50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:43:27 (7931)


[09:43]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega mjög sérstakt að nú á væntanlega síðasta degi þessa þinghalds skuli enn ekki liggja fyrir nein tillaga, hvað þá ákvörðun um það hvað eigi að tengjast hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í minningu 50 ára lýðveldisafmælis. Þetta er að mínu mati vottur um átakanlegt forustuleysi af hálfu forsætisnefndar þingsins og forustu þingflokka að hafa ekki komið sér saman um málefni sem væri verðugt að ákvörðun væri tekin um á Þingvöllum.
    Inn í mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar tel ég að eigi að koma ákvæði sem tengjast því að þjóðin fái að segja sitt í stórmálum eins og rætt var um mikið á síðasta ári í þjóðaratkvæðagreiðslu, og átakanlegt að ekki skuli vera vilji til að koma slíku máli í höfn. Ég lagði inn tillögu snemma á þessu þingi sem ég hélt að væri auðvelt að vinna fylgi hér sem tengist landvernd og friðlýsingu lands á öllu Þingvallasvæðinu, mál sem hefur verið mjög vel undirbúið á undanförnum árum. Einnig það hefur ekki fengið byr eða þann undirbúning sem þarf og það er illt til þess að vita að það þurfi að fara að kveðja Alþingi til á elleftu stundu, um miðjan júní eins og mér heyrist að ráðgert sé, til að takast á um tilefnið. Það ber vott um forustuleysi og sundurlyndi sem er kannski því miður tímanna tákn á 50 ára afmæli lýðveldisins.