Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 18:30:18 (7886)


[18:30]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm., Önnu Ólafsdóttur Björnsson, að það var efi um að Íslendingar mundu hafa stór áhrif á stefnumótun Evrópu. Nú er það svo að við erum að vísu ekki nema 250 þús. og þeir milli 300 og 400 milljónir. En ber þá að skilja þennan efa hv. þm. á þann veg að þegar við sendum stórséní eins og hæstv. utanrrh. til þess að verða okkar fulltrúa þá sé það samt þannig að það sé ekki útlit fyrir að við munum hafa þessi miklu áhrif? Ég spyr nú að þessu eða hvort þetta sé bundið því að almennt sé litið svo á að það muni ekki gerast í þessum heimi að 250 þús. manna þjóð taki að sér yfirstjórn fyrir 300--400 milljón manna samfélag.