50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:34:51 (7927)


[09:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það var seint á árinu 1991 að ég flutti ásamt tveimur öðrum þingmönnum till. til þál. um það hvernig minnst yrði 50 ára afmælis lýðveldisins. Sú tillaga komst aldrei til afgreiðslu, en það náðist um hana samstaða vorið 1993. Það var fyrst í september sl. sem skipuð var nefnd á vegum forsrn. til að undirbúa þjóðhátíðina á Þingvöllum. Hún hafði með öðrum orðum 8--9 mánuði til að undirbúa verk sitt sem fram undan er þann 17. júní nk. en þess skal getið til samanburðar að nefndin sem undirbjó hátíðahöldin á Þingvöllum 1974 hafði níu ár til þess undirbúningsverks.
    Starfsemi þessarar nefndar hefur að mörgu leyti verið mjög flókin og erfið, m.a. vegna þess að Alþingi sjálft hefur ekki enn þá, eins og hv. þm. benti á, tekið ákvörðun um það hvert á að vera innihald hátíðarfundarins á Þingvöllum. Á það höfum við alþýðubandalagsmenn þrýst með margvíslegum hætti. Ég tel að það sé okkar meginafstaða og það sem við höfum lagt áherslu á er það að bætt verði inn í stjórnarskrána nýjum mannréttindakafla sem full samstaða hafði náðst um í stjórnarskrárnefndinni sjálfri, en strandaði síðan af einhverjum furðulegum ástæðum í Sjálfstfl. að því er mér er tjáð. Ég tel að það sé enn ekki of seint að taka ákvörðun um að mannréttindakaflinn verði tekinn inn í stjórnarskrána og það eigi ekki að láta staðar numið í þeim efnum heldur kanna til hlítar hvort unnt er að ná samstöðu um það.
    Hátíðin á Þingvöllum og þessi hátíðarfundur þarf auðvitað að hafa myndarlegt, sögulegt innihald. Menn eiga ekki að fara á Þingvöll með tilheyrandi kostnaði bara til þess eins að fara á Þingvöll og halda einn hátíðarfund eða svo. Menn eiga að efna til þessarar samkomu með myndarlegu innihaldi, ég tala nú ekki um að sýna það í verki að menn eigi hugsjónir, eins og hv. þm. nefndi það, fyrir hönd þessarar þjóðar og veitir síst af því um þessar mundir að menn sýni það í verki og athöfnum Alþingis að menn eigi eitthvað eftir af því sem einu sinni var kallað hugsjónir en er ótrúlega lítið eftir af í seinni tíð.