Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 10:59:17 (7940)


[10:59]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þessi skýrsla sem hér er til umræðu flytur okkur uggvænlegar staðreyndir. Félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar atvinnuleysis er erfitt að mæla, en það er nú svo að atvinnuleysi er komið á það stig að ég er viss um að allir þingmenn eða flestallir þekkja það af eigin raun, það snertir þeirra fjölskyldu, vinahóp eða kunningja. En fjárhagslegar og þjóðhagslegar afleiðingar er hægt að mæla og þessi skýrsla sýnir að atvinnuleysi átta þús. manna á Íslandi kostar þjóðfélagið um 12 milljarða króna. Það eru þær staðreyndir sem við okkur blasa.
    Það eru þrjú atriði sem ég vil undirstrika varðandi þetta atvinnuleysi. Það er í fyrsta lagi að sætta sig ekki við það með einhverjum samanburðartölum um svartsýnar spár sem segja: Atvinnuleysið hefði orðið 25% ef það hefði ekki verið gert þetta eða hitt. Svona á ekki að nálgast þetta vandamál. 5,5% atvinnuleysi er atvinnuleysi sem á ekki að sætta sig við.
    Í öðru lagi, á meðan atvinnuleysið er staðreynd þá á að huga að því hvernig er hægt að treysta það öryggisnet sem er um atvinnulausa, en því miður er það götótt. Hér hafa verið flutt frumvörp til laga, m.a. af framsóknarmönnum, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, þar sem ætlunin var að styrkja stöðu ýmissa hópa eins og trillusjómanna, vörubílstjóra og fleiri, hópa sem hafa verið nefndir hér sem njóta ekki bóta. Það frv. liggur óafgreitt og ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvað er nákvæmlega fyrirhugað til þess að létta þessum hópum róðurinn.

    Ég vil í þriðja lagi nefna að auðvitað á að beita öllum ráðum til þess að byggja upp atvinnu í landinu og það er borð fyrir báru í því því að atvinnuleysi kostar þegar 12 milljarða kr. Ég las nýlega grein eftir hagfræðing við Háskóla Íslands sem lagði það til að það yrðu lagðir 10 milljarðar kr. inn í hagkerfið til þess að örva eftirspurn. Það var blásið á þetta sem óábyrgt, en ég er í ljósi þessara talna farinn efast um að þetta sé svo óábyrg afstaða. Hvað hefur t.d. verið gert með tillögu hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefáns Guðmundssonar, um að styrkja innflutning á ferskum fiski til þess að veita kannski 2.500 manns atvinnu? Hefur þetta verið skoðað, hæstv. félmrh.? Ég vil leggja þá spurningu fyrir.
    Það hafa verið nefnd fjölmörg atriði sem gætu komið til liðs við að byggja upp atvinnulífið. Opinberar framkvæmdir eru góðra gjalda verðar þó að þær séu skammtímalausn, en það fjármagn sem hefur verið lagt fram í þessu skyni hefur komið seint inn til atvinnuuppbyggingar. Milljarðurinn margfrægi, sem var lagður fram í þessu skyni, voru mest gamlar heimildir upp á 600 millj. sem ekki höfðu verið notaðar. Það er tregða að hrinda þessum málum fram hvað sem hæstv. fjmrh. segir og hélt hann mikla varnarræðu hér áðan. Það þarf að taka betur á í þessum málum. Það er auðvitað athyglisvert að heyra hæstv. fjmrh. segja það að kosningaloforð gildi ekkert í þessu skyni. Þeir eru sennilega ónýtir þessir lyklar sem verið er að veifa hér og á hann kannski við það, hæstv. fjmrh. ( GJH: Það er ekkert skegg á þeim.) Það er ekkert skegg á þeim, upplýsir hv. 15. þm. Reykv. Það eru ónýtir lyklar.
    En það er nú svo að viljinn dregur hálft hlass í þessum efnum og ég efast ekki um vilja hæstv. félmrh. og raunar ekki um vilja ráðherranna til að taka á í þessu máli. Þetta gengur bara allt of seint. Hæstv. fjmrh., sem talaði hér áðan, er allt of fastur í einhverjum samanburði við svartsýnar spár sem Alþýðusamband Íslands hafði sett fram fyrir einhverjum árum um 25% atvinnuleysi. 5,5% atvinnuleysi er ólíðandi. Átta þús. manns eru atvinnulausir. Ég efast ekki um vilja hæstv. félmrh. heldur til að leysa þessi mál, en hefur hæstv. félmrh. hugað að þeim tillögum sem komið hafa fram um t.d. innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnvarningi og þeirri hugarfarsbreytingu, hafa forustu um herferð í þessu skyni? Og ég endurtek: Hefur tillaga hv. 4. þm. Norðurl. e. varðandi sjávarútveginn verið athuguð? Hefur það verið athugað að greiða fyrir aðgangi að fjármagni fyrir sjávarútveginn til aukinnar fullvinnslu á fiski í landinu, sem er kannski sú langtímalausn í atvinnumálum sem nærtækust er því að þar höfum við þó eitthvað að bjóða? Hefur verið hugað að því við þessar aðstæður að endurskoða það kerfi sem er uppi gagnvart landbúnaðinum? Ég hef ekki heyrt um slíkt, ekki frá hálfu Alþfl. Þar hafa verið uppi raddir um það að hella landbúnaðinum út í óheftan innflutning þannig að hann dragist verulega saman frá því sem nú er. Þannig að það er margt hægt að gera í þessum málum og jafnvel þó að ég efist ekki um það að vilji sé fyrir hendi hjá hæstv. ráðherrum. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherrar vilji hafa atvinnuleysi í landinu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, en það þarf bara að taka betur á til úrbóta í þessu efni og vera opnari fyrir þeim tillögum, sem m.a. hafa komið frá stjórnarandstöðunni í vetur, um úrbætur, margar mjög athyglisverðar. Það á ekki að blása á það allt.
    Það vildi ég hafa mín síðustu orð og í öllum guðanna bænum, við skulum ekki fara að kenna fólki að vera atvinnulaust í því skyni að þetta sé ástand sem eigi að gilda um alla framtíð á Íslandi. Við eigum að kenna fólki að þola atvinnuleysið. Við eigum að efla og styrkja það öryggisnet sem er um atvinnulausa, en við eigum ekki að ganga að þessum málum með því hugarfari að atvinnuleysi sé staðreynd sem við eigum að sætta okkur við og koma upp skólum í samræmi við það eins og hefur sést í ræðu og riti frá ýmsum frjálshyggjumönnum og frjálshyggjupostulum hér á landi. Það eru mín varnaðarorð í þessu efni.