Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 23:00:35 (7897)


[23:00]
    Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég leiði hjá mér hótfyndni hæstv. ráðherra en verð þó auðvitað að leiðrétta að það er alrangt sem hæstv. ráðherra segir, að allar þær spurningar sem hafa verið bornar upp í umræðunni, bæði af mér og fleiri ræðumönnum, hafi þegar verið komnar fram í 1. umr. Ég bendi á það t.d. að það er verið að breyta ákvæðinu um úreldingu fiskvinnsluhúsa og það er eðlilegt að spurt sé hvernig sjóðstjórnin ætli að tryggja það að húsin verði ekki nýtt á nýjan leik til fiskvinnslu þegar hin þinglýsta kvöð þar um er felld niður með brtt. nefndarinnar. Sú spurning hefur væntanlega ekki komið fram við 1. umr. því þar er sömuleiðis á ferðinni brtt. frá hv. meiri hluta sjútvn. Þannig að auðvitað fer hæstv. sjútvrh. hér rangt með, kann ekki málið, hefur verið sofandi einhvers staðar í hliðarsölum þegar umræða og afgreiðsla á því hefur farið fram og verður sér hér til skammar fyrir kunnáttuleysi í þessum efnum og auðvitað komu engin svör, engin rök fram í svari hæstv. ráðherra gagnvart þessu með styrkina. Bara, af því bara. Það er ákveðið að hætta við að hafa styrki þarna inni. Það er náttúrlega fyrirmyndarsvar eða hitt þó heldur.
    Og þá langar mig til að bera fram eina nýja spurningu enn til hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra athugað ákvæði 8. gr. frv. þar sem enn er tekið fram að skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá? Er það ætlun hæstv. ráðherra að afgreiða málið svona? Hefur hæstv. ráðherra borið þetta saman við þær breytingar sem nú er verið að gera á lögum um stjórn fiskveiða þar sem það er ekki lengur skilyrði fyrir úreldingu, samkvæmt skilningi þeirra laga, að skip hverfi af skipaskrá, þeim sé sökkt eða þau skráð í öðru landi, heldur er nú búið að heimila að þau séu skráð á íslenska skipaskrá án veiðiheimilda. Hér rekur sig eitt á annars horn. Eða er það ætlun hæstv. ráðherra að binda þetta áfram við það að skipin séu tekin af skipaskrá þegar í hlut á úrelding samkvæmt þessum lögum? Ég held að hæstv. ráðherra væri nær að kynna sér málin og reyna svo að svara til um efni þeirra heldur en að haga málflutningi sínum með þeim hætti sem hann hefur hér tíðkað.