svo að ég sjái fram á það að við munum hafa einhver gífurleg áhrif við undirbúning þeirra gerða og þaðan af síður ef við rötuðum í þá ógæfu eins og hæstv. utanrrh. virðist gjarnan vilja, að fara inn í Evrópusambandið.
    Þetta er sem sagt í rauninni spurning um það að formsatriði séu virt og þar af leiðandi tek ég þá afstöðu í þessu máli sem fram kemur síðar í þessu nál.
    ,,Þótt hæpið sé að Íslendingar megi sín mikils þegar ákvarðanir eru teknar um þær viðbótargerðir, sem tilheyra munu Evrópska efnahagssvæðinu, eiga þeir rétt á að fylgjast með og láta skoðun sína á þeim í ljós á undirbúningsstigi. Því er hins vegar ekki til að dreifa varðandi efni þessarar þingsályktunartillögu. Þriðji minni hluti mun því greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu í samræmi við afstöðu sína til annarra hluta EES-samningsins.
    Þriðji minni hluti vekur einnig athygli á að möguleikar þingmanna eru næsta litlir til að kynna sér svo viðunandi sé efni þeirra liðlega 400 gerða sem Ísland er samkvæmt þessari þingsályktunartillögu skuldbundið til að fella inn í íslensk lög og reglugerðir. Á fund utanríkismálanefndar komu fjölmargir gestir til að upplýsa nefndina um einstaka málaflokka er heyra undir Evrópska efnahagssvæðið en sú yfirferð var allsendis ófullnægjandi þrátt fyrir góðan vilja utanríkismálanefndar og gesta hennar til að fá yfirsýn yfir málið. Þriðji minni hlutinn er ósáttur við slík vinnubrögð bæði nú og við lögfestingu meginefnis EES-samningsins.
    Þriðji minni hluti tekur ekki afstöðu til einstakra gerða í þessu áliti enda eru þær margvíslegar, sumar til bóta en aðrar til hins verra. Þriðji minni hluti minnir hins vegar á að Íslendingar þurfa ekki að eiga aðild að EES til að taka í lög og reglugerðir það sem til bóta getur talist.``
    Undir þetta ritar sú sem hér stendur.
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fylgja þessu nánar eftir þar sem efnisleg umræða um þetta mál hefur snúist mjög mikið um væntingar alla vega nokkurra krata um það að við förum inn í Evrópusambandið og um það mun væntanlegt flokksþing, hálfgerður fyrirburi, sem verður í maí hjá Alþfl. snúast. ( PBald: 10.--12. júní.) Afsakið. Í júní. Hér eru miklar og ítarlegar upplýsingar veittar úr sal og ég tek það fram að ég kem þeim á framfæri. Það er kannski ástæða til þess að reyna að ná til einnar eða tveggja kratasála í viðbót með því að láta vita af því að það mun vera 10.--12. júní sem flokksþing Alþfl., Jafnaðarmannaflokksins verður, og þar mun að sjálfsögðu verða tekist á um Evrópumálin því meira að segja þar í flokki eru til allmargir enn sem láta skynsemina eitthvað ráða sinni ferð og gerðum. Mér þætti t.d. vænt um að fá að heyra það einhvern tímann í þessari umræðu eða undir öðrum kringumstæðum hvað hæstv. félmrh. segir um þetta vegna þess að hún hefur verið bundin í umræðu lengi dags og mér heyrist ekki að hennar sjónarmið séu mjög ofarlega á baugi hjá flokksforustu Alþfl. Það væri því fróðlegt og forvitnilegt að vita hvort hún hefur ekki mátað saman stöðu þeirra sem hún þykir reyna að vera málsvari fyrir við það sem gerist í raunveruleikanum innan Evrópusambandsins. En það er alveg ljóst að þar er t.d. verið að vega mjög að félagslegum réttindum fólks og það með býsna lymskulegum og margslungnum hætti. En ég mun ekki fara nánar út í það því ég geri ráð fyrir því að við munum fara mjög rækilega út í þessi mál.
    Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að taka aðeins upp þráðinn þar sem ég sleppti honum í fyrri umræðu þessa máls þar sem ég var önnur tveggja þingmanna sem fyrir mistök máttu sæta tímatakmörkunum í þeirri umræðu og ég neyddist til þess að stytta ræðu mína, þó ekki eins mikið og hv. 8. þm. Reykn. sem fékk ekki úthlutað nema 7 mínútum, ég mun hafa fengið 15 mínútur í þeirri umræðu. En í sjálfu sér var það ófullnægjandi að vísa bara í grein sem mér fannst mjög athyglisvert að tekin var upp í Staksteina Morgunblaðsins þann 13. apríl sl. en nú mun ég leyfa þingheimi að njóta aðeins þeirra orða sem þar eru. Ég vil raunar taka það fram að ég undrast það hverjir eru farnir að koma nálægt Staksteinum í Morgunblaðinu núna, því það kemur fyrir, dagamunur á að vísu, að þar er eitthvað bitastætt að finna og ég gladdist m.a. að þar var verið að ræða fyrir skemmstu um þáltill. sem sú sem hér stendur lagði fram ásamt fleiri þingmönnum um það að fólk hefði lýðræðislegan aðgang í gegnum tölvukerfi að gögnum Alþingis. En það er einmitt atriði sem skiptir sífellt meira máli í þeirri Evrópuumræðu sem við stundum. En í þessum Staksteinum Morgunblaðsins var verið að vitna til greinar breska sagnfræðingsins og blaðamannsins Paul Johnson er hann fjallaði um málefni vesturhluta Evrópu í vikulegum dálki í The Spectator. Það er athyglisvert að því er slegið hér upp að hann metur það svo, og undir það get ég tekið, að lýðræðið standi völtum fótum í sumum Evrópuríkjum og að pólitískur jarðskjálfti geti riðið þar yfir á hverri stundu.
    Ég mun ekki taka nema lítinn hluta af því sem kemur fram í þessum útdrætti Morgunblaðsins á grein Johnson en hér eru tvær stuttar tilvitnanir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Um 40% af fullveldi okkar eru þegar horfin`` --- segir Johnson og þessi ,,okkar`` sem hann er að nefna eru Bretar --- ,,og við missum sífellt meira eftir því sem fleiri EB-reglugerðir og lög eru samþykktar umræðulaust í þinginu, auk þess sem ákvarðanir Evrópudómstólsins og annarra yfirþjóðlegra stofnana skerða það stöðugt. Í ljósi þessa vil ég bera fram spurningu sem er nokkuð á skjön við umræðuna: Hver verður eiginlega staða Breta ef stórir hluta þessa ríkjasambands sem við erum að verða hluti af byrjar að rotna?``
    Ég vek athygli á því að það er víðar en hér á Íslandi sem menn eru farnir að hafa áhyggjur af áhrifaleysi þjóðþinganna og hvernig EB-reglugerðir og lög eru samþykkt umræðulaust í þinginu. En Bretar, eins og við, hafa þótt allstoltir af sínu þjóðþingi og það hlýtur að svíða sárt undan þessari niðurlægingu því sé okkar niðurlæging mikil þá er hún enn meiri hjá þeim sem fara inn í ESB því þar eru fleiri málaflokkar undir heldur en fjórfrelsið.
    En síðar í grein sinni segir Johnson og hann er að tala um ástandið í Evrópu, með leyfi forseta:
    ,,Fyrri reynsla sýnir að uppþot og ofbeldi berast fljótt milli ríkja. Vandræðin eru líkleg til að hefjast í Frakklandi, líkt og venjulega, en þó er ekki útilokað að það verði á Spáni en hvergi í EB er atvinnuleysi meira auk þess sem spænska stjórnin er veik og örmagna. Jafnvel í löndum á borð við Holland, sem venjulega eru friðsæl, hefur borið á óróleika. Og meira að segja Evrókratarnir í hinni sjálfumglöðu Brussel hafa neyðst til að horfast í augu við götuofbeldi. Evrópubúar virðast almennt vera farnir að fá það á tilfinninguna að lýðræði skili ekki tilætluðum árangri. Gjáin milli þess sem fólk vill og þess sem ráðamenn veita því er orðin of breið.``
    Þetta finnst mér nokkuð athyglisvert vegna þess að þetta er alveg gjörólík greining á ástandinu því sem við erum venjulega vön að heyra þar sem Evrópusæluríkið á að vera hnökralaust og a.m.k. ekki vandræði varðandi óróleika eða innri vandamál. En staðreyndin er auðvitað sú að um alla Evrópu hefur þessi ofstýring einmitt leitt til þessarar firringar og fjarlægðar á milli valdhafa annars vegar og hins vegar fólksins og raddir fólksins heyrast sífellt í meiri fjarlægð og það er ekki tekið mark á þeim. Einmitt við slíkt ástand getur blossað upp alls konar óværa eins og t.d. þjóðernishroki og annað slíkt. Það er einmitt þegar um ofstýringu er að ræða og það er einmitt þegar valdhafar eru orðnir of firrtir að slíks óróa getur farið að gæta.
    Ég held ég þurfi ekki að útskýra það mikið betur fyrir þingheimi hér. Mönnum er þetta mjög ljóst og mjög kunnugt ef þeir líta yfir söguna.
    Þá vík ég að hinu atriðinu sem mér finnst ástæða til að taka sérstaklega til umræðu en það er þessi sérkennilega staða sem upp kom þegar hæstv. utanrrh. á Alþingi Íslendinga fór að reyna að telja þingheimi trú um það að Norðmenn hafi náð svo ljómandi góðum samningum í sínum sjávarútvegsmálum að það væri bara engu við það að bæta. Í fyrsta lagi rakst ég á það og fannst það nokkuð fyndið nokkrum dögum seinna að þá voru helstu varnir norsku ríkisstjórnarinnar sem var í bullandi vörn fyrir sinn lélega samning að utanrrh. á Íslandi hefði sagt að Norðmenn hefðu náð svo ljómandi góðum samningum. Þetta hitti aftur til baka eins og búmerang þannig að þetta var orðið dálítið sérkennileg samtrygging norsku og íslensku kratanna þar sem þeir átu einhverjar meintar skoðanir hvor eftir öðrum. En það má þó segja alla vega norsku krötunum til hróss að þeir höfðu rétt eftir íslenska utanrrh. en hann hins vegar vitnaði í Norðmenn, en þeir höfðu ekki betri rök fyrir þessum góða samningi heldur en það að Jón Baldvin uppi á Íslandi hefði sagt þetta og er hann ekki alltaf jafn vel um talaður í hópi norrænna krata ef ég hef heyrt rétt. Þannig að þarna var langt til seilst.
    Í Tímanum þann 15. apríl sl. segir Halldór Árnason, aðstoðarmaður sjútvrh. að það sé orðum aukið svo ekki sé meira sagt að Íslendingar verði að ganga í Evrópusambandið ef Norðmenn gera það vegna hagsmuna íslensks sjávarútvegs. Halldór segir að EES-samningurinn dugi Íslendingum um aðgang að evrópskum mörkuðum og tollaleg staða Norðmanna verði litlu betri en okkar þó þeir gangi í ESB að undanskildum laxi og rækju.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um það að ég leit svo á og lít enn svo á að við hefðum átt að reyna að ná þessum viðskiptasamningum sem hefði verið hagur bæði Evrópusambandsins og Íslendinga í gegnum tvíhliða samning en ekki í gegnum EES-samning. En þetta eru þó alla vega rök fyrir því að nota viðskiptahlutann af þessum samningi sem grunn undir þann tvíhliða samning sem við hefðum frá upphafi átt að stefna að því að gera. Ég tek þessa afstöðu út af fyrir sig miðað við þá stöðu sem við erum nú í og það breytir ekki minni fyrri skoðun á því að við höfum valið ranga leið að því marki. En enn er það svo að við höfum góða möguleika á því að gera slíka samninga og þar af leiðandi hlakka ég til að heyra hvað hæstv. forsrh. mun leggja hér til þessarar umræðu síðar í umræðunni og ég þykist nokkuð vita hvers er að vænta af hæstv. utanrrh. og get ekki sagt með góðri samvisku að ég hlakki til að heyra hans boðskap en það væri þá gott ef þessir hæstv. ráðherrar, svo sundurþykkir sem þeir eru sín á milli tækju um þetta smárispu, því ekki veitir af fyrir okkur fyrir sumarleyfi að fá að vita hvernig landið liggur, ef þeir þá vita það.