Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 21:56:02 (7892)


[21:56]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það verður nú að segjast eins og er að það er búið að fara allítarlega yfir þetta mál og þess vegna get ég kannski talað nokkru styttra en ég hefði annars gert. Þeir hafa farið mjög ítarlega og efnislega yfir þetta mál, fulltrúar í minni hluta sjútvn, hv. þm. Jóhann Ársælsson, Halldór Ásgrímsson og Steingrímur J. Sigfússon. En þó vil ég aðeins grípa hér niður á nokkrum atriðum sem mér finnst skipta máli og ég mundi nú aðeins vilja byrja á því í máli mínu að lýsa hér stuttlega nokkrum umsögnu um þetta mál því það vekur athygli mína og annarra sem um þetta mál hafa fjallað hvernig á því skuli raunverulega standa að menn séu að afgreiða þetta stóra og mikla mál hér á Alþingi þar sem hver einasti aðili, nánast hver einasti aðili sem komið hefur til nefndarinnar eða sem sent hefur inn umsögn um málið leggst gegn afgreiðslu þessa máls. Allir í atvinnugreininni sem við höfum rætt við, sveitarstjórnarmenn og aðrir biðjast undan því að þurfa að taka við þessu úr höndum núv. ríkisstjórnar.
    Ég velti því mjög fyrir mér, hvar eru þessir hv. þingmenn? Eru þeir gersamlega rótslitnir við það fólk sem kýs þá hingað á Alþingi? Ræðist þetta fólk ekki við? Hvernig má þetta raunverulega gerast?
    Mig langar aðeins að lesa hér fyrst umsögn frá útvegsmönnum og það er hvorki meira né minna en frá Útvegsmannafélagi Akraness, Austfjarða, Hafnarfjarðar, Hornafjarðar, Norðurlands, Reykjavíkur, Snæfellsness, Suðurnesja, Vestfjarða, Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þessir aðilar senda hér allir eitt sameiginlegt álit og það er fróðlegt að lesa það þannig að það verði hér fært til bókar hvaða álit þessir aðilar hafa á afgreiðslu þessa máls. ( Gripið fram í: Og ráðherrana?) Já, ég tala nú ekki um það. En þar stendur:
    ,,Útvegsmannafélagið mótmælir harðlega áformum um sértækar aðgerðir sem miða að því að stofna enn einn sjóðinn. Hlutverk þessa svokallaða Þróunarsjóðs er að innheimta sérstakt veiðileyfagjald af sjávarútveginum. Þetta gjald á að leggja á eins og aðstöðugjald, hvort heldur er um hagnað eða taprekstur að ræða. Slík mismunun milli sjávarútvegs og annrra atvinnugreina er óþolandi`` og ég endurtek, ,,slík mismunun milli sjávarútvegs og annarra atvinnugreina er óþolandi.
    Þá er einnig mótmælt að sjávarútveginum skuli ætlað að greiða með sérstökum skattstofni töpuð útlán og skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Tilurð þessara sjóða varð til þess eins að þrengja samkeppnisstöðu innan greinarinnar og mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það stríðir á móti öllu siðferði að ætla þeim aðilum í sjávarútvegi sem þáðu ekki fyrirgreiðslu úr umræddum sjóðum að greiða og ábyrgjast nú skuldir þessa sjóðs með sérstökum skatti.``
    Hér er alveg skýrt talað frá útvegsmönnum, fulltrúum útvegsmannafélaga jafnvíða á landinu og ég las hér áðan. Og fiskvinnslustöðvarnar. Hvað skyldu samtök fiskvinnslustöðvanna segja? Þau segja það ekki í mjög löngu máli en tala mjög skýrt. Þau segja:
    ,,Yfirtaka á skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og Hlutafjársjóðs langt umfram eignir kemur ekki til greina að okkar áliti.``
    Þetta segja samtök fiskvinnslustöðvanna. Og hvað skyld Landssamband ísl. útvegsmanna hafa að segja um þetta mál? Með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ítrekuð er áður kynnt andstaða samtakanna við stofnun Þróunarsjóðs sem mun hafa það hlutverk með höndum að innheimta sérstakt gjald af útgerðum og skylda þannig alla útvegsmenn til þess að greiða töpuð útlán Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Það er óþolandi að útgerðir sem þáðu enga fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum skuli með lögum verða þvingaðar til þess að standa skil á þessum útlánum sem stjórnvöld á sínum tíma ákváðu að veita einstaka fyrirtækjum einhliða.`` Og síðan segir:
    ,,Lög um væntanlegan Þróunarsjóð verða ekki skilin öðruvísi en svo að það skipti í raun ekki máli hvernig einstaka aðilar standa sig í greininni. Með stofnun Þróunarsjóðs er verið að refsa þeim aðilum sem staðið hafa skynsamlega að útgerðarrekstri á undanförnum árum og ekki hafa þegið styrki stjórnvalda í gegnum áður nefnda sjóði.``
    Þetta er umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna. ( VE: Er talað illa um Atvinnutryggingarsjóð?) Ég er að tala það mál sem ég vona að framkvæmdastjóri Verslunarráðs skilji.
    Það er líka fróðlegt aðeins að líta á það hvað fleiri aðilar hafa um þetta mál að segja. Ég er með álit fiskiþings. Það skýrir sína afstöðu í mjög stuttu máli, en það er nauðsynlegt að afstaða fiskiþings komi hér einnig fram. Fiskiþing segir:

    ,,Fiskiþing mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um stofnun sérstaks Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.``
    Svo mörg eru þau orð. Ég ætla að láta þessar tilvitnanir duga og þær eiga að skýra það sem ég sagði hér í upphafi að mér er það lífsins ómögulegt að skilja hvernig þingmenn Sjálfstfl. og hver það er sem knýr þá til þess að ganga svo fram í þessu máli. ( GÁ: Fjórtán fjölskyldur.) Já.
    Það er einnig, virðulegur forseti, fróðlegt að kynnast sjónarmiðum þeirra aðila sem látið hafa sig þessi mál miklu varða og raunverulega lifa og starfa í þessari atvinnugrein og hafa haft afskipti af þessum málum og stjórnun fiskveiða nokkuð og hafa skrifað nefndinni og mætt til fundar við sjávarútvegsnefnd og kallað sig svokallaða atvinnumenn og við þekkjum. Þetta er sveit manna sem hefur bundist samtökum um það að reyna að koma í veg fyrir að ríkisstjórninni takist að stíga það ógæfuskref sem nú er verið að stíga með nýjum lögum um stjórnun fiskveiða og um þennan þróunarsjóð. En þeir segja svo, virðulegur forseti, í sambandi við Þróunarsjóðinn:
    ,,Tillögurnar um Þróunarsjóð eða auðlindaskatt bera þess merki að ráðamenn eru svartsýnir á afkomu sjávarútvegsins. Þeir virðast ekki treysta til þess að hafa af honum eðilegar tekjur nema með sérsköttum sem auðvitað veikir afkomuna enn frekar. Þannig er Þróunarsjóður öfugmæli. Tilkoma hans hamlar gegn eðlilegri þróun í sjávarútvegi.`` Þannig er Þróunarsjóður öfugmæli. Tilkoma hans, hæstv. sjútvrh., hamlar gegn nauðsynlegri þróun í sjávarútvegi.
    Og þeir segja svo: ,,Íslenskur sjávarútvegur er í beinni samkeppni við ríkisstyrktan, erlendan sjávarútveg. Samkeppnisstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er erfið í dag en versnar auðvitað stórkostlega ef skattlagningin eykst til viðbótar við margþætta skerðingu á hagræðingarmöguleikum. Hugmyndin um Þróunarsjóð eru í raun tilögur um landsbyggðarskatt sem um leið er aðför að landsbyggðarstefnu í landinu. Langstærsti hluti sjávarútvegsins er rekinn á landsbyggðinni og tillögurnar rýra því sérstaklega kjör einstaklinga og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Sjávarútvegurinn á að greiða skatta í takt við afkomu sína eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu.``
    Ég vil lesa þetta aftur og leggja áherslu á það að hér er skynsamlega talað þar sem sagt er að sjávarútvegurinn á að greiða skatta í takt við afkomu sína eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu.
    ,,Hvatning og svigrúm til hagræðingar og útsjónarsemi, sjálfsögð tengsl við atvinnuuppbyggingu á hverjum stað o.s.frv. er forsenda þess að sjávarútvegurinn blómstri og geti skilað þjóðarbúinu eðlilegum skatti af tekjum sínum.
    Tekjuskattur af verðmætum sem búið er að skapa er heilbrigð og sjálfsögð leið til skattheimtu. Skatthlutfallinu stýra stjórnvöld þannig að sjávarútvegurinn skili eðlilegum verðmætum og þóknun fyrir afnot sín af sameiginlegri auðlind allra landsmanna. Auðlindaskattur á útgerð léttir af henni siðfræðiskyldum til að skapa vinnu í landi og þvingar hana til þess að leita allra leiða til þess að auka eigin verðmæti til þess að standa undir skattinum. Krafan um hámörkun eigin tekna kallar á aukna sjófrystingu og útflutning óunnins afla. Um leið minnkar atvinnan í landi og verðmæti sjávarútvegsins til þjóðarbúsins skerðist verulega.``
    Hér er skýrt talað. Og ég beini orðum mínum enn og aftur til sjálfstæðismanna í þessu máli vegna þess að ég veit að við Alþfl. þýðir ekki að tala, slíkri blindu er hann sleginn í þessu máli. Og ég trúi ekki að sjálfstæðismenn láti þessi lög fara í gegnum Alþingi. ( GÁ: Þeim er bannað að vera hér í kvöld, sjálfstæðismönnum.) Ég sé það, virðulegur þingmaður, að þeim mun vera bannað að vera hér í kvöld. En hvernig stendur á því að við sjáum ekki hér á borðum okkar þingmanna svipaðar tillögur í annarri atvinnustarfsemi? Er það ekki rétt að um 200 þúsund fermetrar munu vera ónýttir í atvinnuhúsnæði á Reykjavíkursvæðinu? Hvað mundu þeir segja ef Sjálfstfl. og Alþfl. kæmu með svipaða tillögu sem lyti að þeim aðilum? Það væri fróðlegt að heyra í þeim sjálfstæðismönnum á eftir hvort það hefði verið reifað á þingflokksfundi Sjálfstfl. að bera fram slíkar tillögur. Það væri gaman að heyra í framkvæmdarstjóra Verslunarráðs (Gripið fram í.) um það hvort þetta hefði hugsanlega verið rætt á fundum Verslunarráðs í morgunkaffi á Hótel Sögu einhvern morguninn. Ég efast um það satt að segja.
    Virðulegi forseti. Oft hefur hæstv. sjútvrh. mælst vel og því langar mig til þess að lesa örstuttan kafla úr ræðu sem hæstv. sjútvrh. flutti um skattheimtuna á sjávarútveginn. Þetta er sú ræðan sem ég hef verið hvað hrifnastur af hæstv. sjútvrh. fyrir að flytja en því miður vegna þess hve liðið er á kvöld get ég ekki lesið ræðuna alla sem vissulega væri þarft verk að gera, ekki bara til upprifjunar fyrir hæstv. ráðherra heldur og ekki síður fyrir þá sem ætla að ganga til atkvæða um þetta mál. En hæstv. ráðherra sagði m.a. þegar hann var að tala um skattheimtuna á sjávarútveginn og hann var að tala til þeirra manna sem sífellt eru að gera kröfu á sjávarútveginn:
    ,,Að baki búa að mestu leyti óljós tilfinningasjónarmið og þekkingarskortur. Skattheimtumennina greinir á um margt. Annars vegar hafa þeir mjög ólíkar hugmyndir um það hvers vegna eigi að leggja slíka skatta á. Hins vegar tala þeir út og suður um það hvernig leggja eigi skattinn á. Sumir skattheimtumannanna vilja leggja á sérstakt gjald á aflaheimildir, þannig eigi menn að borga ákveðna krónutölu fyrir hvert tonn sem þeir hafa rétt á að veiða, aðrir vilja bjóða veiðiheimildirnar til sölu til lengri eða skemmri tíma á uppboði.
    Á þessum tveimur aðferðum er grundvallarmunur. Sú fyrri, bein skattheimtuleið, byggir á óbreyttu stjórnkerfi eða aflamarki en felur í sér þá einu breytingu að fyrir aflamarkið skuli koma sérstakt gjald sem renni í ríkissjóð. Hin aðferðin byggir á stjórn á úthlutun veiðileyfanna með gjaldtöku sem síðan yrði tekjulind fyrir ríkissjóð. Skattheimtumenn skiptast í fylkingar um það hvora leiðina þeir vilja fara.``
    Og enn segir ráðherra: ,,Í annan stað ræða menn um skattheimtu til þess að auka hagræði í sjávarútveginum. Ég hef hins vegar aldrei heyrt því haldið fram að aukin skattheimta sé talin líkleg til þess að auka hagræði á öðrum sviðum í atvinnulífinu. Ég hefði til að mynda gaman af að heyra eigendur Morgunblaðsins skýra það út fyrir mér að hagræði og hagnaður af rekstri blaðsins yrði miklum mun meiri ef ríkisvaldið legði nýjan skatt á pappírsnotkun blaðsins. Þá eru þeir sem telja að almenningur njóti ekki afraksturs af sjávarútveginum nema hann sé tekinn með sköttum. Rétt er að hafa í huga að almenningur hefur alltaf átt þessa auðlind, bæði meðan aðgangurinn var ótakmarkaður og eins eftir að hann var takmarkaður. Þar á hafa ekki orðið neinar breytingar. Sú staðreynd að takmarka hefur þurft veiðarnar kallar ekki á að ríkissjóður útdeili hagnaði sjávarútvegsins með miðstýrðum hætti, takmörkun veiðanna er fremur rökstuðningur fyrir því að minni kröfur verði gerðar til skattlagningar á sjávarútveg.
    Þá verður ekki séð að eitt eigi að gilda um sjávarútveginn í þessu efni en annað um aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna ætti að útdeila arði af sjávarútveginum með sósíalískum aðferðum í gegnum ríkissjóð en ekki af öðrum atvinnugreinum? Þessu geta skattheimtumenn hvergi svarað.`` --- Segir hæstv. sjútvrh.
    Og enn heldur ráðherra áfram: ,,Kjarni málsins er hins vegar sá að ríkissjóður tekur til sín með almennum skattareglum, sem gilda jafnt um allar atvinnugreinar, eðlilegan hlut af hagnaðinum í samræmi við það sem menn telja eðlileg ríkisumsvif á hverjum tíma. Að hinu leytinu deilist hagnaðurinn út á sjávarútveginn eins og aðrar atvinnugreinar eftir lögmálum markaðarins, m.a. af frjálsum kjarasamningum launafólks og atvinnurekenda.``
    Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga úr lestri úr ræðu hæstv. núv. sjútvrh. en lokaorð hans voru þessi:
    ,,Þegar á allt þetta er litið er ljóst að skattheimtukröfurnar eru hagfræðilega rangar og félagslega hættulegar fyrir íslenskt þjóðfélag. Það væru sterkari rök fyrir því að skattleggja neysluhliðina í þjóðfélaginu.``
    Ég er hæstv. sjútvrh. sammála í þessari ræðu og var út af fyrir sig mjög hrifinn þegar hann flutti þessi orð. Og þessi orð eru vissulega enn í fullu gildi og þess vegna fannst mér ástæða til að eyða hér stund í að rifja þau upp. En þá vaknar líka spurningin: Hvað veldur þessum sinnaskiptum hjá hæstv. ráðherra? Hvað er það sem rekur hæstv. sjútvrh. Þorstein Pálsson, sem talaði svo fallega á fundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, til að grípa til slíkra óyndisúrræða og gert er með þessum auðlindaskatti sem nú á að leggja á sjávarútveginn? Hvað knýr hæstv. sjútvrh. til slíkra gerræðisvinnubragða?
    Málið er nefnilega það að sjávarútvegurinn hefur vissulega átt í vök að verjast fyrir áróðursmeisturunum um nokkra stund. Ég vona satt að segja að því fari að linna en þó efast ég um það því mér finnst það svo makalaust hversu menn leggja eyrun við orð og greinaskrif ákveðinna manna. Vegna þess að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. er nú hér þá langar mig aðeins til þess að rifja upp fyrir hann orð sem mætur maður lét frá sér fara norður á Akureyri fyrir um fimm árum síðan. Ég hef trú á því að hæstv. utanrrh. lesi mjög grannt það sem þessi maður skrifar og segir. En þessi ágæti maður er doktor og heitir Þorvaldur Gylfason. ( Gripið fram í: Og doktor í hverju?) Hann sagði í þessari ræðu sinni og nú skal ég bara hafa örfá orð: ,,Sjávarútvegurinn skiptir okkur nú sífellt minna máli.`` --- Þetta sagði prófessorinn fyrir um fimm árum síðan. Þetta var lífssýn þessa manns. Hver er svo staðan að fimm árum liðnum ef við skoðum þessi orð?
    Þrátt fyrir það hve rekstrarskilyrðin hafa verið bágborin í þessari atvinnugrein dregur sjávarútvegurinn samt hvorki meira né minna en um 75% á veisluborð þjóðarinnar enn þann dag í dag og það er ekkert sem bendir til að þar muni verða minnkun. Ég held að menn hafi oftrú á þessum mönnum og það kann ekki góðri lukku að stýra að hlusta of grannt á svona rugl.
    Ég skil það, eins og kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, að hann hefur ekki sérstaka trú á þessum sjóðum þó að hann sé talsmaður þeirra nú. Ég hef hins vegar áhyggjur af því hvað er að gerast með því að yfirtaka þessa sjóði vegna þess að með yfirtöku eigna og skulda annarra sjóða er sjávarútvegsfyrirtækjunum gert að taka á sig stórkostlegar byrðar sem þau hafa ekki stofnað til heldur allt önnur fyrirtæki. Það er kjarni málsins og það sem er ósanngjarnt í þessu. Mér er spurn: Standast svona áform? Hafa menn leitt hugann að því? Ég segi fyrir mig að ég dreg það í efa að hægt sé að knýja þessi fyrirtæki mörg hver til slíkra hluta.
    Staðreyndin er nefnilega að á öðru ári mun þessi Þróunarsjóður verða orðin gjaldþrota eða því sem næst eða um 200--300 millj. kr. í mínus og um aldamótin eða eftir rétt um sex ár mun vanta um 2,5 milljarða í þennan sjóð. Auðlindaskatturinn sem er verið að leggja á sjávarútveginn er því ekki einhverjar 525 millj. kr. Hér er verið að tala um marga milljarða króna sem er verið að leggja á sjávarútveginn. Hér er svo freklega gengið fram og á fyrirtækin í sjávarútveginum að það er með hreinum ólíkindum að menn skuli á vordögum ætla að ganga svo fram eins og stefnt er að.
    Hv. þm. Ólafur Þórðarson fór svo rækilega yfir hlutafjárdeildina og atvinnutryggingardeildina að ég ætla að mestu að sleppa því. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það er hreint með ólíkindum að ætlast til þess að hæstv. sjútvrh. skipi nánast alla stjórn þessa sjóðs. Ég tel að það sé mikið óráð að slíta stjórnun þessa sjóðs frá Byggðastofnun vegna þess að hér er svo sannarlega verið að takast á um byggðamál. Ég held að það sé mikil ógæfa að taka þennan sjóð frá Byggðastofnun. En það er sjálfsagt eins og með málið allt, bæði Þróunarsjóðinn og stjórn fiskveiða, að við stjórnarandstaðan getum sáralitlum vörnum komið við.
    Hv. þm. Gísli Einarsson sagði í umræðunni um stjórn fiskveiða að í þessum málum hefði náðst viss málamiðlun milli Alþfl. og Sjálfstfl. Málamiðlunin er auðvitað ekkert annað en kaupskapur. Sjálfstæðismenn börðust fyrir stjórnun fiskveiða og Alþfl. setti það sem skilyrði að auðlindaskatturinn yrði lagður á. Þannig er málið hreint og klárt. Sjálfstfl. vildi reyna að koma málinu um stjórnun fiskveiða sem minnst breyttu í gegnum þingið. Alþfl. kom fingri þar á, stórskemmdi málið og nokkrir misvitrir þingmenn Sjálfstfl. og síðan gerði Alþfl. kröfu um það að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn. ( Gripið fram í: Ræður hann öllu?) Hann ræður of miklu miðað við það hversu lítill hann er. En ég hef trú á því að ef svo heldur fram þá muni Alþfl. minnka mikið enn. Ég held að það sé engin spurning.
    En út á hvað gekk þessi verslun sem hv. þm. Vestlendinga, Gísli Einarsson, gat hér um? Hún var um það að tryggja fylgi og stuðning við þessi mál. Og hvað fengu menn fyrir? Það var engin málamiðlun, það var verslun, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og framkvæmdastjóri Verslunarráðs. Þar voru menn að versla. ( VE: Þetta er gott mál.) Gott mál sjálfsagt, en um hvað gengu skiptin? 7.000 tonn af rækju. Útfærslur á friðuðum hólfum úti fyrir kjördæmum viðkomandi manna. Um það að ýta togurunum eitthvað lengra út á haf. Og hvað fleira og hvað fleira? Eftir að þetta fékkst fram með einhverjum veikum yfirlýsingum um það að ráðherra mundi breyta reglugerðum og gera þetta þá ákváðu þingmenn, nógu margir af liðsmönnum Sjálfstfl. og Alþfl., að styðja þessi mál. ( VE: Ertu á móti rækjuveiðum?) Þetta er kjarni málsins. Ég er á móti svona viðskiptaleiðum, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og framkvæmdastjóri Verslunarráðs. Ég hélt að hv. þm. ætti að vita að í hans kjördæmi væri þetta trúlega kallað hrossakaup.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sem væri skynsamlegast að gera í þessu máli væri að fresta afgreiðslu þess. ( Gripið fram í: Nei.) Að setja vinnu í gang með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og kanna möguleika á því að koma upp sveiflujöfnunarsjóði innan greinarinnar er tæki á ýmsum þáttum sjávarútvegsins. Ég held að það væri miklu þarfari og skynsamlegri hlutur en að koma upp þessum Þróunarsjóði sem enginn í atvinnugreininni vill og er bæði ranglátur og mismunar þeim er innan greinarinnar starfa. Einnig mismunar hann sjávarútveginum gagnvart öðrum atvinnugreinum.
    Ég held að það væri skynsamlegt að koma upp sveiflujöfnunarsjóði og ég held ég hafi heyrt rétt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék einnig að því máli því sveiflujöfnunarsjóður hefur marga kosti til að viðhalda festu í þjóðarbúskapnum og meiri sátt á milli atvinnugreinanna. Það er að því sem okkur ber að vinna og ég held þess vegna að sumrinu hefði verið vel varið til þess að reyna að finna þá leið. Hér er ekkert um annað að ræða en það að ríkisstjórnin er að koma upp kerfi sem á venjulegu máli er ekkert annað hægt að kalla en auðlindaskatt á sjávarútveginn. Gjaldtökumenn fjmrh. munu bíða á bryggjunni í hvert skipti sem sjómenn koma að landi til þess að draga björg í bú og rukka menn um gjaldið fyrir það að fá að fara á sjó. ( VE: Þú verður nú að lesa frv.) Ég er margsinnis búinn að lesa frv., Vilhjálmur Egilsson, en miðað við frammígrip þingmannsins í kvöld er ég farinn að efast um það að höfundurinn sjálfur hafi lesið hugverk sitt.
    Mér er spurn og væri fróðlegt að fá að vita: Með hvaða peningum á þessi atvinnugrein að borga auðlindaskattinn? ( VE: Hvaða auðlindaskatt?) Auðlindaskattinn sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson m.a. er að leggja á sjávarútveginn. Með hvaða peningum á greinin að borga sem undanfarin ár hefur verið rekin með milljarða halla? Mér er óskiljanlegt með hvaða peningum hún á að borga auðlindaskatt í dag.
    Hv. þm. var áðan að grípa fram í hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um þennan sama skatt og það virðist erfitt að koma inn í höfuðið á framkvæmdastjóra Verslunarráðs hvað stendur í hans eigin hugverki. Það er verið að skattleggja sjávarútveginn. Það er með ólíkindum ef hv. þm. skilur ekki að hér er verið að setja upp nýjan skattstofn á sjávarútveginn. ( VE: Ekki auðlindaskatt.) Hreinan auðlindaskatt. Það er verið að taka gjald af þeim mönnum sem róa til fiskjar og gjaldheimtumenn Friðriks Sophussonar munu bíða á bryggjusporðinum og rukka menn þegar þeir koma að landi. Það er nefnilega staðreyndin að áróðursmeistararnir á ritstjórn Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins að ógleymdum Jónasi Kristjánssyni, ritstjóra Dagblaðsins, hafa, verði frv. um auðlindaskatt samþykkt, fengið dágóða uppskeru erfiðis síns. Það eru þeir sem munu hrósa sigri í þessum málum. En sjávarútvegurinn, sjálf undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, er í verri stöðu en áður og var hún þó nógu slæm fyrir.
    Alþfl. hefur komið hér fram mjög vondu máli. En hann og þingmenn flokksins hafa ekki gert neitt annað en af þeim mátti raunverulega búast. Við máttum alltaf búast við þessu af Alþfl. Sjómenn munu örugglega ekki gleyma þessum þætti Alþfl. í sjávarútvegsmálum. Útvegsmenn og sjómenn og reyndar allur sá fjöldi sem lýst hefur andstöðu við auðlindaskattinn spyr um afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Útvegsmenn og sjómenn spyrja um afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Sjálfstfl. sem eitt sinn var sá flokkur sem þessi atvinnugrein taldi sig hafa hvað flesta stuðningsmenn í. Þá var sú tíð. Nú hefur Sjálfstfl. gleymt uppruna sínum og því að hann var ekki bara talsmaður stórútgerðarmanna á Íslandi. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það á atkvæðatöflunum að þingmenn Sjálfstfl. ætli að knýja þetta mál fram í svo mikilli andstöðu við þá er við eiga að búa innan atvinnugreinarinnar sjálfrar. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það á ljósatöflunum að sjálfstæðismenn ætli að tryggja það að þetta mál nái fram í fullri andstöðu við sjómenn og útvegsmenn á Íslandi og í fullri andstöðu við sveitarstjórnarfólk á Íslandi. Ég vil ekki trúa því aðeins til þess eins að þjónka Alþfl. og tryggja aðeins lengri lífdaga vondrar ríkisstjórnar.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði að beina orðum mínum til virðulegs forseta vegna þess að hann er sjálfsagt farinn að huga að því að ég ljúki máli mínu. En ég hefði viljað segja nokkur orð um rekstrargrundvöll greinarinnar sem er náttúrlega það mál sem ætti að vera til umræðu frekar en aukin skattlagning. Það er

fróðlegt að minna á að hvað er að gerast þessa dagana þar sem sjóðirnir, bankarnir og þjónustufyrirtækin eru að eignast sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi í dag, sem síðan taka þessi fyrirtæki á arma sína og reka þau í fullri og harðri samkeppni við þau fyrirtæki sem alla tíð hafa staðið við það að greiða af lánum sínum og greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Þetta þýðir einfaldlega það að ef svo heldur fram sem horfir verða þessi fyrirtæki næst kölluð af ríkisstjórninni niður á gjaldþrotabrautina og þannig mun hringrásin halda áfram, þetta eilífðarhjól sem þessi ríkisstjórn hefur fundið upp á gjaldþrotabrautinni.
    Þessi sjóður sem hér á að fara að samþykkja er enn eitt ógæfuspor þessarar ríkisstjórnar. Ég veit að það er vonlaust verk að tala til þingmanna Alþfl. í þessu máli en ég trúi ekki öðru en einhverjir þingmenn Sjálfstfl. hugleiði að snúast gegn þessu frv. og greiða atkvæði gegn því. Ég geri mér grein fyrir því að þeir munu ekki þakka það í þingflokksherbergi Sjálfstfl. en þeir útvegsmenn, sjómenn, sveitarstjórnarmenn og allir þeir sem um þetta mál fjalla munu þakka þeim þann stuðning.