Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 00:38:28 (7911)


[00:38]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér rætist úr þannig að við getum haldið umræðunni áfram. Hér er mættur hæstv. forsrh. og þingflokksformaður Sjálfstfl. með honum þannig að þetta stendur allt til bóta.
    Við erum að ræða afar sérkennilegt mál, þ.e. frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla. Lítið frv. með löngu nafni en það felur í sér mjög sérstakar aðgerðir sem ræddar voru ítarlega við 1. umr. og hafa verið kannaðar mjög rækilega af hv. efh.- og viðskn. Að vísu verð ég að taka það fram að ég fór af þingi um skeið til að sinna öðrum opinberum störfum og þar af leiðandi var ég ekki sjálf viðstödd hluta af þeirri yfirferð en ég hef að sjálfsögðu kynnt mér þau gögn sem nefndin aflaði sér og það hefur ekkert breytt þeirri skoðun minni, sem ég setti fram við 1. umr., að hér sé um afar óvenjulegar og óeðlilegar aðgerðir að ræða. Fyrst og fremst vegna þess að einn landshluti er tekinn út úr og menn gefa sér það að þar og nánast hvergi annars staðar sé um það að ræða að byggðarlög eigi við jafnmikla erfiðleika að stríða. Mín grundvallarskoðun er sú að aðgerð af þessu tagi hefði átt að ná til alls landsins og menn hefðu átt að raða í forgangsröð þeim stöðum sem þyrftu aðstoðar við.
    Því verður svo við að bæta að hér er um svo litla upphæð að ræða, þó að fjmrh. muni um 300 millj. á fjárlögum, miðað við þann gríðarlega vanda sem sjávarútvegsfyrirtækin eiga við að stríða að ( Fjmrh.: . . .   upphæð að vera lítil og verður mikil?) Það er flókin spurning, hæstv. fjmrh., hvar mörkin eru þar á milli. En miðað við þann mikla vanda sem við er að stríða á Vestfjörðum er hér um lága upphæð að ræða. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum skipta milljörðum.
    Síðan er spurningin: Hverjir fá þessa aðstoð? Samkvæmt því sem fram kom hjá fulltrúum Byggðastofnunar er fyrst og fremst um 2--3 aðila að ræða. Málið er þannig upp sett að það er eingöngu um 2--3 aðila að ræða.
    Þær forsendur sem menn gefa sér fyrir þessari aðstoð eru þær að Vestfirðingar hafa orðið harðar úti í þeim samdrætti sem gengið hefur yfir landsmenn á undanförnum árum en aðrir landsmenn en þegar tölur eru skoðaðar um samdrátt, um halla á fyrirtækjum og fleiri upplýsingar sem fram hafa komið, kemur í ljós að þetta er einfaldlega ekki rétt. Vesturland hefur farið verr út úr þessum samdrætti en Vestfirðir.
    Síðan er einnig sú staðreynd, sem ég ætla að endurtaka þó að ég viti að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sé ekki vel við að það sé tíundað, að þrátt fyrir atvinnuleysi á Vestfjörðum, sem nú er orðið staðreynd samkvæmt síðustu tölum sem við höfum frá félmrn., þá er það samt minna en annars staðar á landinu. Ég ætla líka að rifja það upp frá 1. umr. að meðaltekjur eru hæstar á landinu á Vestfjörðum. Það hefði því verið ástæða til að ætla að íbúar þar væru betur í stakk búnir til að mæta vandanum heldur en ýmsir aðrir landsmenn. Ekki þar fyrir að það er alveg ljóst að Vestfirðir eiga við mikinn vanda að stríða, mikinn samdrátt, en það breytir ekki því að það eiga margir aðrir staðir. Hér gildir það að landsmenn allir eiga að sitja við sama borð og sé þörf á aðstoð á að veita hana almennt og setja upp einhverja forgangsröð.

    Þá er líka að nefna það, sem var afar harðlega gagnrýnt við 1. umr., og það er hreinlega hin tæknilega uppsetning á frv. Það er kannski óþarfi að vera að rekja það hér enn einu sinni að orðalag er þannig að afar sérkennilegt verður að teljast og í rauninni óljóst hvað í því felst. En það var ljóst af umfjöllun í nefndinni að ekki mætti orði hagga í frv. og þessi lagatexti er látinn fram ganga með orðalagi eins og því: ,,Byggðastofnun er heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum sem ætla að sameinast . . .  `` o.s.frv. sem fram kemur í þessum greinum. Þetta er afar sérkennilegur lagatexti og heldur vont fordæmi sem hér er á ferð.
    Ég get ekki lokið máli mínu án þess að víkja nokkrum orðum að grein sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skrifaði í blaðið Vesturland þar sem hann tók málflutning okkar kvennalistakvenna sérstaklega fyrir og gerði mig að sérstökum óvini Vestfjarða, taldi að minn málflutningur væri afar hættulegur sérstaklega þar sem ég ætti sæti í hv. efh.- og viðskn. og taldi víst að ég mundi beita mér sérstaklega gegn þessari aðstoð við Vestfirði. En því fer víðs fjarri. Og ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. að ég hef ekki verið ein um að gagnrýna þetta frv. eða hvernig hefur verið að málum staðið, þá staðreynd að tveir þingmenn Vestfjarða gengu á fund ríkisstjórnarinnar og höfðu út úr henni 300 millj., heldur get ég vitnað til ýmissa flokksbræðra hv. þm. sem tóku þátt í 1. umr. um þetta mál og gagnrýndu mjög hvernig að málum hefði verið staðið. Þá má ekki síður vitna til ýmissa útgerðarmanna sem hafa rætt þetta mál, bæði að norðan og af Vesturlandi, og gagnrýnt það harðlega hvernig að þessu hefur verið staðið.
    Það má líka vísa til gagna sem fram koma í fylgiskjölum frá 2. minni hluta þar sem m.a. bæjarstjórn Bolungarvíkur gagnrýnir þetta frv. og ýmsir fleiri sem sendu umsagnir um málið og voru kallaðir til nefndarinnar. Þannig að því fer víðs fjarri að okkur kvennalistakonum sé eitthvað uppsigað við Vestfirði. Þarf vart að nefna það eða vera að svara slíku þar sem við eigum þingmann úr því kjördæmi sem hefur að sjálfsögðu haldið uppi málstað síns fólks, en það er ekki sama hvernig að hlutunum er staðið. Hér blasir sú staðreynd við okkur að það er verið að taka ákveðinn landshluta sérstaklega fyrir og veita honum sérstaka aðstoð án þess að þau rök liggi að baki sem hægt er að sætta sig við. Staðreyndirnar tala sínu máli sem bæði koma fram í gögnum frá Byggðastofnun og ég get vísað hér til greina sem birtust í Vísbendingu 24. mars sl. þar sem þessi samdráttur í afla er greindur. Ekki þar fyrir að að sjálfsögðu viðurkennum við kvennalistakonur að vandi Vestfjarða er mikill eins og reyndar ýmissa annarra byggðarlaga og auðvitað þarf að fara ofan í þennan vanda, greina hann og reyna að átta sig á því hvað hægt er að gera. Það er augljóst að einhæfni atvinnulífsins á Vestfjörðum ræður miklu um og það hlýtur að vera fyrst og fremst verkefni Vestfirðinga sjálfra að kanna þá möguleika sem þeir hafa á fjölbreytni í atvinnulífi. Þar hefur svo sem ýmislegt verið að gerast sem vísar til framtíðar og lætur gott á vita þannig að vonandi bíður Vestfjarða betri tíð með blóm í haga. En ekki þar fyrir eru erfiðleikarnir miklir og það blasir gjaldþrot við ýmsum fyrirtækjum þar og því miður, eins og ég rakti hér áðan, þá hefur atvinnuleysi farið vaxandi á Vestfjörðum og mun versna ef samdráttur verður enn meiri.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vísa til nál. 2. minni hluta og þess sem ég sagði við 1. umr. og ítreka það enn einu sinni að það þarf að gera úttekt á miklu fleiri byggðarlögum og til þarf að koma aðstoð sem þarf að jafna niður á byggðarlögin í landinu, en því miður tel ég að sú aðstoð sem hér er á ferð sé einfaldlega ekki upp í nös á ketti og sé ekkert annað en sýndarspil af hálfu þessarar ríkisstjórnar.