Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 01:25:43 (7916)


[01:25]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er nú þannig í stjórnmálum og hefur viðgengist lengi, eiga sennilega allir eða flestir jafnríka sök, að stjórnarandstæðingar á hverjum tíma reyna að gera því skóna að stjórnvöldum gangi iðulega illt til með aðgerðum sínum. Þetta hefur verið lenska hér á landi og eiga, eins og ég segi, allir töluverðan hlut, sjálfsagt allir flokkar, í þeim efnum. Sjálfsagt er nær að ætla að stjórnvöld á hverjum tíma vilji vel í öllum meginatriðum en farist kannski misvel úr hendi ætlunarverk sín og störf. Ég býst við því að þessi árátta okkar stjórnmálamanna að ganga þannig til verks að gera gagnstæðan hóp tortryggilegan að þessu leyti eigi þátt í því að draga úr virðingu flokka og forustumanna sameiginlega.
    Því segi ég þetta að sá ágæti hv. þm. sem áðan talaði gekk ansi langt í þessum efnum er hann ræddi um það að ríkisstjórninni og mér persónulega gengi til alveg hreint ótrúlegir hlutir í framkvæmd þessa máls. Í fyrsta lagi vildi ég helst gera Vestfirðingum skaða, beina kastljósti að þeim og setja þá í sérstaklega slæmt ljós og í þriðja lagi væri ég að hefna deilna við hv. 1. þm. Vestf. sem hefðu átt sér stað sumarið 1991. Ég fullvissa hv. þm. um að allt er þetta úr lausu lofti gripið og nær nánast ekki máli en er angi af því sem ég nefndi í upphafi, að menn reyna að finna það til að stjórnmálamönnum hljóti yfirleitt að ganga illt til allra sinna verka.
    Vandi Vestfirðinga hefur verið ræddur sérstaklega og ég býst við að frekar megi saka ríkisstjórnina og þá mig alveg sérstaklega um að hafa verið tregur í taumi til að taka sérstaklega á málum þessa landsfjórðungs. En mér fannst rökin sem þingmenn Vestfirðinga m.a. og ekki síst og Vestfirðingar og margir forustumenn þeirra höfðu flutt fram vera þess eðlis að fram hjá þeim væri ekki hægt að líta. Mér fannst kannski skorta á að þingmaðurinn gerði okkur grein fyrir því hvort hann drægi fullyrðingar Vestfirðinga í efa, fullyrðingar sem m.a. komu fram á bls. 4 í fskj. I með frv. þar sem vitnað er í niðurstöður starfshópsins sem settur var á laggirnar varðandi stöðu Vestfjarða og þá sérstöðu sem þeir búa við vegna einhæfni atvinnulífsins og landfræðilegrar einangrunar og vegna þeirra þátta sem þar eru sérstaklega tilgreindir. Ég trúði því satt best að segja að allir þingmenn Vestfirðinga hefðu sameiginlega haft þessar áhyggjur og mundu þess vegna stuðla að því að þetta frv. mætti ná fram að ganga. Ég átta mig ekki alveg á því hvort hv. þm. hygðist leggjast gegn frv. en það er auðvitað nauðsynlegt að hann upplýsi menn um það. Það hlyti að vekja nokkra athygli. En það er fjarri lagi, eins og ég sagði, að mér eða ríkisstjórninni eða þingmönnum Vestfirðinga, sem sóttu málið allfast sem eðlilegt er enda mikið í húfi, hafi gengið eitthvað illt til eða viljað setja Vestfirðinga og það dugnaðarfólk sem það kjördæmi byggir í ljótt ljós.
    Varðandi það sem hv. þm. spurði um, sérstaklega um 4. gr. frv., þá sé ég ekki efni til þess að skýra þá grein sérstaklega í reglugerðinni því að hún er afskaplega tær, ljós og auðskilin og auðframkvæmanleg fyrir þann aðila sem samkvæmt frv., ef að lögum verður, ber að fylgja þeirri grein eftir.
    Varðandi stjórnsýslulögin hlýddi ég á ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. í þeim fjölmiðli sem nú þykir mest ómissandi til að þingstörf megi ganga fram og í mjög löngu máli. Auðvitað sagði hann margt gáfulegt í ræðu sinni en það sem hann vék að stjórnsýslulögum fannst mér ekki eiga við og raunar ekki það sem hv. þm. nefndi heldur sem síðast talaði, hvort það væri virkilega svo að menn hygðust með reglugerð og ekki lagaboði ganga á svig við ákvæði stjórnsýslulaganna.
    Í fyrsta lagi er það nú svo að reglugerðin stenst ekki nema hún byggi á lögunum og hafi lagagrundvöll. Hafi hún lagagrundvöll og gangi á svig við önnur lagafyrirmæli er komin upp allt önnur staða heldur en hv. þm. nefndi.
    Varðandi stjórnsýslulögin eiga ákvæði þeirra ekki við þegar þingið er með lögum að ákveða með reyndar nánari útfærðum sérstökum reglum sem ná til allra þeirra fyrirtækja sem undir þær reglur geta farið, þá er ekki um að ræða mismunun gagnvart stjórnsýslulögunum. Stjórnsýslulögin taka til framkvæmda stjórnsýsluvaldshafa eins og nánar er skilgreint í lögunum en setja ekki þinginu skorður í lagasetningu. Ef við hefðum viljað gera það hefði orðið að setja stjórnsýslulögin í stjórnskipunarform sem stjórnarskrárbreytingu. Ég tel reyndar að ekkert í þessu frv. stangist á við stjórnsýslulögin svo að ég sérstaklega víki að umræðuefni sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði að allnokkru umræðuefni í sínu máli.
    Þetta lagafrv. er byggt á vandaðri vinnu sem unnin hafði verið vegna sérstakra aðstæðna á Vestfjörðum sem skera sig úr ef rætt er um einn landshluta í heild. Á hinn bóginn má sjálfsagt finna og það er rétt, þó ekki hafi verið athuguð með nákvæmlega sama hætti, á öðrum svæðum í landinu einstök byggðarlög eða svæði innan landshluta þar sem áþekkar aðstæður eru eins og á Vestfjörðum nánast í heild. Þess vegna held ég að það mætti búast við því að á þinginu tækist sæmileg sátt um það að ganga til verks með þeim hætti sem hér er lagt til og miðaði að aðstæðum á Vestfjörðum sérstaklega.
    Hv. 3. þm. Vestf., Einar Guðfinnsson, vakti til að mynda athygli á því að sem betur fer hafa mjög margir aðrir aðilar í sjávarútvegi notið góðs af þeim fjörkipp sem varð í loðnuveiðum þar sem spár gengu eftir. Vestfirðingar hafa ekki notið góðs af þeim. Ég hygg að sá landshluti sé einstæður þar sem ekkert hefur gengið fram af þeim ágóða til þess að létta vanda Vestfirðinga. ( ÓÞÞ: Það er nú reyndar ekki alveg satt. Það er loðnuverksmiðja í Bolungarvík.) Ég nefndi í þeim mæli sem gerst hefur annars staðar þannig að það mætti létta þar á.
    Hv. 18. þm. Reykv. nefndi hygg ég að þetta væri lág upphæð miðað við heildarskuldir fyrirtækja á Vestfjörðum. Það hefur aldrei verið gefið til kynna að með þessari aðgerð væri verið að létta öllum skuldum af vestfirskum fyrirtækjum. Á hinn bóginn er þess vænst að þessi atbeini gæti verið nægjanlegur til þess að fleyta þessum fyrirtækjum yfir þann vanda sem þau búa við núna sem ekki síst stafar af því að kvóti er í algeru lágmarki. Við þykjumst sjá þess merki af ummælum og upplýsingum fiskifræðinga að það megi búast því að mikilvægasta fisktegund á Vestfjarðamiðum sé að rétta úr kútnum. Þó að enn þurfi nokkra biðlund að mati sérfræðinganna eftir því að þeim afla megi ná úr sjó, þá erum við með þessum aðgerðum að

fleyta þessum fyrirtækjum sem þessara aðgerða munu njóta fyrir vind. Ég tel þess vegna að það réttlæti þann málatilbúnað og þá frumvarpsgerð sem hér er á ferðinni og tel áríðandi að þingmenn treysti sér til að afgreiða þetta mál og vonandi með bærilegri samstöðu þó að auðvitað sé það svo með atriði eins og þetta sem hv. þm. sem síðast talaði sagði réttilega að væri flókið, snerti hagsmuni, væri þeirrar gerðar að ekki mundu allir njóta. Þrátt fyrir þá annmarka tel ég þýðingarmikið að þetta mál náist fram á þinginu og vænti þess að þingmenn, þó þeir taki sér þann tíma sem nauðsynlegur er til að ræða málið, megi sameinast um að málið nái fram að ganga fyrir þinglok.