Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 23:04:43 (7900)


[23:04]
    Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vakti satt best að segja nokkra undrun mína að hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, liti á það sem skyldu sína að afgreiða út úr nefnd jafn arfavitlaust mál og hér er á dagskrá. Það má vel vera að þegar menn taki að sér formennsku þá líti menn á að það sé rétt að vinna þannig. Ég vil minna á að í efh.- og viðskn. er þingmál búið að vera í sjö ár. Forsetar þingsins hafa aldrei séð ástæðu til að ýta á eftir formönnum um afgreiðslu. Forsetar þingsins hafa aldrei séð ástæðu til þess að tryggja það að málið komi til 2. umr. eins og Alþingi Íslendinga er búið að samþykkja sjö sinnum vegna þess að það eru menn eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. sem þora ekki að svara því í nafnakalli hér í þinginu hver afstaða þeirra er til þessa máls. (Gripið fram í.) Þeir þora ekki að gera það. Þeir eru svo huglausir að þeir þora ekki að afgreiða málið úr nefnd. ( VE: Við mundum fella þetta alveg undir eins.) Það er aldeilis að kötturinn hefur komist í kók núna. Það verður að segjast eins og er. Kjarkurinn er slíkur að undrun sætir.
    Ég verð nú bara að segja eins og er að þetta hlýtur að boða það að fundur verði settur í efh.- og viðskn. og hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, verður þá vonandi jafnupplagður og núna til þess að drífa málið út úr nefndinni. ( Gripið fram í: Ef hann kemst í kókið.) Ef hann kemst í kókið, það er að segja.
    En það sem vekur undrun mína er að þetta frv. sem hér er til meðferðar tekur á tveimur atriðum sem heyra undir umhvrn. Og umhvrn., sagt er að það sé í stórsókn í verkefnaleit, það þurfi að byggja það upp, það þurfi að fela því meiri verkefni. Hérna er tekin ákvörðun um það að afnema rétt sveitarfélaga til að leggja á fasteignagjöld á viss hús í landi. Það hefur ekki nokkur stjórnmálaflokkur vandað sig jafnmikið á landsfundum, með fálkann sem heiðursmerki, að vísu sest hann á jörðu niður, enda breytist nú ekki nafnið við það, að predika sjálfstæði sveitarfélaga. Og félmrh. lagði það á sig að berjast fyrir því að sérstakur samningur, Evrópusamningurinn um sjálfstæði sveitarfélaga, skyldi gilda á Íslandi. Svo eru skipulagsmálin afhent til umhvrn. og þá týna þeir bara þessum rétti í öllum músaganginum. Í öllum músaganginum, í baráttunni fyrir villtum dýrum á Íslandi, þá týnist það að þeir eru að tapa stjórn á því hvort sveitarfélögin megi leggja fasteignagjöld á viss hús. Og hvað með aðra sjóði sem þurfa að leysa til sín eignir? Iðnlánasjóður? Hann verður að bjóða upp hús. Verður þá ekki sagt: Það er nú ekkert réttlæti í því að Iðnlánasjóður þurfi að borga fasteignagjöld af húsi sem þeir hafa neyðst til að leysa til sín. Það verður haft samband við menn sem sitja í iðnn. þingsins og farið fram á jafnrétti. Fyrst að Þróunarsjóður sjávarútvegsins þarf ekki að borga, hvers vegna þurfum við þá að borga? Og hvað sem sjóð verslunarinnar sem þarf að leysa til sín hallir, enga smákofa, og borga fasteignagjöld af þessum húsum? Munu þeir ekki segja: Eru menn alveg bandvitlausir að ætlast til þess að við borgum fasteignagjöld af þessum húsum sem við höfum neyðst til að leysa til okkar á sama tíma og Þróunarsjóður sjávarútvegsins þarf ekkert að borga? ( Gripið fram í: Og bankarnir.) Og hvað með bankana? ( VE: Og sparisjóðirnir.) Og það er komið svo að hv. 5. þm. Norðurl. v. man nú eftir sparisjóðunum. Það er margt sem þeir læra í viðskiptafræðinni. Já, sparisjóðirnir þurfa líka að leysa til sín eignir.
    En er það tilfellið að sú grunnskipting á málaflokkum sem sett er fram í lögum um Stjórnarráðið hrynji bara eins og spilaborg þegar Þróunarsjóður sjávarútvegsins kemur á dagskrá? Samt er þetta með skattheimtuna ekki stærsta málið í réttindum sveitarfélaganna heldur að tapa skipulagsmálunum. Segjum nú að menn kæmust að því að það ætti að úrelda hafnaraðstöðu vegna þess að það væri komið allt of mikið af viðleguköntum fyrir skip sem legðust að landi og menn mundu bara úrelda aðstöðu Eimskips í Sundahöfn og það litla sem Samskip hefur þar líka. Þá stæði Reykjavík frammi fyrir því að þetta væri bara höfn sem menn mættu leggjast að en ekki fara á land. Það væri búið að úrelda athafnasvæðið. Þar mætti vera allt annað en vöruskiptahöfn. Sjá menn ekki hvað þetta er arfavitlaust?
    Við skulum taka Akranes sem dæmi. Segjum að þeir bjóði upp stærstu fyrirtækin þar vegna erfiðleika. ( VE: Ekki byggja þeir hús úr malbiki.) Hvað hefur hv. 5. þm. Norðurl. v. fyrir sér í því að þeir byggi ekki hús úr malbiki? Það er dauðaþögn. Það er greinilegt að þessi fullyrðing kemur án þess að nokkur þekking sé á bak við hana. Þetta hefur bara sprottið af vörum þingmannsins án þess að þingmaðurinn hafi hugsað. Auðvitað er það merkilegt fyrir okkur hina sem erum ekki á tvöföldum launum að átta okkur á því að jafnvel menn á tvöföldum launum láta eitt og annað frá sér án þess að hugsa. Maður hélt nánast að þeir væru tölvukeyrðir og þetta væri allt fullkomið.
    Ef mönnum dettur í hug að halda að það sé eitthvert gamanmál að eina fyrirtæki ákveðins staðar, sem á mestallt athafnasvæði þorpsins --- ég get tekið sem dæmi Fiskiðjuna Freyju í Súgandafirði sem á flestar lóðirnar sem tilheyra sem athafnasvæði í byggðarlaginu. Ef það er úrelt og Þróunarsjóðurinn leggur þetta undir sig þá fær hann náttúrlega þó nokkuð stórar upphæðir af tekjum sveitarfélagsins og þá fer svo að ef menn ætla að fara í fiskverkun þá verða þeir að byggja þau fiskverkunarhús þó nokkuð frá höfninni, en hitt verður bara til minja. Og ég vildi gjarnan fá að vita, hvaða atvinnustarfsemi er það sem menn hugsa að eigi að taka við á þessum stöðum? Það hefur aðeins ein hugmynd komið fram og það verður að meta það við hæstv. landbrh. að hann hafði þó hugmynd um hvað ætti að gera. Hann taldi að þetta ætti að verða að bjórstofur, það ætti að nota þetta sem bjórstofur. En hér er álit frá hv. 5. þm. Norðurl. v. og það er engin tillaga um það hvað eigi að gera í þessu húsnæði sem þeir ætla að fara að úrelda, engin tillaga. En skipulagsréttur sveitarfélaganna er aðalatriðið í sjálfsstjórn sveitarfélaganna. Menn skyldu bara prófa að taka skipulagsréttinn af Reykjavík og færa einhverjum öðrum sjóðum réttinn til að ráðskast með hlutina og vita hvernig þeir tækju því. Ætli það yrði ekki fjör? Ætli núverandi borgarstjóri teldi ekki nokkuð að sér vegið?
    En það er nú svo að þegar hæstv. sjútvrh., sem gerði þinginu þann stóra heiður að fara í ræðustól og flytja mál sitt, bæði prúðmannlega, framsetningin var góð, maðurinn kom vel fyrir og hann var ekki með nein persónuleg ónot út í nokkurn mann og hældi þingmönnum fyrir fundarsetu, að vísu sá hann ekki ástæðu til að hæla ráðherrunum fyrir fundarsetu í dag, en látum það nú vera, hann gerir það e.t.v. á morgun, að hann svaraði því aftur á móti engu hvernig hann liti á þá umsögn sem kemur frá sveitarfélögunum á Suðurlandi þar sem þau víkja að þessu með skattheimtuna, að þau eigi að tapa fasteignagjöldunum. Og ég á dálítið erfitt með að skilja það, svo að ekki sé meira sagt, að það geti verið eðlilegt að þriggja manna nefnd, skipuð af hæstv. sjútvrh., eigi að ráða því hvort þetta eða hitt sveitarfélagið á Íslandi tapar fasteignagjöldum af húsnæði í sjávarþorpunum.
    Nú gerast þau stóru tíðindi að hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, yfirgefur salinn og gengur trúlega snemma til náða eins og Njáll á Bergþórshvoli forðum þegar bruninn fór í gang skömmu síðar. Það var nefnilega minnst á arfasátuna hér í dag. ( GE: Og hrísvöndinn.) Og hrísvöndinn, það er ekki skrýtið þó að þeir sem komi af Skaganum muni eftir hrísvendinum. Það er nú hluti af Íslandssögunni og minningunum og ég vil ekki gera lítið úr því, enda muna þeir líka eftir snærisspottunum.
    En auðvitað er það svo að þegar menn halda hér uppi umræðum, vekja athygli á vissum hlutum, og ráðherrar vors lands líta svo á að það sé ástæðulaust að fara í málefnalega umræðu um þetta neitt frekar, þeir hafi ákveðið þeirra, þeirra sé valdið, og eins og við urðum vitni að í vetur að hér var flutt frv. og menn tóku sig til og breyttu því í nefnd og hæstv. utanrrh. átti nánast ekki eitt einasta orð yfir þá ósvífni að einhver þingnefnd færi að breyta máli sem búið væri að samþykkja í ríkisstjórn Íslands að ætti að leggja fram og ég játa það að það rann upp fyrir mér að Alþingi Íslendinga var komið í þá stöðu að við búum ekki lengur við þingbundna stjórn heldur stjórnbundið þing. Þannig standa málin. Og þetta er þeim mun merkilegra að öll þróun Evrópu er á sama veg, nema að þar er svo komið að ofan ríkisstjórnum sitja launaðir forstjórar og stjórna álfunni. Þeir hafa að vísu áhyggjur af því að það þurfi að setja mannlegri ásýnd á þetta kerfi sitt, það sé mannleg ásýnd sem þurfi að koma á kerfið.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að svo vel siðað er stjórnarliðið að þessi sjóður, þetta frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verður samþykkt og trúlega verða þessar brtt. samþykktar líka. Það er hvorki meira né minna en einir fimm sem skrifa undir þessar brtt. og sennilega er það nú svo að þeir hafi fengið leyfi hjá hæstv. sjútvrh. til að mega flytja þessar brtt. og þetta er sennilega allt gert í friði.
    En hitt er dálítið merkilegt að umsagnaraðilarnir sem hafa verið að senda álit sitt á þessu frv. eru kannski ekki allir langorðir, en þeir eru mjög skýrir í sinni hugsun um álit á þessum sjóði. Fiskiþing orðar þetta svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fiskiþing mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um stofnun sérstaks Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.``
    Ætli það sé nú svo að á fiskiþingi sitji í meiri hluta alþýðubandalagsmenn eða framsóknarmenn, þeir eru þar að sjálfsögðu líka, en það er ekki nokkurt vafaatriði að Sjálfstfl. á flesta stuðningsmennina á fiskiþingi og ef það eru til öfgalaus samtök innan sjávarútvegsins þá er það fiskiþing. Og það er ákaflega stutt

yfirlýsing sem þeir gefa. Þeir hefðu getað orðað þetta á annan veg: Við höfum getað stundað sjávarútveg á Íslandi og fiskvinnslu, án þess að svona sjóður væri til, til þessa og við teljum að við getum það áfram. En flokkarnir sem hafa með fúkyrðum ráðist á þá sem stundum hafa staðið fyrir stofnun sjóða á Íslandi, talað um sjóðasukk og allt eftir því, þeir stofna þróunarsjóð og sjútvrh. einn skal ráða stjórninni, skal ráða meiri hluta stjórnarinnar. Og jafnvel þó að sjútvrh. fari nú frá eftir ár þá á hann að stjórna þessu þrjú ár fram í tímann eftir það. Það er lýðræðið sem menn boða, þrjú ár fram í tímann.
    Ég hygg að það sé ærið umhugsunarefni hvers vegna það getur gerst í þessu þjóðfélagi að venjulegir stuðningsmenn Sjálfstfl. sem sitja á fiskiþingi og sérfræðingaliðið, stórséníin sem ráðleggja hæstv. ríkisstjórn hvað á að gera, að þetta lið skilur ekki hvort annað. Þarna er einhver stórkostleg gjá á milli. Annaðhvort þurfa sérfræðingarnir að fara í vinnu til sjós, ráða sig á skip, ráða sig til vinnu hjá fiskvinnslustöðvunum og kynnast þessu lífi af eigin raun eða þá að það verður bara að senda allt fiskiþing eins og það leggur sig í skóla og láta þá fara að læra hagfræði og viðskiptafræði svo hægt sé að nota þá sem umsagnaraðila í framtíðinni. Því það er alvarlegt mál að þegar sérfræðingar eru búnir að semja alveg snilldarfrumvarp þá komi fiskiþing og leggi til að það verði bara fellt. ( Gripið fram í: Það gengur ekki.) Það hreinlega gengur ekki, er sagt hér úti í sal. Það er einhver gjá sem þarna er að myndast. Það er einhver gjá sem veldur því, sem hefur myndast á milli þessara venjulegu aðila sem hafa stjórnað sjávarútveginum, hafa séð um þessi mál fyrir Ísland, og þeirra sérfræðinga, sem aldrei hafa séð um þessi mál fyrir Ísland, aldrei, og munu aldrei vera menn til að gera það, sem vilja fá að ráðskast með hina.
    Ég hygg, að það geti vel verið að það sé hægt að finna einn og einn aðila í útgerð og fiskvinnslu sem lætur sig dreyma um það að þeir verði aðilarnir sem fái peninga út úr þessu batteríi þegar búið er að safna með skattheimtufé úr öllum áttum og telji að það muni bjarga þeim hvað sem verður um byggðarlögin. Og það getur vel verið að þessir aðilir séu með ágætis flokksskírteini upp á vasann og það sé búið að semja um suma, hverjir það eru sem á að taka fyrir og úrelda fyrirtækin hjá. En atvinna fólksins í landinu mun ekki aukast við þetta. Þeim mun meira sem við gerum af því að snúa okkur að því að bjarga sjóðakerfinu, ef það hefur lánað rangt eins og Fiskveiðasjóður eða einhver annar, í staðinn fyrir að fara í það að byggja hér upp atvinnulíf, þeim mun verri verða lífskjörin í landinu. Þeim mun verri verða lífskjörin.
    Og það er umhugsunarefni að þegar fjórði hver ungur maður í París er orðinn atvinnulaus þá verður ríkisstjórnin að bakka með ákvarðanir fyrir þessum hópi manna. Og ekki til að hefna sín á ríkisstjórninni heldur til að fagna yfir unnum sigri þá fara þeir um stræti borgarinnar, kveikja í verslunarhúsnæði og velta bílum. Og þegar Sverrir Hermannsson talar um að það verði uppreisn þá er hann að tala um að í reynd. Hvað þarf hæstv. dómsmrh. að byggja mörg tugthús og fjölga mikið í lögreglunni ef hann þarf að hafa aga á 20--25% atvinnuleysi í Reykjavík? Vita menn það?
    Það hefur verið slegist á götum Reykjavíkur vegna kreppu og atvinnuleysis. Það hafa verið átök á milli verkamanna og lögreglu undir slíkum kringumstæðum og menn skildu að atvinnuleysi var ekkert gamanmál. En hér virðist það vera svo að menn sigla hraðbyr inn í hrakfarir Evrópu í atvinnumálum, sigla hraðbyr og kenna þorskinum í sjónum um þó að það liggi fyrir að það er einfaldasta mál í heimi að ala upp þorskseiði í fiskeldisstöðvum sem standa tómar í dag, ef það er rétt hjá fiskifræðingunum að það sé skortur á seiðum sem valdi því að ekki veiðist meira af þorski úr sjónum. Ef það er rétt hjá þeim, ég veit það ekki.
    Ég trúi ekki á þessar hagfræðikenningar. Ég trúi því ekki að sú glórulausa atvinnuleysisstefna sem verið er að koma á muni leysa vanda þessarar þjóðar. Ég veit það aftur á móti að stór hluti þjóðarinnar mun hafa það gott. Það er mér ljóst. Þannig er það í Evrópu. Það er mjög stór hluti sem hefur það gott, það fer ekkert á milli mála. Og það er allt annað hlutfall af þeim sem eldri eru sem eru atvinnulausir heldur en þeir sem yngri eru. Það er mun lægra. En er það réttlætanlegt að þegar ófriður geisar eins og var í heimsstyrjöldinni síðari og þessir æskumenn voru skyldaðir í herinn og skipað að fara í fremstu víglínu til að láta slátra sér þá sé á friðartímum hægt að segja: Okkur varðar ekkert um þetta lið. Þið fæddust að vísu í þennan heim, þið eruð franskir þegnar, en við, Frakkland, eigum ekki að gera neitt fyrir ykkur til að skaffa ykkur atvinnu. Það er bara þegar styrjöld geisar sem við höfum þörf fyrir ykkur. Og ef Íslendingar halda að þjóð eins og þessi þjóð, sem er í eðli sínu félagshyggjuþjóð, yfir um 60% af þjóðinni, þori ég að fullyrða, til 70% eru þannig þenkjandi og e.t.v. meira, því innan raða Sjálfstfl. er hægt að finna margan félagshyggjumanninn. Og þó að Alþfl. stjórni í dag aðilar sem hafa gleymt því að þeir fluttu einu sinni þáltill. um félagslegt réttlæti í landinu ( Gripið fram í: Þeir hafa nú gleymt fleiru.) og telji betra að dvelja í flokksherbergi Alþfl. þegar verið er að rifja það upp, af því að þeir sviku þau loforð sem þá voru gefin, þó að þeir stjórni Alþfl. í dag, þá er það nú svo að það verður ekki mjög lengi. Það verður ekki mjög lengi.
    Sá flokkur hefur átt foringja sem voru með það alveg á tæru að það væri skylda þess flokks að berjast gegn atvinnuleysi og byggja upp atvinnu í landinu. Og það er alveg sama þó að þeir beiti sér fyrir samþykkt þessa frv. og fái það samþykkt, það verður enginn friður nema réttlæti ríki. Það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því. Það er ekkert réttlæti að berja hér í gegn hægri sinnaða hagfræðistefnu, sem mun leiða til fjöldaatvinnuleysis og hefur þegar leitt verulegt atvinnuleysi yfir landið, og tala svo stöðugt um það að þetta sé einhverjum náttúruöflum að kenna. Og það er greinilegt að þeir sem fara í gegnum viðskiptafræðina í háskóla vita lítið um áhrif tunglsins á jörðinni. Það kom eftirminnilega í ljós

í dag. Ekki veit ég hvort þeir gera sér grein fyrir því að tunglið hefur áhrif á flóð og fjöru og fallaskiptin verða misjöfn eftir því hvernig stendur á tungli. Sennilega hafa þeir aftur á móti heyrt getið um það að á gervitunglaöld komist menn á tunglið. Það er sennilega sú vitneskja sem eftir situr. Og auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að stórséní sem hafa náð langt á einu sviði hafi tíma til að kynna sér alla hluti eins og þá að trúlega hefur tunglið undarlega mikil áhrif á líf, bæði hjá skepnum og mönnum, á þessari jörðu.