Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 18:46:03 (7889)


[18:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er flutt um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er um margt sérstætt. Í fyrsta lagi felur hugtakið þróunarsjóður í sér þá hugsun að sjóðurinn eigi að vinna að framförum. Hann eigi að vinna að framförum, það sé meginverkefni sjóðsins. Hér aftur á móti er því ekki að leyna að hlutverk Þróunarsjóðsins virðist vera allt annað.
    Það er nú einu sinni svo að í 3. gr. kemur það fram að Þróunarsjóðurinn eigi að taka við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar. Hlutafjárdeild Byggðastofnunar hefur yfir að ráða eignum sem tilheyra ýmsum greinum atvinnulífsins á Íslandi. Þær tilheyra iðnaði, þær tilheyra landbúnaði og þær tilheyra þjónustu. Auðvitað spyr maður sjálfan sig hví í ósköpunum þessi atvinnugrein, sjávarútvegurinn, eigi að fara að taka yfir hlutabréf sem Byggðastofnun á í hlutafjárdeild Byggðastofnunar. Hver eru rökin fyrir því? Á þá iðnaðurinn að taka við því sem tilheyrir iðnaðinum? Við eigum t.d. hlutabréf í límtrésverksmiðju á Flúðum, svo ég nefni dæmi. Á þá iðnrh. að taka við því, eða í Alpan sem er með álpönnur?
    Ég sé ekki hver hugsunin er á bak við þetta. Ef hugsunin er sú að þessir aðilar eigi bara að taka við þessu til að selja það þá staldrar maður mjög við þá hugmynd að sá möguleiki er settur hér inn að hægt sé að selja þessar eignir án þess að greiða krónu fyrir þær í peningum. Það er nóg að borga þær með hlutabréfum í öðru fyrirtæki. Og þá erum við komnir í alveg kátbroslega stöðu, þ.e. fyrirtæki sem getur haft áhuga á því að eignast framleiðslutæki viðkomandi fyrirtækis, segjum fyrirtækis vestur á fjörðum, það lætur bara örfá hlutabréf frá sér til þess að fá þessi hlutabréf Byggðastofnunar. Þeir eru þar með komnir inn í stjórn félagsins, þeir eru þar með komnir með lista yfir kröfuhafa á fyrirtækið og það þarf ekki mikið hyggjuvit til þess að vinna að falli fyrirtækisins, flytja skipin burtu frá staðnum og úrelda svo á eftir eignirnar í landi. Ég tel þetta í reynd alveg forkostulegt og mig undrar það mjög að þingmenn dreifbýlisins í stjórnarflokkunum skuli hafa samþykkt þessi vinnubrögð. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa 12. gr. ef það mætti verða til staðfestingar og skilnings á því sem ég hef verið að fullyrða:
    ,,Hlutverk hlutafjárdeildar er að fara með og selja hlutabréf í eigu deildarinnar. Hlutafjárdeild er óheimilt að kaupa ný hlutabréf. Deildinni er þó heimilt við samruna félaga eða skipti á hlutabréfum að taka við nýjum hlutabréfum sem samsvara fyrri hlutabréfaeign. Hlutafé í eigu deildarinnar skal boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári og skal starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins, sem í hlut á, njóta forkaupsréttar. Hlutdeildarskírteini deildarinnar skulu skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjárdeild skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.``
    Hér er að mínu viti sett upp sú svikamylla að með ólíkindum getur talist. Hvort þeirri svikamyllu verður beitt til að koma einstökum stöðum á kné eða ekki skal ósagt látið. Það fer að sjálfsögðu eftir því hverjir veljast til þessara starfa. En oft hefur manni fundist anda ótrúlega köldu frá vissum eigendum fyrirtækja í sjávarútvegi til hinna smærri staða á Íslandi. Það hefur andað svo ótrúlega köldu að manni hefur fundist að þeir væru stundum eins og hrægammar bíðandi eftir því hvort ekki skapaðist nú möguleiki til þess að kaupa af þessum aðilum skipin fyrir lítinn pening.
    Ég treysti mér ekki til að styðja það sem 12. gr. gerir ráð fyrir og ég lít svo á að annaðhvort sé eðlilegast að fjmrn. umbúðalaust og milliliðalaust sem eignagæsluaðili íslenska ríkisins sjái um sölu á þessum bréfum ef Byggðastofnun er ekki treyst til þess að vinna það verk eða þá að bréfin verði áfram í eigu hlutafjárdeildar Byggðastofnunar.
    Ég geri mér grein fyrir því að það er dálítið merkilegt hvað Íslendingar hafa sumir hverjir snúist gegn byggðastefnunni, gegn því að vilja stuðla að því að ákveðin svæði landsins leggist ekki í eyði. Flestir íslenskir stjórnmálaflokkar eða allir hafa sömu rætur og hliðstæðar stjórnmálahreyfingar í löndum Evrópu. Menn eru gjarnan að vísa til byggðastefnu hjá EB og byggðastefnu í Bretlandi. Íhaldsmenn Bretlands, sem hafa stjórnað þar nokkuð lengi, þykja nú ekki miklir byggðastefnumenn þar en það er ólíku saman að jafna

hvað Margrét Thatcher var hlynntari dreifbýli heldur en þeir sem stýra Sjálfstfl. á Íslandi. Og það var ólíkt hvað viðhorf járnfrúarinnar til þeirrar skyldu að gæta hagsmuna breska ríkisins við sölu á eigum ríkisins var meiri. Eitt af því sem var í byggðastefnu breskra íhaldsmanna var að til þess að skapa eigið fé á vissum stöðum gæti verið nauðsyn að opinberir aðilar ættu hlutafé í fyrirtækjum, sæju til þess að þau kæmust myndarlega á legg og þegar það hefði gerst, þá væri farið í að selja hlutabréfin. En eitt af því sem hæstv. forsrh. taldi hvað brýnast þegar ákveðið var að veita Byggðastofnun aðför og reyna að þrengja hennar umsvif sem mest með reglugerð var að Byggðastofnun mætti ekki kaupa hlutabréf. Byggðastofnun mátti ekki breyta skuldum sínum í hlutabréf. Byggðastofnun átti heldur að horfa á fyrirtækið fara á höfuðið og tapa öllu. Það var athyglisvert að þegar hv. 1. þm. Vestf. vakti athygli á því hvað þetta væri í miklu ósamræmi við það sem aðrir sjóðir hefðu heimild til því að Landsbankinn hefur tekið þá ákvörðun í ýmsum málum að breyta skuldum í hlutafé og reka fyrirtækið áfram um vissan tíma og selja það svo heldur en láta það fara yfir. Iðnlánasjóður hefur sömuleiðis í sumum tilfellum tekið yfir og borið ábyrgð á rekstri vissan tíma og átt hlutabréfin í fyrirtækjum. Byggðastofnun skyldi alls ekki gera þetta. En þegar hv. þm. Matthías Bjarnason var búinn að fara yfir þetta, þá stóð hæstv. forsrh. upp og var miklu jákvæðari fyrir því að það gæti nú verið að það þyrfti að breyta þessu. En það hefur ekki bólað á neinni breytingu á reglugerðinni þannig að svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi verið stöðvaður og það hafi hreinlega verið kippt í spotta og maður spyr: Er það flokkseigendafélagið sem kippti í þann spotta?
    Nú er það svo að eitt af því sem við höfum verið að gera á undanförnum árum hefur verið að úrelda fiskiskip. Á bak við það er sú hugsun að reyna að sjá til þess að flotinn sé í samræmi við þá fiskveiðimöguleika sem við höfum. Flotinn hefur verið að stækka og við höfum verið að úrelda skip þrátt fyrir þetta. Mér finnst eðlilegt að hægt sé að úrelda skip og að við höldum áfram þeirri stefnu, en ég spyr sjálfan mig þeirrar spurningar: Hvað er að gerast ef við lítum svo á að það sé nóg að skip hafi borgað þrjú ár til úreldingar? Ég sé engin ákvæði um að það þurfi að vera gömul skip sem um er að ræða og ég veit um tiltölulega nýlegt skip sem var byggt úr plasti og varð eign Landsbankans að þar voru uppi hugmyndir um að það væri vitlegast að úrelda skipið. Og umhugsunarefni er það ef við teljum að það verði framtíð í atvinnumálum Íslands við það að eyðileggja mjög þokkaleg veiðiskip, að það sé vit í slíku yfir höfuð. Á sama tíma og við höfum komið okkur undan því að rannsaka íslensku landhelgina til nokkurrar hlítar, vitum raunar sáralítið um þetta lífríki, þá sláum við því föstu að það eigi að fara að skattleggja sjávarútveginn til hagsbóta fyrir þjóðina með því að eyðileggja þokkaleg skip, í sumum tilfellum mjög nýleg. Er yfir höfuð eitthvert vit í þessu? Hefði ekki verið skynsamlegra að byrja á þeim endanum að rannsaka hafdjúpið í kringum landið þannig að við vissum öll meira um það hvaða auðæfi við höfum og þegar slík rannsókn hefði farið fram gætum við tekið ákvörðun um það að meta hvort þetta væri rétt?
    Ég minnist þess sem ungur maður að loðna var aðeins veidd í beitu, ekki datt nokkrum manni í hug að setja hana í bræðslu. Hún var veidd í beitu. Að öðru leyti var hún ekki veidd. Við erum með ýmsar fisktegundir sem við höfum lítt kannað veiði á. Við erum með ónotaðan fiskstofn, kolmunna, við landið. Við erum með óhemjumið af kúfiski, hreint ótrúlegt magn við landið. Við höfum verið að henda svartháf þegar Norðmenn hafa verið að hirða þá skepnu og selja hana fyrir góðan pening.
    Við göngum út frá þeirri vissu við samþykkt þessa frv. að það sé ekkert til í íslensku lögsögunni sem sé svo verðmætt að skynsamlegt sé að halda þessum skipum til veiða. Ég segi fyrir mig að það hefði kannski verið skynsamlegra að geyma einhver skip en að eyðileggja þau, en tvímælalaust er byrjað á vitlausum enda. Það er ekki byrjað á rannsóknaþættinum, það er ekki byrjað að kanna hvað eigi að gera til þess að fá svör við því hverjir eru möguleikarnir á meiri nýtingu á auðæfunum í kringum landið. Það liggur eftir.
    Það stendur til að halda hátíðarfund á Þingvöllum. Ég segi það enn og aftur úr þessum ræðustól: Einu sinni sameinaðist þjóðin um það að setja 1 milljarð í landgræðslu. Það var stuðningur við græna beltið, en það belti sem liggur út frá ströndinni og við lifum á og ég leyfi mér nú að kalla brúna beltið, þurfum við að rannsaka. Væri ekki skynsamlegt að Alþingi Íslendinga þyrði að taka ákvörðun um það á Þingvöllum að setja svo sem 2 milljarða í að rannsaka þetta belti, fá svör við því, hvaða möguleika höfum við til þess að sækja meiri auð í hafið? Hún er nefnilega orðin gömul sú klisja, ætli hún sé ekki orðin nálægt því 35 ára gömul eða eldri, að Íslendingar hafi ekkert meira að sækja í hafið. Þar sé ekkert að hafa. Nú er það samt svo að lífríki hafsins er það sem þessi þjóð lifir á öðru fremur. Við erum búnir að ná yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilandhelgi en við teljum okkur ekki þurfa að rannsaka hana nema óverulega og erum aðallega að glíma við þær fisktegundir sem við þekkjum þó best.
    Við eigum laxeldisstöðvar á sjávarkambi sem standa ónotaðar í dag og mætti með litlum tilkostnaði framleiða alveg ótrúlegt magn af þorskseiðum og sleppa í hafið. Ef sú fullyrðing fiskifræðinga að veikasti hlekkurinn í lífkeðju þorsksins sé að það vanti fleiri seiði þá er það langauðveldasti þátturinn til að bæta úr einfaldlega með því að ala þorskseiði og sleppa þeim. Við höfum þessa aðstöðu. Hún er til í Þorlákshöfn. Hún er líka að nokkru leyti til í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi. En við erum ákveðnir því að aðalatriðið sé að eyðileggja skip sem eru þokkalega búin, bæði hvað skipsskrokk og tæki varðar, ætlum að veita til þess styrki og fara út í að skattleggja sjávarútveginn til að framkvæma þetta. Það verkar einkennilega á mann að ekki skuli vera miðað aðeins við léleg og gömul skip, það verkar einkennilega. Hér er ekki annað að finna en það eigi að miðast við að þau hafi greitt þrjú ár í sjóðinn.

    Ég spyr sjálfan mig líka að öðru sem gengur þvert á allt skipulag sveitarfélaga á Íslandi og alla sjálfsstjórn sveitarfélaga í landinu og má hreint furðulegt heita. Við segjum að skipulagsmál eigi að heyra undir sveitarfélögin og sveitarfélögin hafa vissulega verið að reyna að skipuleggja sín byggðarlög jafnskynsamlega og þau geta. Og eitt í því hefur verið að staðsetja fiskverkunarhúsin á hafnarsvæðunum eða í nágrenni við þau og banna sem mest alla starfsemi aðra á hafnarsvæðinu en annaðhvort fiskvinnslu og starfsemi tengda því sem gerist við höfnina. En núna dettur mönnum það í hug að þriggja manna sjóður geti tekið ákvörðun um það að aðalsvæði hafnarinnar, ekki aðeins húsið heldur lóðir, séu bara teknar úr umferð gagnvart fiskverkun. En menn halda að eftir sem áður eigi sveitarstjórnirnar að ráða skipulagsmálum.
    Ég heyrði það héðan úr ræðustól að það ætti að ganga þannig til þessara hluta að það ætti ekki að greiða nein fasteignagjöld meðan þau væru í eigu Þróunarsjóðsins. Gera menn ráð fyrir því að svona stórt og mikið fiskverkunarhús sem verður tekið á hafnarsvæðinu, verði hægt að nota undir leikhús, hótel, iðnaðaruppbyggingu eða danshús? ( Landbrh.: Þeir nota það nú fyrir krár þarna úti í Hull.) Eða þá þeir noti það undir krár. Þeir eru nú reyndar úti í Hull að byggja risastórt hús sem er ætlað fyrir ferðamenn og vilja hafa þá aðstöðu þar að það minni á togaratímabilið þegar Bretar stunduðu veiðar við Ísland, ætla að hafa vaggandi svalir og lykt eins og um borð í togurunum. Maður spyr sjálfan sig: Hvað hyggur hæstv. landbrh. að verði mikil aukning á sölunni hjá Tóbaks- og áfengisverslun ríkisins þegar stór hluti af frystihúsum landsins verður orðinn að krám eins og hér er fleygt fram? Á að gera frystihúsið Hjálm á Flateyri, svo að maður nefni dæmi, að húsi sem tekið verði úr umferð um alla framtíð sem fiskverkunarhús og nota það undir eitthvað allt annað?
    Eitt er alveg stórmerkilegt við þetta. Það er miðað við 75% af fasteignamati fasteigna og 20% af verðmæti framleiðslutækja samkvæmt mati sjóðsins. Maður hefur það einhvern veginn á tilfinningunni að þetta sé kannski svona upphæð sem muni renna beint inn í sjóðakerfið, það sé verið að borga upp veð á húsunum og að raunverulega sé verið að skattleggja íslenskan sjávarútveg til þess að tryggja það að Fiskveiðasjóður tapi ekki nokkrum milljónum eða milljónatugum á einhverju húsi sem notað hefur verið til fiskvinnslu. Í sumum tilfellum er þó hugsanlegt að eigendur fái peninga út úr þessu dæmi. Því er ekki að leyna.
    En hvað með íbúðarhúsin í þorpinu? Ég veit ekki hvað margir vita það en menn hafa verið að selja íbúðarhús á 30% af brunabótamati eigna úti á landi í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar allt fór undir hraun í Vestmannaeyjum var brunabótamat eignanna greitt í bætur. En hvert verður íbúðarhúsnæðisverðið ef Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur gengið þannig frá málum að það sé búið að úrelda allar bestu lóðir sjávarþorpsins og aðalfiskverkunarhús og setja á það stimpil að þar megi aldrei fara fram fiskverkun meir, aldrei meir? Er það virkilega svo að menn líti svo á að þrír menn skipaðir af ráðherra, staðsettir hér syðra trúlega allir, eigi að verða yfirskipulagsmeistarar heilla byggðarlaga um ókomin ár? Til hvers er að skipuleggja byggðarlag sem hefur risið upp í kringum höfn eftir að búið er að taka ákvörðun um það af einhverjum sem ekki búa á staðnum að hafnarsvæðið eigi að vera minningarreitur um fiskvinnslu en ekki til þess að verka þar fisk?
    Og hvað með fasteignaverðið? Hver er réttur hins almenna manns? Mér er ljóst að þeir sem hafa keypt félagslegar íbúðir eiga kröfurétt á sveitarfélagið jafnlengi og sveitarfélagið lifir til þess að eignirnar verði keyptar. En hvað með hina sem áttu sitt íbúðarhús og byggðu það eftir venjulegum leiðum? Er þá niðurstaðan sú að það eigi að tryggja það að Fiskveiðasjóður fái greiðslur, Byggðastofnun fái greiðslur, eigendurnir að fiskvinnsluhúsunum fái e.t.v. peninga, en það sé alveg sama með fólkið sem býr í byggðarlaginu og á þessi hús? Er það niðurstaðan?
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst það alveg ótrúleg ósvífni að taka fjármuni af þeim fyrirtækjum sem eru í sjávarútvegi til þeirra hluta sem hér er lagt til og að gera ráð fyrir því að sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi í þessu landi geti sætt sig við það yfir höfuð að það sé ekki uppbygging atvinnulífs í landinu sem eigi að vera markmiðið heldur eyðilegging eigna. Það er gífurlegt offramboð af iðnaðarhúsnæði í Reykjavík og ég spyr: Má búast við því að það verði skipaður sérstakur sjóður sem öll starfandi iðnfyrirtæki Íslands verði látin greiða skatta til, þeim hefur verið að fækka að undanförnu, og tekin verði ákvörðun um að það megi alls ekki reka iðnað í þessum húsum meir en trúlega mætti reka í þeim sjávarútveg ef ég skil kerfið rétt? Er þá hugsunin sú af því að það er allt of mikið verslunarhúsnæði í Reykjavík að menn taki sig til og stofnuðu þróunarsjóð verslunarinnar sem keypti upp verslunarhúsnæði og eina kvöðin sem sett yrði á sjóðinn væri það að það mætti aldrei stunda verslun í þessu húsnæði meir? Er það virkilega einhver svona hringavitleysa sem mönnum dettur í hug að sé lausnin á atvinnumálum þjóðarinnar? Ef menn eru sjálfum sér samkvæmir og hugsa rökrétt þá ætti þetta að vera framþróunin, þá ætti þetta að vera það sem mönnum dytti í hug og þá mundi hefjast rúlletta. Nýsköpun í iðnaði ætti að framkvæma í þeim húsum sem áður hefðu verið notuð fyrir fiskvinnslu. Nýsköpun í sjávarútvegi ætti trúlega að flytja í þau hús sem hefðu verið notuð fyrir verslun og verslun ætti svo að flytja í iðnaðarhúsnæði.
    Það sem hér er verið að gera er alveg makalaust sjóðasukk og það er ekki skrýtið þegar skoðað er hverjir það eru sem stjórna landinu. Þetta virðist vera nokkurs konar almannatryggingakerfi fyrir atvinnulíf. En verður allt leyst með tryggingum? Verður ekki líka að fara í það að byggja upp atvinnulífið?
    Ég verð að segja eins og er að eitt af því sem þetta frv. gerir að verkum er að það kemur óorði á nafnið ,,þróunarsjóður``. Það kemur óorði á þetta nafn vegna þess að það á ekki að nota sjóðinn til framþróunar nema að óverulegu leyti. Ég ætla að lesa hér 16. gr.:
    ,,Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eignast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn tekur skulu undanþegin stimpilgjöldum.``
    Þá vitum við það. Hvernig ætli Reykjavíkurborg tæki því ef það væri samþykkt á Alþingi Íslendinga að fleiri, fleiri stórhýsi, við skulum segja að helmingurinn af því húsnæði sem notaður er til atvinnurekstrar í borginni, væri tekinn af fasteignaskrá og sagt að það þyrfti engin fasteignagjöld að greiða til Reykjavíkurborgar af þessum fasteignum? Ef stórt frystihús er tekið í sjávarþorpi á Íslandi og úrelt, þá er það miklu meira en helmingurinn af fasteignagjöldunum sem atvinnulífið á viðkomandi stað greiðir. Og það vekur undrun mína að menn skulu láta sér detta þetta í hug. Það hlýtur að vera ákaflega freistandi að kaupa ekki húsnæði af þessum sjóði. Það hlýtur að vera ákaflega freistandi að leigja af honum húsnæðið og vera bara áfram undanþeginn því að þurfa að borga fasteignagjöld eins og aðrir í samfélaginu.
    Það fylgir nefndarálit frá minni hluta sjútvn. sem þeir skrifa undir Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Ásgrímsson, Jóhann Ársælsson og Stefán Guðmundsson, þar sem mikið af bréfum hefur verið ljósritað og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hluta af einu bréfinu til þess að vera ekki of langorður. Bréfið er frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, dags. 14. mars 1994 og er til sjútvn. Alþingis:
    ,,Varðandi þróunarsjóð, þá getur stjórn SSS ekki annað en mótmælt þeim hugmyndum að einstaka aðilar geti fengið undanþágu frá fasteignagjöldum. Það er grundvallaratriði í augum sveitarstjórnarmanna að markaðir tekjustofnar sveitarfélaga verði ekki skertir með þessum hætti og minna á að nýlega var aðstöðugjaldið fellt niður til að rétta stöðu atvinnuveganna. Stjórn SSS telur einnig varhugavert að auka álögur á sjávarútvegsfyrirtæki í ljósi fjárhagserfiðleika undanfarinna ára.``
    Nú vill svo til að á forsetastól situr þessa stundina hv. þm. Sturla Böðvarsson. Og hv. þm. hefur stundum talað um að það eigi að hlusta á sveitarstjórnirnar, það eigi ekki að ráðskast með þeirra málefni án þess að hafa við þær samráð, það sé grundvallaratriði. Og ef ég man rétt þá ræddi hv. þm. á sínum tíma seinast á þessum nótum þegar verið var að ræða um húsaleigubætur þar sem sveitarfélögunum voru ætlaðar nokkrar skyldur eða heimildir til þess að innleiða ákveðin ákvæði ef þau hefðu áhuga á sem Alþingi samþykkti. Hér er beinlínis verið að hirða af þeim tekjustofna í trássi við þeirra vilja og ef menn eru sjálfum sér samkvæmir í málflutningi, þá þýðir ekki að halda því fram undir sömu kringumstæðum að það eigi að hafa samstarf við sveitarfélögin, en undir öðrum kringumstæðum megi vaða yfir sveitarfélögin alveg eins og mönnum sýnist, svipta þau í reynd skipulagsréttinum yfir sínu landi og sínu húsnæði og að vopnið sé jafnframt það að minnka tekjustofnana því að um leið og sjóðurinn eignist ákveðin hús þurfi ekki að borga fasteignagjöld.
    Ég held að þetta frv. sé að mörgu leyti eitt af því ósvífnasta sem ég hef séð í garð sveitarfélaga hvað þetta varðar. Og undarlegt má það vera ef umhvrn., sem hefur nú fengið í hendurnar yfirstjórn skipulagsmála, hefur ekki látið kanna það hversu stórar lóðir og lendur sum sjávarútvegsfyrirtæki eiga í kringum eða við hafnir í sumum sjávarþorpum á Íslandi. Það er alveg einstök staða sem gæti komið upp ef frv. er samþykkt á þennan hátt. Það liggur við að sveitarfélög gætu neyðst til þess að gera það upp við sig hvort ekki væri betra að kaupa ákveðið hús á hærra verði en Þróunarsjóðurinn býður til þess að bjarga sveitarfélaginu frá því að Þróunarsjóðurinn kaupi húsið. Að það sé í reynd með óbeinum hætti verið að koma kaupskyldu á sveitarfélögin á úreldingu á húsum í sjávarþorpunum. Ætli það sveitarfélag sem stæði frammi fyrir því að það ætti að taka allar aðallóðir við höfnina úr umferð sem sjávarútvegslóðir um ókomna tíð og það þyrfti að borga kannski 20 millj. til að koma í veg mundi ekki hugsa um sig um tvisvar? Það væri þá búið að vera hvort eð er. Ætli ekki væri þá skynsamlegra að kaupa og reyna að sjá til þess að fasteignirnar væru reknar, að þar væri áfram eitthvað unnið en horfa á það að þetta væri gert að minjagripum eða bjórkrám eins og hæstv. samgrh. sagði hér áðan.
    Ég hygg að hv. þm. Sturla Böðvarsson þekki það vel til í sínu kjördæmi, m.a. á Snæfellsnesi, að hv. þm. geri sér grein fyrir því um hvað getur verið um að tefla í þessu sambandi. Það er alveg ótrúleg ósvífni að ætla að ómerkja skipulagslögin með þessum hætti. Ef hafnarstjórn hefur það svo líka í sínum samþykktum að það sé bannað að hafa hefðbundinn iðnað á hafnarsvæðinu þá er þetta bara ákvörðun um að húsið standi þarna án þess að nein fasteignagjöld séu greidd og án þess að hægt sé að nýta það eða lóðirnar til nokkurs skapaðs hlutar.
    Mér finnst það hreint út sagt með ólíkindum að mönnum skuli detta það í hug að vaða svona yfir rétt sveitarfélaganna. Og undarlegt má það heita, svo að ekki sé meira sagt, að hæstv. umhvrh. virðist ekki telja að það eigi að reisa rönd við. Ég sé ekki í þessu frv. neina möguleika á því að hægt sé að kaupa þessar eignir aftur undan þessum kvöðum með nokkru móti. Hér virðist eiga að geirnegla niður hlutina í eitt skipti fyrir öll. Og það er eins gott, þó ekki sé meira sagt, að þessir þrír menn sem sjútvrh. á að skipa til þessara hluta séu ekki mjög byggðafjandsamlegir, ég segi nú ekki meira en það.
    Það er líka einn fáránleiki varðandi þetta atriði. Ef núv. ríkisstjórn, sem á eftir af lífdögum sínum hámark eitt ár, skipar í þessa stjórn, þá er hún að skipa menn til að vinna í þessum málum þrjú ár fram í tímann eftir að hennar lífdagar eru búnir. Það er alveg með ólíkindum að mönnum skuli detta þessi vitleysa í hug. Það er eiginlega lágmark að menn bindi þetta við líftíma ráðherrans og nýr ráðherra hafi heimildir til að skipa aðra en ekki að menn láti sig dreyma um það að þeir fái að stjórna áfram eftir að ráðherrar eru farnir frá. Það er t.d. með Byggðastofnun, svo að maður taki dæmi, sem hefur þó nokkur áhrif

á þróun byggðar þegar hún hefur möguleika til þess vegna fjármuna, gert ráð fyrir að það sé miðað við hvert kjörtímabil fyrir sig en ekki að fráfarandi ráðherra ætli að stjórna vissum hlutum eftir að hann er hættur. Hér er verið að tala um slíkt vald að það er yfir höfuð með ólíkindum að einn ráðherra skuli fá að tilnefna stjórn svona sjóðs. Og annað hitt. Það er með ólíkindum að láta sér detta það í hug að þetta geti gerst þannig að ráðherrann fái að stjórna þrjú ár eftir að hann er hættur.
    Ég geri mér grein fyrir því að það er búið að geirnegla þetta mál. Það er búið að semja um að setja fram skipulag á þessum hlutum með vissum hætti. Ef til vill er þetta sú gulrót sem Alþfl. á að veifa út um byggðir landsins, að þarna sé verið að láta menn borga í einhvern sameiginlegan sjóð, útgerðina í landinu, og það sé hægt að breyta þessari skattheimtu seinna meir. Ef til vill er það svo. Fróðlegt væri þá að vita hvert var kaupverð gæfunnar þegar þessir hlutir voru settir niður. Hvað var það sem Sjálfstfl. fékk í staðinn? Var það eitthvað jafnvirði þess sem hér er? Auðvitað hefur sá sem hér stendur ekki hugmynd um það.
    Það er búið að bæta við einni fallegri setningu í brtt. og með leyfi forseta get ég ekki stillt mig um að lesa þessa brtt. Það er a-liðurinn í 6. lið brtt. sem meiri hlutinn flytur:
    ,,Þróunarsjóður skal stuðla að vöruþróun, markaðssetningu íslenskra sjávarafurða og annarri nýsköpun í sjávarútvegi sem og þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Í því skyni er sjóðnum heimilt að veita lán og ábyrgðir.``
    Hérna er verið að tala um það sem í öllum þróunarsjóðum á að vera aðalatriðið, númer eitt, höfuðmarkmiðið. Það er sett neðst í brtt. Það er eins og það hafi fengið að fljóta með fyrir náð og miskunn í lokin.
    Herra forseti. Ég veit ekki hvað er hugsað með þinghald, en ég tel eðlilegt að gera hér stans, ljúka máli mínu því ég held að ég hafi komið til skila öllum aðalefnisatriðum þessa máls.