50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:39:17 (7929)


[09:39]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka svör forsetans og þann vilja sem kom fram í svari hennar og vænti þess að hæstv. forseti beiti sér í þessu máli og reyni á sem stystum tíma að ná samstöðu um málið.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að sú nefnd sem undirbjó afmælið 1974 og þá miklu hátíð hafi haft níu ár. Þetta er hárrétt. En það er svo að þegar einhver fæðist er vitað að einhvern tíma verður hann fimmtugur þannig að menn hafa haft langan tíma en ekki gáð að sér því þessi nefnd er of seint skipuð, aðeins fyrir átta mánuðum.
    Ég tel að mannréttindakafli sem rætt hefur verið um hitti kannski ekki í mark hjá þjóðinni. Stærsta mannréttindabrotið sem íslenska þjóðin býr nú við er atvinnuleysið og ef við gætum sameinast og markað stefnu til þess að leiðrétta það mannréttindabrot, þá værum við á réttri leið. En ég hef bent á og teldi

mikilvægt að við legðum aukna peninga í vistfræðirannsóknir í hafinu því staðreyndin er sú að lífsafkoma íslenskrar þjóðar byggist ekki síst á þessum tveimur lífbeltum. Við búum við óvissu í hafinu á okkar fiskstofnum, ekki síst þorskinum, þannig að ég teldi þjóðargjöf í þá áttina vel varið, ekki síst gagnvart hinni ungu kynslóð sem þráir góð lífskjör.