Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 22:38:18 (7895)


[22:38]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Það fór eins og mig því miður grunaði að hæstv. sjútvrh. heldur uppteknum hætti. Hæstv. ráðherra er næsta sjaldgæft eintak sinnar tegundar eins og segja mætti á líffræðilegu máli. Hann virðist ekki upplifa embættisskyldur sínar og ábyrgð sína á málaflokknum, a.m.k. ekki gagnvart Alþingi, með sama hætti og aðrir hæstv. ráðherrar. Ég minnist þess ekki í þau 11 ár sem ég hef starfað hér, ýmist sem stjórnarsinni eða stjórnarandstæðingur og að hluta sem ráðherra, að annar maður í embætti af þessu tagi hafi hegðað sér með þessum hætti gegnumgangandi gagnvart þinginu, umræðum um þau mál sem undir hann heyra og spurningum sem fyrir hann eru bornar, að gera nánast í því að sýna umræðunni lítilsvirðingu og svara ekki þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Ég kann þessu, hæstv. forseti, satt best að segja afar illa. Ég hef að vísu áður reynt að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. um mál af þessu tagi og líka um hans framgöngu að þessu leyti með litlum árangri satt best að segja. En það breytir engu um það að ég mun halda því áfram því að hæstv. sjútvrh., gagnmerkur samtíðarmaður sem hæstv. ráðherra má vera, fær mig ekki til að hverfa frá þeirri venju að orðaskipti í þinginu og málfrelsi þingmanna sé m.a. til þess fallið að þeir geti veitt ráðherrum og ríkisstjórn aðhald og spurst fyrir um þau mál sem undir þá heyra. Það er að vísu svo að í sérstökum fyrirspurnatímum og með öðrum hætti er gengið frá því í þingsköpunum, en það liggur í hlutarins eðli, enda fyrir því rík hefð á Alþingi, að við umræður um dagskrármál ber ráðherrum að vera við og þá ber þeim að svara því sem til þeirra er beint enda þjónaði viðvera hæstv. ráðherra ekki miklum tilgangi ef það væri ekki m.a. vegna þess að það er ætlast til þess að þeir fylgist með umræðunni, taki niður hjá sér þær spurningar sem fyrir þá eru bornar og svari þeim.
    Nú er það svo, hæsv. forseti, að þolinmæði mín gagnvart núv. hæstv. sjútvrh. hefur verið talsvert mikil. En ég er satt best að segja að verða harla leiður á því hvernig hæstv. ráðherra hegðar sér hér. Ég hef verið að puða í því síðustu vikurnar sem starfandi formaður sjútvn. að afgreiða mál fyrir hæstv. ráðherra í stórum stíl, sum hver mál sem ég er algerlega á móti en ég hef litið á það sem þinglega skyldu mína að vinna að þeim málum úr því að ég var settur í þau verk og það hafa aðrir nefndarmenn í sjútvn. gert. Telur hæstv. sjútvrh. sig þá of góðan til þess að a.m.k. að hanga inni í þingsalnum, hæstv. forseti, á meðan við erum að ræða hans mál? Finnst hæstv. forseta þessi frammistaða hæstv. sjútvrh. sómasamleg? Hæstv. forseti heyrði eins og aðrir að ég bar fram beinar tölusettar spurningar til hæstv. sjútvrh. Ég óskaði eftir því að hann svaraði þeim. Hæstv. sjútvrh. hangir í hliðarsal á kjaftatörn við einhvern, sem ég sé nú ekki hver er og má einu gilda, og tekur skyldur sínar í þessum efnum á engan hátt nærri sér.

    Ég spurði hæstv. sjútvrh. í fyrsta lagi að því hvernig hugsuð væri framkvæmdin á úreldingu fiskvinnslustöðva. Það mætti út af fyrir sig gefa sér það að þögn hæstv. sjútvrh. þýddi að hann hefði ekki hugmynd um það og það er mér reyndar nær að halda. En einhver hefði nú reynt að klóra sig eitthvað í land og svara sem svo að það yrði reynt að setja um það einhverjar skynsamlegar reglur o.s.frv. En ekki hæstv. núv. sjútvrh. Hann þegir eins og það sé ekkert mál þó að hér eigi að afgreiða prinsippmál af þessu tagi án þess að svo mikið sem stafkrókur liggi fyrir um það hvernig eigi að framkvæma þetta atriði. Er það svo, hæstv. sjútvrh., að hæstv. ráðherra hafi ekki hugmynd um það hvernig eigi að standa að þessu?
    Ég spurði hæstv. ráðherra í öðru lagi um þetta atriði: Hvernig ætlar Úreldingasjóður sér að tryggja það þegar hann hefur greitt fé allt að 75% af fasteignamati viðkomandi eigna til þess að úrelda þær, taka þær úr starfsemi, að þær verði ekki nýttar á nýjan leik þegar engin þinglýst trygging verður fyrir því að svo sé gert? Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessu einu orði.
    Ég spurði hæstv. sjútvrh. sem á að heita þingmaður Suðurlands, ef ég man rétt: Hvað segir hæstv. ráðherra um gagnrýni sveitarfélaganna, þar á meðal Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi, sem á fundi með sjútvn. tók það mál sérstaklega upp hvers þau sveitarfélög ættu að gjalda í hverjum stæðu eignir sem væru úreltar af sjóðnum að sjóðurinn fái blankó heimild til að fella niður öll fasteignagjöld svo lengi sem honum sýnist? Það geta þess vegna staðið á Stokkseyri eignir í eigu þessa úreldingarsjóðs í tíu ár og hann þurfi ekki að borga eina einustu krónu í fasteignagjöld allan þann tíma. Sjóðinum er það algerlega í sjálfsvald sett. Hann er undanþeginn þessum gjöldum eins og þau leggja sig.
    Er hæstv. sjútvrh. yfir það hafinn að svara spurningum af þessu tagi? Hæstv. sjútvrh. getur gert í því að lítilsvirða mig eins og honum sýnist og aðra þá sem eru í hópi stjórnarandstöðunnar og reyna að halda uppi málefnalegum umræðum um mál. En ég hefði haldið að hæstv. ráðherra kipptist kannski pínulítið við þegar samband sveitarfélaganna í hans eigin kjördæmi kemur gagngert á fund sjútvn. til þess að taka upp mál af þessu tagi. Er hæstv. sjútvrh. yfir það hafinn að svara Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi um mál af þessu tagi? Hver er rökstuðningurinn fyrir því að fella niður öll fasteignagjöld af þessum eignum en ekki t.d. einhverjum öðrum? Ég spurði hæstv. sjútvrh. að þessu. Ég hef ekkert svar fengið, hæstv. forseti, ekki um þetta frekar en annað. ( Gripið fram í: Hvar er þetta?) Þetta er í 16. gr. frv. Þar segir ósköp einfaldlega:
    ,,Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eiganst.``
    Hvað er sagt um þessa 16. gr. í umsögn? Við skulum líta á rökstuðninginn: ,,Hér er lagt til að sjóðurinn þurfi ekki að greiða fasteignagjöld af þeim fasteignum sem hann eignast. Þetta þykir eðlilegt . . .  `` o.s.frv.
    Þetta þykir bara eðlilegt. Hverjum þykir það eðlilegt? Ekki sveitarfélögunum, ekki samtökum þeirra og væntanlega ekki þeim sveitarfélögum sem kunna að verða svo óheppin að verða fyrir því að þar verði úreltar miklar fasteignir og þau missi þar með tekjur því að það er verið að taka slíkar fasteignir úr leik gagnvart þessari starfsemi. Kannski er verið að ákveða að þær skuli standa tómar og af þeim komi engar tekjur á sama tíma og jafnvel aukist umsvifin í öðrum. Ef einhver hugsun á að vera á bak við þetta þá hlýtur það að vera þannig að fiskvinnslustöðvunum eigi að fækka og jafnvel aukast umsvifin í þeim sem eftir eru. Er það kannski þannig að á sama tíma og tekjur annarra sveitarfélaga aukast vegna þess að verðmætin og veltan vex þar, þá eru önnur sveitarfélög dæmd til þess að sitja uppi með eignir sem ekkert gefa af sér og standa kannski á besta stað í viðkomandi plássi?
    Hæstv. sjútvrh. reynir ekki að svara þessu heldur hangir hér glottandi í hliðarsölum og verði honum að góðu. Þetta er ekki beysin frammistaða, það verð ég að segja, hæstv. forseti.
    Ég spurði hæstv. sjútvrh., forseti góður, í þriðja lagi um orðalag þessa merkilega 1 þús. kr. ákvæðis og reyndar hæstv. utanrrh. einnig. Ég tel að stjórnarflokkarnir skuldi okkur það að skýra það út undir umræðunni hvaða skilningur liggur að baki samkomulagi þeirra um þetta orðalag. Eða er það feimnismál? Þorir hæstv. utanrrh., sjálf kempan og sjálfur vígamaðurinn, ekki að koma upp og útskýra hvernig skilning hann leggur í þetta orð ,,a.m.k. 1 þús. kr. á hverja þorskígildislest frá 1996``? ( Viðskrh.: Er það ekki alveg augljóst?) Það er alveg augljóst samkvæmt íslenskri málvenju. En þannig vill til að hæstv. sjútvrh. túlkar þetta akkúrat öfugt. Hann segir: Það sem fyrir okkur vakir er einmitt ekki a.m.k. heldur akkúrat þúsund. ( VE: Lestu líka 19. gr.) Ég er búinn að krosslesa þetta, hv. frammíkallandi, og það breytir engu um það að þetta orðalag er ankannalegt og það væru lágmarksmannasiðir af hæstv. sjútvrh. að koma hér upp og reyna að gefa sínar skýringar á því hvers vegna þetta er látið standa í frv. óbreytt jafnankannalegt og það nú er.
    Ég spurði hæstv. sjútvrh. í fjórða lagi um sjálfan grundvöll úreldingarstefnunnar, hvort hæstv. ráðherra gæti tjáð sig um það mál.
    Ég spurði hæstv. ráðherra í fimmta lagi um það hvers vegna væru felldar niður heimildir til að styrkja þátttöku í verkefnum erlendis eða hagræðingarverkefnum. Ekki eitt einasta svar við þessu.
    Hvað kom upp síðan frv. var lagt fram sem gerði það að verkum að menn ákváðu að fella niður orðið ,,styrki``? Er ekki hægt að fá svör við slíku? Er ekki hægt að fá svör við því? Nennir hæstv. sjútvrh. ekki upp í ræðustólinn eða hefur hann engu að svara eða er það hans ákvörðun að umgangast þingið, skoðanaskipti og umræður með þessum hætti?

    Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta lítilmótleg framkoma af hæstv. sjútvrh. Ég minnist margra manna sem gegnt hafa svipuðum embættum sem lögðu sig fram um það að sýna þinginu tilhlýðlega virðingu og þeim umræðum sem hér fóru fram, vera jafnan viðstaddir og reyna jafnan samkvæmt bestu getu að svara þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar, til að mynda hæstv. fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson, sem ég var oft ósammála og deildi stundum býsna hart við. En eitt skal sá maður eiga og það má gjarnan ítrekast og fara í þingtíðindin, að hann rækti skyldur sínar sem ráðherra á Alþingi með sóma. Hann sat hér yfirleitt betur í umræðum en aðrir menn og hann gerði sér far um það að sýna þeim skoðanaskiptum sem hér fóru fram tilhlýðilega virðingu, taka þátt í þeim eftir atvikum og svara þeim spurningum sem fyrir hann voru bornar. Það er rétt að menn njóti sannmælis. Þessi hæstv. fyrrv. ráðherra, hv. þm. og nú heimsbankastjóri í Helsinki hefur oft fengið ýmsar kárínur hér og verið gagnrýndur eins og gengur um stjórnmálamenn, en þarna tel ég að hans fordæmi og hans framganga hafi verið til fyrirmyndar. ( GÁ: Lokaði sig aldrei af í flokksherbergi Alþfl.) Nei, hann faldi sig ekki niðri í flokksherbergi krata þó ýmislegt gengi hér á né hékk hann glottandi í hliðarsölum eins og núv. hæstv. sjútvrh. og þorði að vera hér inni undir umræðunni.
    Hæstv. forseti. Það læðist að mér sá grunur að samviska þeirra stjórnarliða sé unnvörpum þannig gagnvart þessu máli að þar í liggi fólgnar skýringarnar á heldur aumingjalegri frammistöðu þeirra hér bæði í umræðunum og öðru. Auðvitað er hæstv. sjútvrh. með grenjandi móral yfir því að verða sá íslenskur sjávarútvegsráðherra sem ber ábyrgð á afgreiðslu þessa frv. Hvernig halda menn að hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson fari niður á spjöld sögunnar ef svo fer, sem Alþfl. heldur fram, að hér sé upphafið að þeim auðlindaskatti sem komi svo til með að vera í íslenskum sjávarútvegi? Þá verður það minnismerkið sem hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson reisir sér umfram önnur, að hafa nuddað þessu frv. í gegnum þingið með þvílíkri samvisku að hann þorði ekki upp í ræðustólinn til að svara fyrir það, ekki spor. Lét hv. þm. Vilhjálm Egilsson um það að kalla hér fram í. Málsvörn Sjálfstfl. í umræðunni voru veimiltítuleg frammíköll hv. þm. Vilhjálms Egilssonar.
    Auðvitað er þetta svona. Þetta er með afbrigðum aumingjalegur málflutningur og frammistaða Sjálfstfl. hér vegna þess að það er Alþfl. sem er að hafa sigur. Það er náttúrlega þannig, því miður, eina ferðina enn. Og hvar er nú kempan nýja frá Bergþórshvoli, sem öðrum mönnum oftar hefur harmað það hvað þessi litli flokkur, Alþfl., hefur haft mikil áhrif hér á síðustu árum í stjórnmálunum? Enn er það þannig að Alþfl. er auðvitað að hafa að mörgu leyti sitt fram í þessu máli og keyra það ofan í kokið á Sjálfstfl., eins og sjá má á því hvað þeir eru niðurlútir hér þingmenn flokksins. (Gripið fram í.) Staðreyndin er sú --- ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því. ( VE: Þú hefur bara ekki hrósað Alþfl. jafnmikið í annan tíma.) Þetta er ekki hrós, hv. þm., því hér er verið að fremja óhæfuverk og vantar hv. 1. þm. Norðurl. e. til að siða undirsáta sinn, 5. þm. þess sama kjördæmis, eins og hann hefur stundum gert hér nokkuð myndarlega.
    Nei, staðreyndin er auðvitað sú og ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því að það er verið að leggja á íslenska sjávarútveginn gjöld upp á yfir 12.000 millj. kr. sem á að fjármagna með gjaldtöku og sköttum á greinina á komandi árum. Ég hvet menn til þess að fara í nál. minni hluta sjútvn., fletta þar upp á gögnum sem við létum Þjóðhagsstofnun vinna fyrir okkur í þessari nefnd og skoða þar samtöluna. Hver er hún? Innborganir í þennan sjóð, og þar með líka það sem sjávarútvegurinn á að standa undir í gegnum gjaldtökuna, hafa samtöluna 12.100 millj. kr. Það er nú það sem er þarna á ferðinni og það munar auðvitað um minna. Svo eru menn að reyna að skáskjóta þessu hér í gegn undir dulnefninu Þróunarsjóður og halda að þeir sleppi með þessa umræðu í land með því einu að þegja. En það verður a.m.k. ekki af minni hálfu greidd gata þess að þessu máli verði lætt hér í gegn á þeim forsendum, út á samviskubit og móral Sjálfstfl. og eðlilega hefur Alþfl. um þetta sem fæst orð á meðan þetta er að sigla hér í gegn.
    Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé hið versta mál á ferðinni og auðvitað er frammistaða hæstv. sjútvrh. með endemum aumingjaleg, alveg með endemum aumingjaleg. Að hafa sig ekki upp í ræðustólinn til þess að reyna svo mikið sem að halda uppi lágmarksmálsvörnum fyrir málið. Það er ekki eins og það komi við hæstv. sjútvrh. að hér er lagt fram þykkt nál. þar sem næstum hver einasta umsögn er grenjandi gagnrýni á þetta mál. Nei, hæstv. sjútvrh. reynir ekki að fara upp og standa í einhverjum málsvörnum heldur læðupokast hér um í hliðarsölum eins og skugginn af sjálfum sér. Þetta er auðvitað dapurleg niðurstaða, hæstv. forseti.
    Nú er það ekki í mínu valdi, hæstv. forseti, að draga hæstv. sjútvrh. nauðugan í ræðustólinn. Þó vel kynni að vera að mig skorti ekki til þess vöðvaafl þá eru það ekki þær leikreglur sem við tíðkum hér á þinginu, sem betur fer, heldur reynum við að eigast við með öðrum hætti, með rökum og með sanngirni og með því að bera fram okkar mál með því að spyrja spurninga og ætlast til svara. Þannig ganga nú einu sinni skoðanaskipti fyrir sig, nema þegar þessi hæstv. ráðherra á í hlut. Hann hefur tekið upp alveg nýja siði. Hann telur það vera sitt hlutskipti að ganga hér um sem þegjandalegastur og láta sem minnst á sér bera innan veggja þingsalarins. Það verður auðvitað að vera val hæstv. ráðherra. Ég hef áður gagnrýnt það hvernig hann umgengst þingið í þessum efnum og mun halda því áfram, því ég er þrátt fyrir allt sannfærður um að hæstv. núv. sjútvrh. mun ekki verða sá sem mótar þessar samskiptahefðir þegar frá líður, þá verður þetta frekar talin undantekning heldur en einhver tilvonandi regla í okkar samskiptum hér.