Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 02:02:26 (7923)


[02:02]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að lengja þessa umræðu. Ég vil samt sem áður lýsa yfir stuðningi við frv. sem hér er til umfjöllunar. Það er í fyllsta máta eðlilegt að það sé tekið á vanda atvinnulífsins á Vestfjörðum eins og hér er gert ráð fyrir. Aðstæður eru þannig á Vestfjörðum, bæði varðandi einhæfni atvinnulífsins og hinna sérstæðu aðstæðna vegna samgangna og fleiri atriða, að það er í fyllsta máta eðlilegt að á vanda Vestfirðinga sé tekið með þeim hætti sem gerð er tillaga um í frv.

    Því hefur verið velt upp í þessari umræðu að það kunni að vera ástæða til að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum gagnvart einstökum öðrum byggðarlögum í landinu. Þess vegna fagna ég því sem kemur fram í greinargerð með frv. að þrátt fyrir þá löggjöf sem hér er verið að leggja til þá girði það á engan hátt fyrir því að á sérstökum vandamálum annarra svæða verði tekið. Snæfellsnesið hefur verið nefnt í því sambandi og það er alveg ljóst að þar er við ýman vanda að etja, bæði á utanverðu og innanverðu Snæfellsnesi. Auðvitað þarf að skoða mál á þeim svæðum með tilliti til aðstæðna og ég treysti því vissulega að það verði gert enda liggja fyrir yfirlýsingar um, bæði frá hæstv. forsrh. og forustumönnum Byggðastofnunar, að á því máli verði tekið og það skoðað.
    Ég vil bara, virðulegi forseti, endurtaka það að ég lýsi stuðningi við þetta frv. sem hér er til umfjöllunar og fagna því að það skuli ná fram að ganga.