50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:31:56 (7925)


[09:31]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Nú líður að þinglokum. Ákveðið mál veldur mér nokkrum áhyggjum, ekki síst eftir lestur Morgunblaðsins í morgun. Ég tel heiður þings og þjóðar í hættu takist ekki vel til af hálfu Alþingis í því efni.
    Sú ákvörðun hefur verið tekin að stefna bæði þinginu og þjóðinni á Þingvöll 17. júní nk. í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Ég tel reyndar að stilla verði öllum kostnaði í hóf í kringum þessi hátíðahöld í ljósi þess að efnahagur þjóðar og heimila leyfir ekkert tildur. Að stefna Alþingi til Þingvalla til að samþykkja þingmál af þessu tilefni er stórmál og þar er ekki sama hvernig til tekst. Mér finnst að liggja verði fyrir samstaða í þingflokkum um slíkt. Nú vill svo til að enn liggur ekki fyrir samstaða um neitt mál. Mér finnst að stjórn þingsins og formenn þingflokka þurfi og verði að ná saman um einhverja hugsjón sem væri verðug afmælisgjöf og fyrirheit til ungra Íslendinga um bjartari framtíð. Mér heyrist að allt tal um staðfestingu á mannréttindakafla sé út úr myndinni. Ég hefði talið að Alþingi hefði verið sómi að einhverri áætlun um rannsóknir á auðlindunum sem skilaði sér síðar í auknum þjóðartekjum.
    Ég horfi mjög til lífbeltanna tveggja eins og Kristján heitinn Eldjárn orðaði það svo myndarlega. Landið fékk gjöf 1974, það lífbeltið. Væri ekki eðlilegt að marka stefnu um stórauknar vistfræðirannsóknir á lífríki hafsins í tilefni þessa afmælis eins og hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefur bent á?
    Hæstv. forseti. Ég tel að talsvert liggi við að vel takist og undra mig á því að enn skuli ekki hafa náðst samstaða um einhverja hugsjón í tilefni af þessu stóra afmæli.