Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 10:20:47 (7937)


[10:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. hefur fjallað ítarlega um þá skýrslu sem hér er til umræðu um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis og lýst því hvernig ríkisstjórnin hefur eða hyggst beita ýmsum vinnumarkaðsaðgerðum og ýmsum sérstökum aðgerðum til þess að berjast við aukið atvinnuleysi. Það sem er

aðalatriðið og var aðalatriðið í hennar málflutningi er að leysa þarf þetta stórkostlega vandamál, þetta mikla vandamál til frambúðar. Málið er að sjálfsögðu forgangsmál ríkisstjórnarinnar og verður það framvegis eins og annarra ríkisstjórna á Vesturlöndum nú um stundir.
    Þegar rætt er um það hvers vegna atvinnuleysi hefur magnast hér á landi er ástæða til þess að benda á að við höfum átt við ytri áföll að stríða, svo sem minnkun á þorskveiðum. Það hefur verið lægra verð . . .  ( StG: Minnkun á . . .  afla.) Ef hv. framsóknarmenn geta nú setið á sér smástund, þá vil ég benda á fleira. Það er lægra verð á íslenskum fiskafurðum á erlendum mörkuðum, 24--25% frá upphafi árs 1991. Það verður ekki hrakið. ( GÁ: Hvar er loðnan?) Loðnan er inni í þessu, þetta er á föstu verðlagi og ég vona að hv. þingmenn Framsfl. skilji það. Það hefur verið víðtæk alþjóðleg efnahagslægð sem hefur haft áhrif hér á landi. Fortíðarvandinn íslenski hefur birst í of miklum fjárfestingum á undanförnum árum. Ég nefni t.d. að á árunum 1990--1993 þurfti ríkissjóður að greiða 10 milljarða vegna þess að ríkissjóður tók á sig af sjóðum skuldbindingar sem ríkissjóður varð að borga og það er athyglisvert að íslenska þjóðarbúið þarf að borga yfir 50 milljarða á ári eða það sem nemur hálfum . . .  (Gripið fram í.) Maður hefur hér takmarkaðan tíma og sumir hv. þingmenn eru svo ókyrrir í salnum að það er ekki nokkur leið að komast áfram í máli sínu. Þeir hafa vonandi málfrelsi eins og aðrir, hv. þm. Guðni Ágústsson, sem nú hefur kallað hér fjórum sinnum fram í. Það eru 50 milljarðar. Þetta er ekkert gamanmál. Framsóknarmenn geta hlegið að þessu máli en þetta er ekki gamanmál fyrir þann sem hér stendur eða aðra þá sem taka þessi mál af fullri alvöru. ( GÁ: Gott að heyra.)
    Allt sem ég hef sagt þýðir það að það þrengir möguleika ríkisstjórnarinnar og annarra sem láta þessi mál til sín taka til þess að geta tekist á við málin með viðeigandi hætti. Þetta ættu menn að hafa í huga. Og þegar talað er um að ríkisstjórnin hafi ekki náð árangri er full ástæða til þess að benda á að það eru ekki nema 20 mánuðir síðan að gefin var út skýrsla á vegum Alþýðusambands Íslands og í þeirri skýrsu stóð: Ef ekkert verður gert mun atvinnuleysi á Íslandi verða 20--25% og það var verið að tala um það hvaða áföllum Íslendingar hefðu orðið fyrir. Það var tekist á við vandamálin og því miður er atvinnuleysið of mikið, en það var langt frá því að vera sú tala sem þarna var nefnd. Þetta vil ég að komi hér fram þegar menn eru að tala um það hvort árangur hafi náðst eða ekki.
    Hæstv. félmrh. ræddi um sérstakar aðgerðir og einkum og sér í lagi vinnumarkaðsaðgerðir. Það sem hins vegar er eðlilega ekki eins mikið fjallað um í þessari skýrslu er að ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu beitt öðrum aðgerðum og það má kannski skipta þeim aðgerðum í þrennt. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að bæta stöðu atvinnuífsins með stöðugu verðlagi, auknu frelsi í viðskiptum milli landa, lækkun skatta á atvinnureksturinn, lækkun vaxta og hagstæðu raungengi og hefur samkeppnisstaðan verið styrkt og rekstrarskilyrðin bætt.
    Í öðru lagi hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðað að því að stuðla að friði á vinnumarkaði með hófsömum kjarasamningum.
    Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin dregið úr atvinnuleysi með beinum aðgerðum. Rekstrartilfærslur og rekstrarútgjöld ríkisins hafa verið lækkuð til að mæta auknum útgjöldum til sérstakra atvinnuskapandi verkefna. Samið hefur verið við sveitarfélögin um framlög til atvinnumyndandi verkefna einnig og það er gert í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég bendi á að opinbert fé hefur verið lagt til fiskeldis og loðdýraræktar núna í tíð þessarar ríkisstjórnar í því skyni að þessar atvinnugreinar geti vaxið aftur um leið og skilyrði batna á erlendum mörkuðum og sem betur fer eru skilyrði að batna t.d. í loðdýraræktinni um þessar mundir.
    Ég þarf ekki að ræða hér um skipasmíðaiðnaðinn. Það höfum við gert áður og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég bendi á samstarf við Háskóla Íslands um rannsóknarstyrki og styrki fyrir námsmenn vegna sumarvinnu. Allt þetta eru aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur beitt til þess að koma í veg fyrir það að atvinnuleysi vaxi hér á landi.
    En það sem skiptir máli er það að við vitum að atvinnuleysi er ekki bundið við Ísland og sem betur fer hefur okkur tekist betur en flestum öðrum þjóðum að fást við þetta vandamál sem hefur verið að eiga sér stað frá árinu 1987 eða þar um bil. Og 1988, 1989 og 1990 var atvinnuleysi að vaxa hér sem auðvelt er að sýna fram á með tölum því að það urðu engin ný störf í einkarekstri, það voru nokkur ný störf, nokkuð mörg að vísu á ákveðnu tímabili í opinberum rekstri en engin ný störf og frekar fækkun starfa í atvinnulífinu á þessum árum. Hins vegar var það mikið framboð af atvinnu að það kom ekki í ljós atvinnuleysi fyrr en síðar. Þetta er auðvelt að sýna fram á og verður vonandi gert síðar í umræðunum.
    Það sem hins vegar sést um leið og við berum okkur saman við það sem hefur gerst annnars staðar er það að Íslendingum hefur gengið betur og af því að hv. þm. Svavar Gestsson var að segja við okkur að við hefðum staðið okkur illa þarf ekki annað en líta til Svíþjóðar og Finnlands í því sambandi. Það er fróðlegt og ég vil benda á að fjármálaráðherrarnir hafa haft samstarf sín á milli, bæði á Norðurlöndum, innan EFTA, milli EFTA og Evrópubandalagsins og innan OECD og það er fróðlegt að líta kannski örlítið á það út á hvað þær viðræður ganga sem þar eiga sér stað. Það er óhætt að fullyrða að almenn samstaða sé á alþjóðavettvangi um þá skoðun að orsakir vaxandi atvinnuleysis séu aðallega tvíþættar. Annars vegar gætir áhrifa efnahagssamdráttar undanfarinna ára. Hins vegar gefur aukið atvinnuleysi undanfarinn einn og hálfan áratug þrátt fyrir aukinn hagvöxt ótvírætt til kynna að vaxandi hluti þess sé kerfisbundið vandamál, þ.e. hverfi ekki þegar atvinnu- og efnahagslífið réttir úr kútnum. Þetta kerfisbundna vandamál er rakið til ýmissa skipulagsbresta í hagkerfinu, svo sem á vinnumarkaði, í skattkerfinu, vinnumarkaðslöggjöfinni, skólakerfinu og í tryggingakerfinu. Það hefur ekki orðið til að bæta ástandið að á síðstu árum hefur halli á ríkisbúskapnum aukist verulega í flestum löndum m.a. vegna efnahagssamdráttarins. Ein afleiðing þessa halla eru háir vextir en þeir hafa síðan dregið úr fjárfestingu fyrirtækja og þar með úr hagvexti. Afleiðingin hefur orðið enn meira atvinnuleysi. Jafnframt hefur slæm staða ríkisfjármála takmarkað svigrúm stjórnvalda til að örva eftirspurn.
    Norðurlöndin að Danmörku frátalinni hafa haft nokkra sérstöðu að því leyti að atvinnuleysi hefur jafnan verið mun minna þar en annars staðar í Evrópu. Þessi staða hefur nú gerbreyst. Þannig er atvinnuleysi í Finnlandi með því hæsta sem mælist í OECD-ríkjunum eða tæplega 20%, en fyrir aðeins fáeinum árum var atvinnuleysi þar á bilinu 2--3%. Á sama tíma komu í ljós alvarlegir brestir á vinnumarkaðnum í Noregi og Svíþjóð en í báðum ríkjunum jókst atvinnuleysi verulega.
    Þessar breyttu aðstæður hafa leitt til mikillar umræðu á norrænum vettvangi. Skyndilega var atvinnuleysisvandinn orðinn að köldum veruleika á Norðurlöndum ekki síður en í öðrum ríkjum Evrópu. Og það eru einmitt þessi mál sem hafa tekið mikinn tíma ráðherranna, ekki síst fjármálaráðherranna að fjalla um og það hafa verið gerðar víðtækar rannsóknir og málið er kannað vegna þess að það er sameiginlegt vandamál en ekki vandamál hvers ríkis fyrir sig þó að auðvitað séu inni í myndinni skilyrði og aðstæður sem gera það að verkum að atvinnuleysi er af þessum toga í þessu landi en kannski af öðrum toga í öðru landi. Þetta verðum við að hafa í huga sem ræðum þetta mál og nú.
    Það var gefin út yfirlýsing forsætisráðherra og fjármálaráðherra Norðurlanda í Maríuhöfn sem ég ætla ekki að rekja efnislega hér. Það sem skiptir miklu máli er að það þurfa að vera ákveðin efnahagsleg skilyrði fyrir hendi. Það eru þau skilyrði sem sú ríkisstjórn sem nú situr hér á landi hefur verið að sækjast eftir. Það er ekkert öðruvísi sem ríkisstjórnin hér er að gera en ríkisstjórnir annars staðar til að koma á þeim almennu aðstæðum sem þurfa að vera fyrir hendi og þá er ég ekki að gera lítið úr nema síður sé þeim sérstöku aðgerðum sem beinast að sérstökum þáttum í efnahags- og atvinnnulífinu, til að mynda vinnumarkaðsaðgerðum sem hér hefur verið lýst nokkuð í morgun.
    Ég ætla að draga saman í örstuttu máli það sem kannski má segja að sé kjarninn í þeim alþjóðlegu viðhorfum til þessara mála sem nú eru helst uppi og ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur fylgst mjög vel með þessum málum, verið á ráðstefnum erlendis og þekkir þetta þess vegna jafnvel og ég sem hef talsvert fylgst með þessari umræðu upp á síðkastið vegna starfa minna og ekki bara á Norðurlöndum heldur í OECD og innan EFTA og á vegum EFTA og Evrópubandalagsins. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur að vera ekki með þau músarholusjónarmið að halda að þetta sé eitthvað sérstakt vandamál hér á landi og eins og sumir hafa jafnvel leyft sér að segja svo að ég vitni nú í ræðu eins af flokksbræðrum hv. 9. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, 1. maí jafnsmekklega og það var orðað, að segja það að atvinnuleysið hér á landi sé skipulögð aðgerð stjórnvalda. Svo smekklegt var það nú eins og hér kom fram beint úr munni hestsins 1. maí sl. ( SvG: Þetta er rétt hjá honum, er það ekki?) Helstu niðurstöðurnar eru þessar:
    1. Atvinnuleysi hefur farið vaxandi undanfarin ár. Verulegur hluti atvinnuleysisins stafar af veilum í uppbyggingu og skipulagi efnahagslífsins, einkum að því er varðar vinnumarkaðinn.
    2. Það eru engar töfralausnir til heldur þurfa stjórnvöld að beita víðtækum og samræmdum aðgerðum þar sem horft er til langs tíma til þess að draga varanlega úr atvinnuleysi.
    3. Mikilvægt er að skapa almenn efnahagsleg skilyrði fyrir auknum hagvexti.
    4. Samstarf og samráð á alþjóðavettvangi er mikilvægt til að skapa almennan skilning á þeim grundvallarforsendum efnahagsstefnunnar sem þurfa að vera til staðar til þess að takast megi að draga úr atvinnuleysi.
    5. Tímabundnar og sértækar atvinnumálaaðgerðir geta verið réttlætanlegar en þær mega ekki grafa undan langtímamarkmiðum efnahagsstefnunnar.
    6. Stjórnvöld þurfa að beita sérstökum aðgerðum til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Lögð er áhersla á að þessar aðgerðir séu almenns eðlis og beinist ekki að einstökum atvinnugreinum eða fyrirtækjum.
    7. Jafnframt eiga stjórnvöld að grípa til markvissra aðgerða til að taka á ýmsum skipulagsveilum á vinnumarkaði. Hér þarf þó að fara að öllu með gát. Mestu skiptir að aðgerðirnar séu virkar, þ.e. að þær geri fólk vinnufært og gjaldgengt á vinnumarkaðinn á nýjan leik. Þær eiga hins vegar ekki að koma í staðinn fyrir atvinnu.
    8. Atvinnuleysisvandinn hverfur ekki af sjálfu sér. Nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi geta verið viðkvæmar og snert fjölmarga þætti þjóðfélagsgerðarinnar sem hingað til hafa þótt heilagar. Þessi staðreynd má hins vegar ekki verða til þess að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins taki ekki á málinu því að hinn kostnaðurinn er enn þá erfiðari, nefnilega aukið atvinnuleysi með öllum þeim efnahagslegu og félagslegu vandamálum sem því fylgir.
    Ég nefni þetta hér af því að mér finnst stundum hv. þingmenn, þar á meðal hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, ekki ræða þetta mál með fullum skilningi á því að þetta mál er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Mér finnst þess gæta í umræðunni að það sé ráðist á stjórnvöld hér á landi og skilningur sé ekki fyrir hendi að þetta vandamál er alþjóðlegt og það krefst aðgerða sem aðrir þekkja og það krefst aðgerða sem eru mjög

erfiðar. Það sem skiptir auðvitað öllu máli er að það náist samstaða í þjóðfélaginu. Það er ekki bara ríkisstjórnin, það eru bæjarstjórnirnar, það eru aðilar vinnumarkaðarins og það er líka stjórnarandstaðan sem verður að eiga þátt því og stilla sínum málum upp með ábyrgum hætti. Aðeins þannig með mjög víðtækri sátt, með víðtækri samstöðu getum við leyst þetta vandamál og það getur vel verið að það taki lengri tíma en okkur grunar. Síst af öllu skulum við falla í þá gryfju að halda að með einföldum loforðum, með kosningabrellum sé hægt að leysa þennan erfiða vanda. Við skulum átta okkur á því að þetta getur tekið tíma, það getur verið sárt og erfitt og við skulum horfast í augu við staðreyndirnar fremur heldur en að falla fyrir þeirri freistingu að segja við fólkið í landinu, segja við kjósendur: Þetta er auðvelt bara ef við getum komist að. Þetta þurfum við að hafa í huga og við skulum frekar rækta samstöðuna í þessum efnum heldur en að haga okkar málflutningi eins og sumir hafa því miður gert. ( SvG: Það er eitthvað til í þessu sem þú ert að segja. Hvar er reglugerðin?) ( Gripið fram í: Hvaða sumir?)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)