Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 21:00:12 (7891)


[21:00]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. heiðri okkur innan stundar með nærveru sinni. Það eru ýmis atriði þessa máls sem ég hefði áhuga á að ræða við hæstv. ráðherra.
    Það er reyndar svo að þegar farið er yfir þetta mál, lesnar helstu umsagnir sem um frv. hafa borist og rifjað upp hvernig skoðanaskipti hafa verið í þjóðfélaginu um þennan blessaða Þróunarsjóð, svo ekki sé nú talað um það sem hv. sjútvn. fékk að heyra um króann, þá fallast manni nánast hendur gagnvart því að standa frammi fyrir afgreiðslu á þessu máli. Það verður að segjast alveg eins og er að einhvern veginn er það þannig að maður vill í lengstu lög trúa því að ef mál leggst með einhverjum tilteknum hætti svo gersamlega eindregið að allir sem að því koma eru sammála um að það sé á einn eða annan veg, gott eða vont, og það má heita þjóðarsamstaða um málið, þá sé með það farið í samræmi við það. En hér er akkúrat það gagnstæða á ferðinni. Það er í raun og veru þjóðarsamstæða á móti þessum Þróunarsjóði. Það finnst varla nokkur maður nokkurs staðar sem mælir með því að þetta sé afgreitt eins og það liggur fyrir nema hæstv. ríkisstjórn og þeir rúmlega 30 þingmenn sem að henni standa á Alþingi. Það er náttúrlega gífurlegur minni hluti með þjóðinni því að hún er, eins og kunnugt er, 265 þús. manns í landinu miðað við nýjasta manntal. Þær 32--36 hræður sem að þessu máli standa eru því nokkuð mikill minni hluti.
    En gamanlaust er það þannig, hæstv. forseti, að ég hef ekki komist yfir umsögn um þetta frv. eða hitt þann mann að máli úr sjávarútveginum sem mælti með afgreiðslu þess. Mig hrekkur ekki minni til þess. Það væri fróðlegt ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem einnig hefur starfað að þessu máli í sjútvn., gæti bætt um betur og dregið fram þó ekki væri nema eins og einn slíkan. ( VE: Veit um nokkra í laumi.) Það eru þá miklir laumukommar, eins og við mundum segja í mínum flokki, sem styðja þetta mál. Ég hef ekki orðið var við þá. Þeir hafa falið sig mjög vandlega innan íslenska sjávarútvegsins á þessum vetri.
    Engu að síður er það nú svo að hæstv. ríkisstjórn ætlar að afgreiða þetta og hvers vegna er það nú? Af hverju ætli hæstv. ríkisstjórn ætli að afgreiða þetta? Það er vegna þess að það voru gerð um þetta hrossakaup fyrir rúmlega hálfu ári síðan og líf ríkisstjórnarinnar hefur nú einu sinni byggst á hrossakaupum og hangir á hrossakaupum og nú er andrúmsloftið orðið svo viðkvæmt og vakurt í stjórnarsamstarfinu að þeir þora ekki að taka upp eitt einasta atriði sem í þessum pakka er af ótta við að allt springi í loft upp. Þess vegna er það þannig að þó að bent sé á alveg hina augljósustu vitleysu og þvílíkar fjarstæður séu á ferðinni í frumvörpum eins og þessu og reyndar t.d. því sem er á dagskrá og varðar ráðstafanir gagnvart vanda Vestfirðinga, sem ranglega eru kallaðar svo, að það er alveg sama á hvað er bent í þessum málum. Það er ekki hægt að breyta neinu. Þeir játa að vísu að þetta sé vitlaust og hitt sé ómögulegt, en nei, því miður. Þetta er hluti af samkomulaginu. Þetta er hluti af hrossakaupunum og þar með verður það að hafa sinn gang.
    Þess vegna gerist það að samið er um þennan svokallaða Þróunarsjóð sem var náttúrlega og er algert rangnefni þó að það sé verið að reyna að laga hann lítillega til í brtt. Hann er hluti af einhverjum hrossakaupum stjórnarflokkanna varðandi sjávarútvegsmál í desember eða nóvember, ef ég man rétt. Þá fékk hæstv. sjútvrh. leyfi til að leggja fram frumvörpin og þá var þessi Þróunarsjóður hluti af pakkanum. Í honum eru ákvæði sem voru sérstaklega hugsuð sem dúsa upp í Alþfl. og þar er á ferðinni vísir að auðlindaskatti. Þetta var gert til þess að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., gæti riðið um héruð og sagt að þeir hefðu fengið nokkuð fyrir sinn snúð. Þarna væri vísir að auðlindaskatti sem síðan mætti prjóna upp á. Það væri búið að fitja upp á sokkinum og prjónavinnan eftir.
    Það er alveg ótrúleg útkoma að sitja svo uppi með þetta mál á vordögum sem arfleifð frá þessu gamla og vitlausa samkomulagi og hafa ekki önnur rök fram að færa gagnvart afgreiðslu þess en þau að þetta sé samkomulag sem líf stjórnarflokkanna hangi á og þess vegna verði þetta að fara í gegn þó að hér finnist ekki nokkur einasti maður sem mælir með því. Enda er málið arfavitlaust og illa unnið og bersýnilega ósanngjarnt að ýmsu leyti og eins og ég hyggst sýna fram á, hæstv. forseti, og reyndar hefur verið gert bæði við 1. umr. og eins það sem liðið er þessarar umræðu.
    Það eru margir tæknilegir þættir þessa máls þannig að það verður ákaflega erfitt að sannfæra menn um að þeir gangi yfirleitt upp. Ég ætla þá að byrja á þeim sem snýr að úreldingu fiskvinnsluhúsa. Það vakti strax mikla athygli þegar mál var kynnt eða drög að samkomulagi um það komu fram, ég man ekki lengur hvort einhver vísir að þessu var í tillögum tvíhöfða sáluga. Eitthvað voru þeir að vesenast með þetta, gott ef þeir vildu ekki fara að úrelda frystihús. Einhvers staðar í ferlinu kom sú hugmynd upp og þá spurðu menn eðlilega að því: Á að fara að úrelda fiskvinnsluhúsin? Á þá ekki að leyfisbinda þá starfsemi? Hvernig ætla menn þá að halda utan um það eða ætla menn að úrelda hús öðrum megin við götuna og svo byggja menn nýtt upp í staðinn hinum megin og halda áfram fiskvinnslu? Hver er þá tilgangurinn? Nei, það átti ekki að gera það. En hugmyndin var þó sú a.m.k. að það yrði þinglýst kvöð á viðkomandi hús um að þar yrði ekki unninn fiskur á næstu árum og hefur mörgum gengið dálítið illa að skilja þetta mál. Fyrir það fyrsta telja menn sig, sem sæmilega þekkja til í greininni, almennt vita að í sjálfu sér breyti það litlu ef nokkru um rekstrarumhverfi starfandi fyrirtækja í fiskvinnslu þó að einhverjum öðrum, sem búið er að loka hvort sem er, séu borgaðir peningar. Menn sjá ekki að það breyti miklu, að þorskunum fjögi í saltfiskverkun eða frystingu á viðkomandi stað. Staðreyndin er sú að í langflestum tilvikum eru menn að tala um einhver hús sem eru meira og minna eða aflögð sem fiskvinnsluhús og keppa þar af leiðandi ekki um hráefni við önnur sem í gangi eru.
    Á hitt hefur verið bent og menn voru rækilega minntir á það á síðustu loðnuvertíð að það getur verið gagn að þessum húsum. Það getur verið gott að geta gripið til þeirra. Og þau geta jafnvel nýst til mikillar verðmætasköpunar þótt tímabundið sé eins og til loðnufrystingar á vetrum. ( VE: Enda breytum við frv.) Akkúrat. Þá ráku hv. þm. sig á þetta horn og ákváðu að fella niður þá þinglýsingarkvöð um að ekki skyldi unninn fiskur í húsunum.
    En hvað er þá eftir? Hvernig á málið þá að ganga upp framkvæmdalega? Á að borga mönnum fé fyrir að úrelda fiskvinnsluhús án þess að þeir taki á sig kvaðir um að nota það ekki áfram, án þess að fiskvinnslan verði þá leyfisbundin þannig að það verði eitthvað haldið utan um fjölda fyrirtækja í þessari grein? Ég bið menn að rökstyðja þetta mál. Spýtast nú stjórnarliðar út unnvörpum úr salnum því að það má greinilega ekki ræða þetta við þá. Hefur hæstv. sjútvrh. gert grein fyrir því hvernig þessi framkvæmd eigi að vera? Og er það virkilega svo að menn ætli bara að afgreiða þetta svona, steypa sér til sunds? Mér finnst þetta vera með miklum ólíkindum satt best að segja ef menn ætla ekki að ganga þannig frá því að hægt sé að verja það að fara að setja fé út í stórum stíl. Eða er það kannski þannig að það séu einhverjir valdir gæðingar sem bíði eftir ávísununum og það sé þannig mál á ferðinni að það séu jafnvel tiltekin tóm fiskvinnsluhús ekkert allt of langt frá Alþingishúsinu sum hver sem séu sérstaklega höfð í huga þegar gengið er svona frá málinu? Hvað er þarna á ferðinni?
    Ég leyfi mér að fullyrða það að sú uppstokkun og endurskipulagning fiskvinnslunnar sem slíkrar í landi í greininni sé meira og minna um garð gengin. Ég held að greinin sé þegar í grófum dráttum búin að aðlaga sig að því hráefnismagni sem er í umferð í dag og hafi gert það á undanförnum árum hjálparlaust, að vísu með stuðningi á köflum. Það er enginn vafi á því að aðgerðirnar 1988--1989 ýttu mjög undir uppstokkun í þessari grein, en allt öðruvísi en hér er ætlast til. Í aðgerðunum þá voru sameinuð fyrirtæki og fiskvinnsluhús í mörgum byggðarlögum með ágætum árangri og hægt að tefla því fram hvenær sem er. Ég get nefnt Ólafsfjörð sem dæmi. Þar voru rekin tvö frystihús og áttu bæði í erfiðleikum með minnkandi hráefni. Nú er þar rekið eitt, búið að endurskipuleggja alla vinnslu og sameina hana. En sambærilegar aðstæður eru í fæstum tilvikum að mínu mati til staðar í dag. Hvernig ætlar Þróunarsjóðurinn þá að tryggja það að fiskvinnsluhús sem hann hefur úrelt og eignast verði ekki bara gangsett daginn eftir? Ætlar hann að gera það með því að eiga þau? Er það svarið? Er ekki meiningin að hann geti aflað fjár með því að selja þessar eignir aftur og þá án kvaða um að ekki verði unninn í þeim fiskur?
    Það er fleira mjög sérkennilegt við þetta mál. Það er t.d. ákvæði um það einhvers staðar í frv. að það sé heimilt að fella niður gjöld af fiskvinnsluhúsum sem Þróunarsjóðurinn hefur eignast þannig að Þróunarsjóðurinn getur, með því að úrelda fiskvinnslustöðvar, svipt viðkomandi sveitarfélög tekjum af þeim eignum. Það liggur þannig. Ég vænti þess að hv. þm. stjórnarliðsins viti þetta. Já, þeir eru hressir með þetta, brosa alveg í stórum stíl úti í salnum, það er ánægjulegt. En hvernig snýr það nú við? Þessu hafa sveitarstjórnarmenn um allt land mótmælt og ég óska stjórnarflokkunum alveg sérstaklega til hamingju með þessa vöggugjöf handa sínum mönnum í sveitarstjórnarkosningunum á næstu vikum. Það er fínt fyrir Alþfl. þar sem hann býður fram enn þá, sem er nú sem betur fer ekki víða, að geta farið og barið sér á brjóst og sagt við sveitarfélögin: Við náðum því nú fram á þinginu að það verða skertar hjá ykkur tekjurnar ef Þróunarsjóðurinn leggur niður fiskvinnslustöð í okkar byggðarlagi. ( Gripið fram í: Tveimur fleiri en síðast.) Já, en færri atkvæði, það er þannig sem þið ætlið að fara að því.
    Þetta er auðvitað mjög merkilegt mál. Þessu hafa sveitarfélögin mótmælt upp til hópa og samtök sveitarfélaga. Ég verð ekki var við brtt., ég verð ekki var við að stjórnarliðið hafi tekið á þessu máli og af hverju ekki? Það má engu breyta. Stjórnin gæti sprungið í loft upp. Það má ekki lagfæra stafsetningarvillur einu sinni. Þó þeir hafi skrifað einhvers staðar eitthvað með y sem á að vera með einföldu þá má ekki laga það, stjórnin gæti sprungið. Það má ekki breyta neinu.
    Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. fara yfir það með okkur og ég vona að hæstv. sjútvrh. skrifi þessar spurningar hjá sér. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að ég er að reyna að ná athygli sjútvrh. til að leggja fyrir hann spurningar. Það gengur oft alveg grátlega illa að fá hæstv. sjútvrh. til að taka eðlilegan þátt í umræðum og þingstörfum. Það er eins og hæstv. ráðherra hafi ekki áttað sig á því að hann sé sjútvrh. og er þó langt liðið á kjörtímabilið því hann ætlast alltaf til þess að einhverjir aðrir svari fyrir hann og hans störf í greininni en hann sjálfur. ( Gripið fram í: Tvíhöfða nefndin.) Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er að vísu oft lipur í spori við að hlaupa í skarðið fyrir sjútvrh. og reyna að berja eitthvað í brestina en hann er ekki í salnum í augnablikinu. ( VE: Ég hlusta.) Ég vona að þessir stórsnillingar, annaðhvort helmingurinn af tvíhöfðanum eða hæstv. sjútvrh. svari þessu. ( StG: Heldurðu ekki að það sé búið að úrelda þá?) Nema það sé búið að úrelda þá, ég veit það ekki, nei.
    Í fyrsta lagi: Hvernig á þetta að ganga upp með úreldingu fiskvinnslustöðvanna eins og frv. og brtt. meiri hlutans eru nú úr garði gerðar? Hvernig á þetta að ganga upp? Maður leyfir sér að spyrja. Ég þekki engin dæmi þess að svona framkvæmd hafi ekki byggst á því að viðkomandi væri varanlega tekið út úr greininni. ( VE: Þú miðar nú allt við sláturhús, Steingrímur.) Það er nefnilega ekki rétt, hv. þm. Ég þekki líka til úreldinga fiskiskipa og hver er hugsunin á bak við úreldingu fiskiskipa? Er hún sú að þau geti farið á sjó daginn eftir, keypt sér kvóta og haldið áfram? Nei, auðvitað ekki. Þau verða að hverfa úr íslenska flotanum. Lengi vel var það meira að segja svo strangt að þau urðu að fara annaðhvort niður á hafsbotn eða út úr efnahagslögsögunni. Það á að vísu að breyta því núna. Smábáta þurfti að brjóta í tvennt eins og kunnugt er og var mikil sóun. Og af því að hér var nefnd úrelding sláturhúsa. Hvernig var það? Jú, það var þannig að á viðkomandi mannvirki var þinglýst kvöð um að þau yrðu ekki nýtt til þeirrar starfsemi í framtíðinni. Auðvitað. Því það datt engum heilvita manni það í hug að fara að borga mönnum fé fyrir að úrelda mannvirki nema það væri tryggt að það héldi til einhverrar frambúðar og stjórnvöld hafa svo í því tilviki í höndunum leyfisveitingarvald gagnvart því að menn fái að slátra og geta þar af leiðandi haldið utan um hlutina. En það er ekki hér. Það er ekkert slíkt á dagskrá. Maður sem er með skemmu hægra megin við einhverja götu í Þorlákshöfn getur úrelt hana á morgun og byrjað svo að byggja daginn þar á eftir hinu megin við götuna fiskvinnsluhús. ( VE: Er það ekki ágætt fyrir atvinnu í byggingariðnaði?) Er þetta mjög gáfulegt? Ætla menn bara að hafa þetta svona?
    Það er von að menn séu kokhraustir og gangi hér glenntir um sali eftir að hafa afrekað það að koma svona löguðu niður á pappír.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þó að þessi þinglýsingarkvöð vekti hjá manni margar spurningar á sínum tíma þá er málið enn óskiljanlegra núna vegna þess að auðvitað var það þannig að ef kvöðinni var þinglýst í kaupsamningi og síðan gengið þannig frá því að hún fylgdi eigninni þá gat sjóðurinn út af fyrir sig selt viðkomandi húsnæði t.d. til iðnaðarstarfsemi og þurfti ekki að hafa af því áhyggjur að menn höfðu tak í gegnum hina þinglýstu kvöð en slíku verður ekki að heilsa eins og nú er að þessu staðið. Ég get því ekki séð annað en þetta þýði að sjóðurinn verði að eiga öll þessi hús sjálfur áfram ef hann ætlar að tryggja það að þau fari ekki í gang aftur. Og ætlar hann allan þann tíma að neita viðkomandi sveitarfélögum um tekjur af þeim? Ef þetta eru t.d. langstærstu fasteignirnar í litlu sjávarþorpi sem þarna eiga í hlut? Við getum hugsað okkur dæmið Stokkseyri þar sem vegna sameiningar standa stór og mikil hús lítið notuð eftir því sem ég best veit. Ef slík hús yrðu nú úrelt, borið fé á menn í því tilviki að leggja niður alla fiskvinnslu þar og þá missir viðkomandi hreppur stórkostlega peninga, nokkrar milljónir á ári. Á hann bara að sitja uppi með það? Og hvaða réttlæti er í því? Af hverju er þessi Þróunarsjóður eitthvað merkilegri en aðrir eigendur fasteigna í landinu að hann þurfi ekki að borga af sínum eignum?
    Ég held að þetta sé hin mesta della og menn hljóta að þurfa hleypa í sig mikilli hörku, menn með sæmilega heilbrigða skynsemi eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, hafa ætlað að láta sig hafa það að greiða þessu atkvæði. Ég verð að segja það að ég dáist að þeim kjarki sem menn sýna með því að láta vaða og greiða þessu atkvæði. ( Gripið fram í: Verslunarráð er á móti þessu.) Verslunarráð er auðvitað á móti þessu eins og allir aðrir aðilar í þjóðfélaginu, en það er að vísu ekki Vilhjálmur Egilsson sem skrifar undir það bréf, aldrei þessu vant. Það hefur komist á sú hefð hjá Verslunarráðinu að umsagnir um þingmál eru undirritaðar af skrifstofustjóra eða einhverjum öðrum lægra settum en sjálfum framkvæmdastjóranum. ( Gripið fram í: Er Villi hættur að rífast við sjálfan sig?)
    Ég hef, hæstv. forseti, í öðru lagi þegar þessi mál hafa verið til umræðu velt dálítið fyrir mér sjálfum grundvelli þessarar úreldingarstefnu. Ég hef reyndar gengið svo langt að halda því fram að hún væri tímaskekkja. Að hér væri á ferðinni samdráttarstefna, samdráttarsjóður fyrir sjávarútveginn sem væri hrein tímaskekkja. Ég held að ég geti rökstutt það með sæmilega gildum rökum. Að menn þurfi að spyrja sig margra áleitinna spurninga áður en þeir festa í sessi í enn ríkara mæli en verið hefur úreldingarkerfi af þessu tagi, velta hreinlega fyrir sér grundvellinum. Er það skynsamlegt ef við ætlum að ráðstafa 4.000 millj. kr. til sjávarútvegsins á einhverju tilteknu tímabili eins og hér á að gera? Ég vona að hv. þm. hafi áttað sig á því. Upphaf málsins er það að slá 4.000 millj. að láni og setja þær í þennan sjóð og fara að verja því fé út í greinina eða við skulum vona að eitthvað af því komist þangað þó maður óttist að mikið af því endi hjá bönkum og sjóðum og sjávarútvegurinn standi lítið betur, a.m.k. hvað lausafjárstöðuna snertir. En ég spyr mig: Ef maður hefði 4.000 millj. og gæti ráðstafað þeim að vild inn í sjávarútveginn, hvernig kæmu þær að bestum notum? Koma þær að bestum notum með því að vera að úrelda tóm fiskvinnsluhús og minnka fiskiskipaflotann blint, bara í tonnum, alveg sama hvaðan þau tonn eru tekin? Ég hef miklar efasemdir um það. Ef t.d. hluti af úreldingarstyrkjunum á næsta ári minnkar loðnuflotann enn hvaða skynsemi er í því þegar við höfum orðið af stórkostlegum verðmætum undanfarin ár vegna þess að loðnuflotinn nær ekki kvótanum? Er einhver skynsemi í því að sá floti sem sækir í loðnu og kannski aðallega í rækju á móti að sé minnkaður eins og ástandið er í dag? Ég segi nei. Það er tóm della. Þarna eru á ferðinni tveir stofnar sem mörg undanfarin ár hafa ekki verið fullnýttir og virðast til viðbótar vera miklir möguleikar til veiða t.d. utan landhelginnar, rækjuveiða á Flæmska hattinum, væntanlega við Svalbarða einnig, og Dohrn-banka á rækju og fleira. Loðnuflotinn hefur verið að minnka. Það hafa góð, öflug og afkastamikil skip verið úrelt út úr loðnuskipaflotanum á undanförnum árum og í staðinn hafa komið togarar. Ég spyr: Er skynsamlegt að reka þessa stefnu svona? Að vera með blindan úreldingarsjóð sem borgar bara fyrir tonn eða endurnýjunarkröfuna þannig að það sé tonn á móti tonni óháð því hvar úr flotanum skipið fer og hvar inn í hann það kemur í staðinn.
    Ég er ekki viss um að þetta sé í mjög góðu horfi hjá okkur. Ég verð að segja alveg eins og er. Og þessi endalausi söngur um að fiskiskipaflotinn sé of stór. Er það bara allur flotinn eða eru það trillurnar sem eru of margar, eru það dagróðrarbátarnir, eru það vertíðarbátarnir, eru það rækjuskipin, eru það ísfisktogararnir, eru það frystitogararnir eða eru það stóru nótaskipin? Eða er það alveg sama hvar þessi tonn fara út eða inn úr flotanum? Auðvitað er það ekki þannig. Ég held að menn séu á mjög hættulegum brautum í þessu máli.
    Ég leyfi mér líka að spyrja í hverju hefur það birst sérstaklega að íslenski fiskiskipaflotinn sé allt of stór. Birtist það t.d. í því að ekki nema eitt eða tvö skip nýttu sér ágæta veiðimöguleika á Flæmska hattinum í rækju í fyrra? Af hverju fóru ekki fleiri? Ókeypis kvóti, afbragðs afkoma. Af hverju fóru ekki fleiri? Af hverju var það? Það var af því að þau höfðu nóg að gera hérna innan landhelginnar. Það var ekki sá hvati fyrir hendi sem hefði þurft að vera. Þau lágu ekki bundin á meðan. Þá hefðu þau frekar farið á Flæmska hattinn. Það er nú bara þannig.
    Það má spyrja sig að því hvort íslenski flotinn sé yfir höfuð nokkuð of stór. Jú, hann er of stór ef við lítum bara á þorskinn og aðstæður í augnablikinu gagnvart honum. Það er til miklu meira en nógu stór floti til að veiða þennan þorsk og þessi floti vildi auðvitað hafa miklu meira af þorski. En hvað mundi gerast ef hann fengi allt í einu 200--300 þús. tonn í viðbót af þorski? Hvað mundi gerast? Hann mundi hætta að sækja í rækju og hætta að sækja í ýmsar aðrar tegundir sem hann hefur nýtt sér í vaxandi mæli á undanförnum árum. Gæti það ekki verið þannig að það sé nefnilega býsna gott að flotinn þurfi að leita sér að verkefnum? Hefur það ekki skilað talsverðu inn í íslenska þjóðarbúið á undanförnum árum? Eða hvað gerðist upp úr 1980 þegar menn þurftu að takmarka sóknina í þorsk og svartar skýrslur komu fram og kvóti var settur á? Hvað gerðist í kjölfarið? Rækjan varð á nokkrum árum næstmikilvægasta útflutningstegund Íslendinga vegna þess að flotann vantaði verkefni. Hann fann sér þau í stóraukinni sókn í rækju.
    Auðvitað má segja að það væri best að hafa bara nóg af verðmætustu tegundunum og geta gengið í þorsk alveg endalaust, 350 daga á ári, en það er ekki þannig sem málin standa og við verðum að reyna að byggja þannig á sveigjanleika og þróun í þessari grein að við nýtum okkur alla þá möguleika sem nýtanlegir eru.
    Ég held að þessi úreldingarhugsun eins og hún er hér, handahófskennd og blind, sé allt of illa rökstudd. Hún byggir á einhverjum gömlum kenningum um að það sé bara staðreynd sem þurfi ekki að deila um að íslenski flotinn sé 20--25% of stór. Ég er búinn að hlusta á þessar ræður í 15 ár. Það eru u.þ.b. 15 ár síðan ágætir vinir mínir, jafnvel doktorar uppi í háskóla, fóru að halda þetta yfir okkur, að þetta væri bara reikningsdæmi, þetta væri svona, flotinn væri 25--30% of stór. Hvernig eru þessar formúlur fundnar? Þær eru fundnar út frá því að flotinn eigi bara að geta sótt, það komi aldrei bræla, það komi aldrei tregfiskirí, menn geti bara gengið í þetta eins og kolabing 300--320 daga á ári og mokað upp 15 tonnum á sólarhring. Það er einhver meðalafli. Það er góður afli á togara á Íslandsmiðum samkvæmt skýrslum og þá er þetta svona. Ef þetta stemmir ekki við skýrslurnar þá er flotinn of stór.
    Ég held að dæmið sé ekki þannig, hvorki gagnvart lífríkinu né heldur efnahagslega. Ég spyr mig að því:

Ef úreldingarmenn hefðu fengið að ráða á árunum upp úr 1980 og við hefðum úrelt jafnóðum þá afkastagetu sem losnaði í flotanum þegar þorskaflinn dróst saman, hvar stæðum við þá? Værum við þá með þá sókn í rækju, þá sókn í úthafskarfa og fjarlæg mið og þær auknu sérveiðar að ýmsu leyti sem við erum með í dag? Ég er ekki viss um það. Ég spyr mig t.d. að því hvort sú þróun hefði orðið til aukinna úthafsveiða sem við höfum séð á síðustu árum ef öll laus afkastageta hefði verið úrelt úr flotanum jafnóðum. Ég er ekki viss um það.
    Að lokum spyr ég mig að því og mér finnst það dálítið skemmtilegt að ég sósíalistinn skuli þurfa að gera það hér: Hvaðan kemur íhaldsmönnum á Íslandi sú vissa að þeir þurfi að hafa vit fyrir íslenskum útgerðarmönnum um stærð flotans? Er það upp úr kenningum frjálshyggjunnar og hægrihyggjunnar að einkaframtakið sé svo vitlaust að það muni gera út of stóran fiskiskipaflota alveg fram í rauðan dauðann nema stórspekingar eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og hæstv. sjútvrh. hafi vit fyrir þeim um að hætta því? Ég spyr. Það er von að maður spyrji.
    Af hverju treysta menn ekki á það að menn muni ósköp einfaldlega á rekstrarlegum grunni reka þann flota af þeirri stærð sem þeir sjá að þyrfti að hafa möguleika til og er hagkvæmt? ( VE: Veistu ekki enn þá svarið?) Nei, ég veit það ekki og ég er alveg viss um eitt, hv. þm., formaður tvíhöfða nefndar og framkvæmdastjóri Verslunarráðs og margt meira með miklum ágætum, að ég treysti íslenskum útgerðarmönnum betur til þess að taka ákvarðanirnar um þetta mál heldur en einhverjum skýrsluspekingum. Ég geri það vegna þess að ég held að veruleikinn muni verða besti dómarinn í þessum efnum. Ég er ekkert að segja að það geti verið réttlætanlegt að fyrir hendi sé einhver fyrirgreiðsla gagnvart þeim sem vilja hætta útgerð. Það er annað mál að mínu mati. En ég held að menn eigi að taka sjálfan grundvöll þessarar stefnu til skoðunar áður en menn afgreiða mál af þessu tagi og festa það væntanlega í sessi um langt árabil.
    Svo skulum við koma að einu enn í lokin á þessum kafla. Það er spurningin um hvaða áhrif það hefur innan greinarinnar að það er samkeppni um skipin, um tonnin, vegna þess að opinber sjóður býður í þau í hvert einasta skipti og skip verður endurnýjað, eigendur skiptast á skrokkum. Hvað gerist þá? Þá er kaupandi inni í myndinni. Úreldingarsjóður. Hann býður 75 millj. ef dallurinn er sæmilega stór. Hvað þýðir það? Það þýðir væntanlega að menn verða að kaupa þennan mun út. Þannig getur þetta meira og minna orðið leiðandi fyrir verðið í viðskiptum milli manna. --- Já, segir hv. þm. og það er sennilega allt í lagi. En ef það þjónar engum sérstökum skynsamlegum rökstuddum hagkvæmnismarkmiðum til hvers eru menn þá að því? Mér liggur við að segja að það væri meira vit í þessu ef frv. gengi út á það að setja eins mikla peninga og þarf til þess að kaupa út kannski 5.000 tonn, 5.000 brúttórúmlestir, og hætta svo ef menn væru bara komnir með þá niðurstöðu að það væri markmiðið sem þeir ætluðu sér að ná. Og t.d. ef þeir miðuðu við einhverja ákveðnar tegundir skipa þannig að það væri einhver rökhugsun á bak við þetta. Ef menn tækju þá ákvörðun að segja sem svo: Togaraflotinn er of stór, við ætlum að ná út úr honum 2.000, 3.000, 5.000 brúttórúmlestum eða hvað það er og gerðu það. ( VE: Þetta eru nú takmarkaðir peningar, Steingrímur.) En þá væri einhver hugsun að baki.
    Hvað lengi á að starfrækja apparatið? Ef koma erfiðir tímar á næsta ári og allt í einu banka 30% útgerðarinnar upp á og vill úrelda skipin sín, hvað ætlið þið þá að gera, hv. þm.? Er þá búið að marka stefnu um það? Hvenær á að hætta að kaupa? Málið er gjörsamlega í lausu lofti hvað svona hluti snertir. Það er engin hugsun á bak við það. Það var bara tekin í arf gömul úreldingarhugsun byggð á löngu úreltum kenningum að mínu mati um það að flotinn væri of stór. Engin spurningarmerki reist við það. Menn sögðu: Það hefur gengið of hægt að úrelda flotann, það hafa of fá skip farið út, hækkum bara prósentuna. 30% í 45%, 50 millj. í 75 millj. Og hvað gerist þá eftir ár ef engin skip verða nú í boði? Á þá enn að hækka? Kemur þá nýtt frv. um að fara að bjóða 60%? Og spyrja menn sig þá engra spurninga um það hvers vegna menn taka ekki gylliboðunum? Af hverju hafa menn ekki selt fleiri báta á 50 millj, 35%? Getur það verið vegna þess að það sé þrátt fyrir allt nýtanlegir rekstrarmöguleikar í greininni sem útgerðarmennirnir hafa tekið fram yfir. Svarið er já. Ég þekki dæmi um loðnuskip sem voru úrelt út úr loðnuflotanum. Í staðinn fyrir að selja þau úreldingarsjóði hafa þau verið gerð út á rækju og útkoman er betri en ef þau hefðu verið látin fara á botninn eða dregin til Írlands í bræðslu. Og hvort er þá betra að hafa í fyrsta lagi borgað 50 millj. fyrir að eyðileggja skipin og í öðru lagi orðið af því að afkastamikið skip sækir rækju í heilt ár? Hvort kemur hér betur út fyrir þjóðarbúið? Rækjukvótinn er ekki fullnýttur. Hvaða hagsmunum væru menn að þjóna með því að eyðileggja ágætt skip, kannski 15 ára gamalt skip, 300 tonna skip sem getur aflað rækju fyrir 70--100 millj. á ári? Afsala sér þeim verðmætum, borga 50 millj. fyrir að eyðileggja þau. Hvaða tilgangi á það að þjóna? Nei, því hefur enginn velt fyrir sér, er það? Auðvitað veit ég að það er nánast guðlast að tala svona, hæstv. forseti, gagnvart hagfræðingunum sem eru búnir að trúa á þetta í 15 ár. Ég hef hugsað heilmikið um þetta mál og ég er auðvitað ekki hagfræðingur, það skal tekið skýrt fram. Ég er bara svona jarðfræðingsræfill og allt það. En ég bara kem engri skynsemi inn í þetta þegar ég er að reyna að setja dæmin út í sjávarútveginum og það sem ég þekki í þessum greinum og spyrja mig að því: Hvaða vanda hefði þetta leyst? Hvaða hagkvæmni hefði falist í því að úrelda t.d. báta sem ég veit að menn veltu fyrir sér að gera en hættu við og hafa rekið áfram með ágætum árangri? Ætli það hefði ekki komið eitthvað minna úr Smugunni en 10 þúsund tonn fyrir 1,5 milljarða ef menn hefðu úrelt umfram afkastagetu jafnóðum og hún hefur fallið til í flotanum? Ætli við værum að sækja kannski 2 milljarða á Reykjaneshrygginn í ár ef vel gengur, ef öll afkastageta hefði jafnóðum verið úrelt út úr flotanum? Ég er ekki viss

um það.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, hvað sem mönnum sýnist um það að taka sjálfan grundvöllinn á þessu upp til umræðu því að ég er ekki viss um að menn séu hérna á réttri braut og hef reyndar lengi haft miklar efasemdir um það. Svo spyr ég mig oft að því, hvernig á það að hjálpa íslenska sjávarútveginum sem skuldar að sögn fróðra um 110 milljarða kr. núna, að borga niður skuldirnar ef um eitthvert árabil verður borið í menn fé til að draga saman tekjurnar því að auðvitað verður tekjusamdráttur í einhverjum mæli afleiðingin af þessari þróun. Það er alveg vonlaust annað. Og eru ekki allir þessir útreikningar býsna hæpnir? Það er stundum borið á borð fyrir okkur að það sé svo hagkvæmt að færa til kvótann og láta þær útgerðir sem séu með minnstan kostnað taka aflann. Ég hef nýlega fengið ágæta greinargerð frá góðum vini mínum sem m.a. byggist á þessu. En þá spyr ég á móti: En eru þessar útgerðir aflögufærar? Vantar þær veiðiheimildir? Gætu þær veitt meira? Því að auðvitað verður það aldrei svo að allur flotinn sé hagkvæmastur. ( VE: Það hefur nú verið að gerast.) Já, já. Er það flutningur veiðiheimildanna yfir á frystitogarana sem hv. þm. er svona ánægður með? ( VE: Yfir á bátana.)
    Nei, auðvitað er það þannig að einhvern hluta flotans vantar verkefni og flotinn er misjafnlega saman settur gagnvart því að nýta sér nýja möguleika. Það er t.d. alveg ljóst að bátaflotanum eru þar sniðnar þrengri skorður. En gæti þá ekki þróunin líka orðið á þá leið að sá hluti flotans nýttist meir til hefðbundinna veiða en aðrir sem til þess hefðu möguleika færu í aðrar veiðar?
    Hæstv. forseti. Eitt í þessu frv. vil ég gera sérstaklega að umtalsefni en það er hið sérkennilega orðalag á þróunargjaldinu eða hvað það nú er kallað, þróunarsjóðsgjaldinu, því sem leggja á á úthlutað aflamark frá og með 1. sept. 1996. Hæstv. ríkisstjórn hefur dottið það snjallræði í hug að taka ákvarðanir í nokkrum mæli sem eiga að koma til framkvæmda þegar komið er nokkuð langt inn á næsta kjörtímabil og þá eiga menn að standa frammi fyrir því . . .  ( VE: Það er mikil fyrirhyggja.) Það er mikil fyrirhyggja, já. En er nú alveg víst að menn hafi fullt vald á þessu, hv. þm.? Það getur verið að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lufsist inn á þing við næstu kosningar, en það er ekki víst að allir aðrir geri það sem ætla sér að bera ábyrgð á þessu gjaldi. Ég spyr í fyrsta lagi: Er mikið að marka ákvarðanatöku af þessu tagi? Það er einhver beygur í hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmönnum að samþykkja þetta og láta það taka gildi strax þannig að það er valin sú kúnstuga leið að leggja þetta auðlindagjald, aflagjald eða hvað menn nú vilja kalla það, aflamarksgjald á á miðju næsta kjörtímabili.
    En annað vekur athygli í lagagreininni, í 6. gr. frv. sem fjallar um þetta, er orðalagið en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. sept. 1996 skal Fiskistofa innheimta gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af úthlutuðu aflamarki. Skal gjaldið nema a.m.k. 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest miðað við þá verðmætastuðla af einstökum tegundum sem sjútvrn. ákveður.``
    Nú er það þannig að þegar ég rekst á svona orðalag og það stendur einhvers staðar ,,a.m.k. 1.000 kr.``, þá hugsa ég yfirleitt og skil þetta þannig að gjaldið verður þá 1.000 kr. eða meira. Það er bara mín máltilfinning. Hún segir mér það. Og að þessu höfum við auðvitað spurt, hvað þýðir þetta? Fyrir hvað stendur þetta? Þá er farið í langar skógarferðir, aftur í greinargerðina, gott ef ekki út í yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar til að sanna að þetta þýði alls ekki það sem stendur í frumvarpstextanum heldur þýði þetta akkúrat 1.000 kr. ( VE: Þú verður að lesa frumvarpið. Þetta er nú bara á næstu síðu í frv.)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki samtal.)
    Já, þetta er á næstu síðu já, það er bara ekkert annað, þetta er á næstu síðu. En þá spyr ég hv. þm. hinn hláturmilda hv. þm., Vilhjálm Egilsson: Hvers vegna er þetta þá ekki orðað eins og menn hugsa það, ef einhver hugsun er þarna yfirleitt á bak við? Hvers vegna er þetta ,,a.m.k.``? Hvað er þar á ferðinni? Ef það vakir alls ekki fyrir mönnum að þetta gjald geti verið meira en þúsund kall, af hverju er það þá ekki bara þúsund kall? Sagt: Gjaldið skal vera 1.000 kr. á hverja þorskígildislest. Ég held því fram, hæstv. forseti, að hvað sem líður krossvitnunum á aðrar blaðsíður og aftur í greinargerð og yfir í yfirlýsingar ráðherra, þá sé þetta óeðlilegt orðalag og þarna eigi þá að standa það sem fyrir mönnum vakir ef það er þá rétt að þarna sé ekki fiskur undir steini.
    Ég hef auðvitað séð þessar útskýringar og sjútvrn. skrifaði ritgerð um þetta til að verja húsbónda sinn og höfund frv. eða ábyrgðarmann frv. að þetta væri allt í fínu lagi því að a.m.k. 1.000 kr. þýddi ekki meira en 1.000 kr. Þá hefði ég talið að einfaldast væri að breyta því og orða það þannig. En vandinn er bara sá, hæstv. forseti, að hér kemur það til sögunnar sem áður var nefnt að málið er allt saman á grundvelli hrossakaupa stjórnarflokkanna. Það er afleiðing af næturfundum og samkomulögum eins og þessi ríkisstjórn hefur löngum byggst á, tók nú lengi vel framan af ferli sínum enga ákvörðun öðruvísi en að næturlagi eins og kunnugt er og hélt endalausa næturfundi hér í ráðherrabústaðnum og tók yfirleitt aldrei ákvörðun fyrr en undir morgun, enda voru ákvarðanirnar í samræmi við það eins og ákaflega vansvefta menn hefðu yfirleitt að þeim komið. ( Sjútvrh.: Morgunstund gefur gull í mund.) Ja, það er nú ekki í þessu tilviki, hæstv. forsrh., hún gefur eitthvað annað í mund heldur en gull. ( VE: Hefur þú aldrei vakað fram á morgun?) Þær morgunstundir sem hæstv. ríkisstjórn notaði hér á árunum til að taka ýmsar skuggalegar ákvarðanir. En þetta mun hafa orðið til í einhverju samkomulagi hæstv. utanrrh. sem hefur af og til verkað eins og einhvers konar yfirfrakki á hæstv. sjútvrh. og sjútvrh. hér í vetur. Og þá kemur að því, hæstv. forseti, að mikið hefði það nú aukið gleði ræðumanns ef hæstv. utanrrh. hefði verið hér til staðar því að hæstv. utanrrh. hefur túlkað þetta orðalag með alveg sérstökum hætti. Ég tel ekki nokkra leið, hæstv. forseti, að ljúka þessari umræðu nema hæstv. utanrrh. eða einhver annar ábyrgur og fullmektugur talsmaður Alþfl. komi til umræðunnar og svari nokkrum spurningum varðandi þetta mál, það er ekki nokkur leið, vegna þess að það er auðvitað ekki hægt að líða stjórnarflokkunum það, ég a.m.k. fyrir mitt leyti ætla ekki að leggjast svo lágt að láta þetta mál synda hér í gegn án þess að reyna allt sem ég get til þess að negla upp og inn í þingtíðindin þann skilning á þessu máli sem fyrir stjórnarflokkunum vakir.
    Ég veit að hæstv. sjútvrh. kemur hér og segir: Þetta er bara þúsund kall, og ég veit að hæstv. sjútvrh. kemur hér og segir: Þetta er enginn auðlindaskattur og þetta er allt í lagi. En hvað segir hæstv. utanrrh.? Er hann tilbúinn til að koma hér og endurtaka það sem hann sagði við fjölmiðla einhvern tíma um mánaðamótin nóvember/desember þegar þessi óskapnaður var að fæðast í ríkisstjórnarsamstarfinu? Er hann tilbúinn til að koma þá á móti: Nei, þúsund kallinn getur hækkað. Er hann tilbúinn til að koma og segja í öðru lagi: Þetta er vísir að auðlindaskatti. Þetta er upphaf að endurgjaldi fyrir auðlindina. Það hefur hæstv. utanrrh. margendurtekið sagt og auðvitað verður þetta að liggja hér fyrir. Það þýðir ekkert að dulbúa svona hluti í eitthvert óljóst orðalag, setja a.m.k. inn í eina lagagrein og draga það svo til baka í þeirri næstu. Það er búvörulagaaðferðin. Það er sú aðferð sem við sáum hérna þegar stjórnarflokkarnir samþykktu loðmullulegt orðalag, svo skiluðu þeir sitt hvoru nefndarálitinu og túlkuðu það í 180 gráður. ( VE: Það er pottþétt.) Hv. þm. Egill Jónsson í norður og hv. þm. Gísli Einarsson í suður. Og ætla þeir að hafa þetta eins með 6. gr. um Þróunarsjóðinn að kratar fari í kosningabaráttu og segi: Sigur í höfn, við náðum auðlindaskattinum inn. Lesið þið 6. gr. Þar stendur: A.m.k. þúsund kall. En hv. þm. Þorsteinn Pálsson fer til Vestmannaeyja og segir: Drengir mínir, þetta er allt í lagi, þetta er bara þúsund kall,
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. ráðherra.)
. . .  hæstv. ráðherra, og þetta verður ekki hækkað og þetta er ekki vísir að auðlindaskatti. ( Viðskrh.: Er þetta ekki gott frv. ...) Þá skulum við bara fá þetta hér á hreint. Auðvitað gæti ég leyft mér að nota þá aðferð að segja sem svo að ef þessum túlkunum mínum á samkomulaginu sé ekki mótmælt af hálfu stjórnarliða, þá sé þetta svona. Alþfl. sé sem sagt að samþykkja auðlindaskatt og samþykkja þúsund kall sem megi hækka, sbr. orðalagið a.m.k., og ég veit að gamalreyndur kennari og skólameistari, hæstv. utanrrh., hlýtur að eiga erfitt með að skilja þetta orðalag öðruvísi en þannig að þúsund kallinn geti hækkað því að annað stæði ekki a.m.k., en sjútvrh. segir hið gagnstæða. Við skulum nota tímann hérna, hæstv. forseti, sem er drjúgur því að löng er nú vornóttin og fá þetta mál rækilega á hreint. Hvað er hérna verið að afgreiða? Þetta með orðalagið í 6. gr. og þúsund kallinn og þessa endileysu um úreldingu fiskvinnsluhúsanna sem enginn maður hefur fengið botn í, ekki nokkur maður. ( VE: Lesa 19. gr.) Ég er búinn að lesa þetta allt saman meira og minna og verður að segjast alveg eins og er að það er síst til aukins skilnings fallið á málinu. Eftir því sem maður les meira í því, verður jafnvel enn vitlausara ef eitthvað er.
    Ef það er eins og hv. þm. er að segja að það sé verið að vísa til þess orðalags í 19. gr. að sjútvrh. geti lagt fyrir Alþingi tillögur um breytingar á tekjustofnum sjóðsins, þá ætti nú í fyrsta lagi að vísa til þess að þar væri átt við upphæðina en ekki sjálfan tekjugrundvöllinn. Og í öðru lagi held ég að það verði að liggja alveg ljóst fyrir hvaða heimildir menn telja sig vera að lögfesta hér til handa ráðherrum. Auðvitað er það þannig að það er í raun ekki samrýmanlegt ákvæðum stjórnarskrárinnar að samþykkja svona heimildir, a.m.k. einhver gjaldstofn. Eða mælir hæstv. utanrrh. með því almennt að t.d. í tekjuskattinum næsta ár verði bara samþykkt: Hæstv. fjmrh. er heimilt að leggja á tekjuskatt a.m.k. 45% yfir tilteknum mörkum? Það yrðu sennilega ýmsir fjármálaráðherrar kátir með það. Svo mundu þeir tilkynna eftir áramótin að þetta yrði 62% eða eitthvað svoleiðis og kippa fjárlagahallanum burt á einu bretti. Nei, það hefði nú ekki þótt góð latína hingað til. Þetta er algerlega óbrúklegur frágangur á málinu hvernig sem á það er litið. Ef menn vilja endurskoða þetta, þá væri miklu nær að þarna væri annaðhvort sólarlagsákvæði á upphæðinni eða heimildinni. Ef þetta væri bara eins og venjuleg skattlagning að það væri föst upphæð og henni yrði þá að breyta með lögum á Alþingi í næstu umferð. Þess vegna bara rétt eins og tekjuskattsprósentan er stillt af með lögum frá Alþingi á hverju ári og dettur engum manni annað í hug vegna þess að stjórnarskráin mælir fyrir um það að slíkar gjaldtökur og álögur skulu vera skýrt afmarkaðar. En hvað á þá að þýða að vera að afgreiða hér a.m.k. þúsund kall á tonn út í loftið? Hvers konar lagasetning er það, hæstv. utanrrh.? Það gæti verið að það þjónaði einhverjum pólitískum vandræðagangi í ríkisstjórninni að ganga frá þessu, samanber búvörudeiluna. En það eru ekki merkileg vinnubrögð, ekki merkileg lagasetning.
    Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. út í enn eitt atriði sem meiri hluti hv. sjútvn. leggur til að sé breytt og það er orðalag 1. gr. Við 1. umr. málsins gagnrýndi ég það mjög að í raun og veru væri ekki verið að stofna neinn þróunar- eða nýsköpunarsjóð heldur samdráttarsjóð, sjóð til þess að draga saman í íslenskum sjávarútvegi, minnka tekjurnar og þrengja að greininni á allan máta, bæði í landvinnslu og veiðum. Samt er það nú svo að í 1. gr. og reyndar víðar í frv. er talað um að sjóðurinn geti stuðlað að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi í samvinnu við lánastofnanir, enda leiði slík endurskipulagning til verulegrar hagræðingar. Og síðan sagði: ,,Þá er sjóðnum heimilt að veita ábyrgðir, lán og styrki til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækjanna í verkefnum erlendis.``
    Þetta var eitt af því fáa jákvæða sem maður sá við frv. Þarna var þá örlítill vísir að því að einhverjum pínulitlum fjármunum yrði ráðstafað í annað en draga saman og það þá í þátttöku í verkefnum erlendis. En hvað gerist svo í breytingartillögum meiri hlutans? Það orð sem auðvitað mestu máli skiptir í þessu er fallið út, orðið ,,styrkir``. Meiri hlutinn leggur til á þskj. 1096 að síðasti málsliður greinarinnar orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Þá er sjóðnum heimilt að veita ábyrgðir og lán til nýsköpunar í sjávarútvegi og til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis``
    Hvað varð um styrkina, hæstv. ráðherra? Er það sem sagt talinn óþarfi eða eru menn beinlínis á móti því að það sé hægt ef aðstæður bjóða svo og þörf krefur að veita þarna bein framlög? Það er ekki hægt að túlka þessa brtt. öðruvísi en þannig að meiri hluti stjórnarinnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að falla frá þeim hugmyndum að um framlög geti verið að ræða í svona verkefni. Og það vekur nokkra undrun mína miðað við það sem á undan er gengið og öll ræðuhöldin um að þarna gætu legið einhverjir möguleikar að þetta sé af sjóðnum tekið. Það að sjóðurinn geti í einhverjum mæli lagt eitthvert dót upp í sem hluta af því kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir það að hægt sé að ráðstafa úr honum einhverjum fjármunum beinlínis til stuðnings, þátttöku í svona verkefnum í formi styrkja ef svo ber undir. Ég óska eftir því að þessi merka framþróun í málinu, ef menn telja það vera svo og ella væru þeir væntanlega ekki að flytja um það brtt., verði rökstudd hér.
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég á að hafa um þetta öllu fleiri orð. Þetta er að mínu mati afar vont mál og auðvitað væri öllum fyrir bestu og alveg sérstaklega hæstv. ríkisstjórn ef hún hefði vit á því að hætta við það að troða því hér í gegn. Það gæti að vísu farið svo að ríkisstjórnin mundi springa á því og þá væri málið orðið enn betra, þess þá meiri ástæða til að fresta því ef við losnum við ríkisstjórnina í leiðinni. Það er alla vega ekki verið að afgreiða þetta mál í þágu íslensks sjávarútvegs því það biður enginn um afgreiðslu á því. Af öllum umsagnaraðilum úr öllum greinum sjávarútvegsins, samtökum úr veiðum og vinnslu, frá sveitarfélögunum, verkalýðshreyfingunni, hvar sem að málinu er komið, enginn mælir með afgreiðslu á málinu óbreyttu, enginn. Langflestir leggjast eindregið gegn því að málið sem slíkt sé yfir höfuð tekið til afgreiðslu. Og finnst hæstv. sjútvrh. hann virkilega ekki hafa neitt annað þarfara að gera við tíma sinn en reyna að troða svona máli í gegnum Alþingi? Ég segi nú alveg eins og er að margt þarfara gæti hæstv. sjútvrh. gert okkur heldur en það að vera að nudda um þetta hér.
    Ég held að út af fyrir sig væri á hinn bóginn vilji til þess og það höfum við reyndar boðið upp á í stjórnarandstöðunni að setjast yfir öll þessi mál í sumar. Hæstv. sjútvrh. er sem betur fer að draga í land með það að leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Það er mál sem er náskylt þessu sem hér er til umfjöllunar, það er sveiflujöfnunar- og verðjöfnunarmálefni greinarinnar. Allir viðurkenna þörfina fyrir það að hafa slíka jöfnun í íslenskum sjávarútvegi sem býr við miklar afkomusveiflur, bæði vegna sveiflna í aflabrögðum en líka vegna verðlagssveiflna á afurðunum og þessi þróunar- og hagræðingarmál greinarinnar eru auðvitað náskyld því hvernig við göngum frá þeim hlutum.
    Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið að það eigi að búa til einn sjávarútvegssjóð sem hafi fjölþættu stuðningshlutverki að gegna við greinina. Hann geti að einhverju leyti verið sveiflujöfnunarsjóður. T.d. geti verið í honum sveiflujöfnunardeild og hann sé jafnframt einhvers konar nýsköpunar- og hagræðingarsjóður, eiginlegur þróunarsjóður, ekki bara svona blindur samdráttarsjóður og ef mönnum sýnist ástæða til að draga einhvers staðar úr afkastagetu í greininni eða auka hana annars staðar, þá gætu menn ráðstafað fjármunum því skyni. Það er dálítið merkilegt að það hefur engum dottið hið gagnstæða í hug. Af hverju ekki að bjóða einhverjum styrki til þess að auka við afkastagetuna á einhverjum tilteknum sviðum? Er sú hugsun bara alls ekki til í höfðinu á núverandi forustumönnum í sjávarútvegsmálum að það séu vaxtarmöguleikar í íslenskum sjávarútvegi sem sé ástæða til að hvetja menn til að nýta einhvers staðar? Látum það nú liggja á milli hluta að það geti verið þörf á því að draga einhvers staðar úr afkastagetunni, en vonandi er ekki svo komið að það geti ekki líka verið á hinn veginn að það sé þörf á því að sækja einhvers staðar fram.
    Ég gerði það við umtalsefni við 1. umr. málsins að ég teldi að það ætti a.m.k. að skipta þessu verkefni algerlega upp í tvennt þannig að ekki minni helmingur áherslunnar lægi á það að hvetja menn til einhverrar nýsköpunar og uppbyggingar í greininni. Og hvað með það að skipta framlögunum gagnvart fiskvinnslustöðvunum þá a.m.k. í tvennt þannig að annars vegar gætu menn sótt um fé til að úrelda hús og loka þau niður, en hins vegar ef þeir vildu það frekar, sótt um fé til að breyta þeim t.d. í fullvinnslueiningar, að vinna í neytendapakkningar eða annað því um líkt. Af hverju er sú hugsun ekki á ferðinni hjá mönnum? Og nú vill svo skemmtilega til að ein skemmtilegasta neytendapökkunarlína í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki er rekin í úreltu húsnæði. Það er svo skemmtilegt sem það er.
    Það er nefnilega þannig að sá sem hér stendur stóð í því að úrelda sláturhús á Dalvík. Þar hefur verið slátrað einhverju fé og það var nú orðið fátt um fé því miður í Svarfaðardal, búið að skera það allt saman niður vegna riðu o.s.frv. Síðan vildu bændur að vísu gjarnan halda áfram að slátra þarna kálfum, en niðurstaðan varð sú að sláturhúsið var úrelt og það voru greiddir inn á það tilteknir peningar og það var þinglýst á húsnæðið kvöðum að þar yrði ekki slátrað fé né kálfum á næstu árum. En hvað gerðist svo? Svo var húsið tekið í gegn, lagfært og í því var sett upp við hliðina á frystihúsinu fullvinnslulína og þar eru núna aukin verðmæti stórkostlega á sjávarfangi og það var unnið meira en áður var, skapaðir tugir starfa o.s.frv. Af hverjum má ekki hafa þessa hugsun með í farteskinu, að það sé hægt að sækja gegn þessum erfiðleikum í báðar áttir, líka með því að byggja upp og þróa einhverja nýja hluti? Mér finnst þetta satt best að segja, hæstv. forseti, alveg ömurlegt frv. Þetta er eitthvert allra aumingjalegasta, kjarkminnsta og ræfilslegasta frv. sem ég hef lengi séð hér á Alþingi. Og það að það skuli vera í sjálfri undirstöðuatvinnugrein okkar, sjávarútveginum, er náttúrlega enn dapurlegra og menn skulu ekkert hafa þarfara að gera við tímann hér á síðustu sólarhringum þinghaldsins en að troða svonalögðuðu í gegn, það finnst mér líka mjög miður, hæstv. forseti. Ég skora því á hæstv. sjútvrh. að skoða það nú í mikilli alvöru, hvort það er nú ekki hyggilegra að velja þá leið sem við stjórnarandstæðingar höfum lagt til að þessu máli ásamt með frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verði vísað til vinnu í sérstakri nefnd í sumar sem ég tel að ætti auðvitað að vera skipuð fulltrúum allra þingflokka og stefnt að því að leggja fyrir þingið næsta haust eitt heildstætt frv. um þessi sveiflujöfnunar-, verðjöfnunar-, þróunar- og hagræðingarmál greinarinnar og reyna að ná um það einhverju sæmilegu samkomulagi innbyrðis og út á við hvernig það verði úr garði gert.