Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:29:01 (7946)


[11:29]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst að í þessari umræðu hafi á margan hátt verið ómaklega vegið að ríkisstjórninni. Því er haldið fram að hún hafi ekkert gert í atvinnumálum og hún hafi ekkert gert í vinnumarkaðsaðgerðum. Þetta er auðvitað rangt. ( Gripið fram í: Hefur atvinna aukist?) Hv. þingmenn vita það að ríkisstjórnin hefur lagt verulega fjármuni í atvinnuskapandi aðgerðir, m.a. í samgöngumálum. Og hv. þingmenn vita það að ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa vinnumarkaðsaðgerða og þegar um það er spurt hér hvað félmrh. vilji gera varðandi þær tillögur sem eru lagðar fram í þessari skýrslu og m.a. bent á fskj. 3 þar sem er yfirlit yfir vinnumarkaðsaðgerðir á Norðurlöndum, þá er það svo að ýmsar af þeim aðgerðum sem þarna er bent á hafa ýmist komið til framkvæmda eða eru í undirbúningi. Þar er verið að tala um vinnumiðlunarátak. Ég nefndi að það er frv. fyrir þinginu um vinnumiðlun sem bætir verulega þjónustu við atvinnulausa og sem styrkir verulega vinnumiðlanirnar í landinu og ég er sammála hv. þm. Svavari Gestssyni að það mál hefði átt að hafa forgang hér á Alþingi umfram mörg önnur mál ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið gert atvinnuátak eins og fram kemur hér sem felur í sér atvinnusköpun hvort sem um er að ræða varanleg störf eða tímabundin. Ég minni hér á atvinnuátak ríkis og sveitarfélaga. Það er talað um starfsmenntunarátak. Þessi ríkisstjórn hefur gert verulegt átak í starfsmenntamálum þar sem 10 þúsund manns hafa notið góðs af starfsmenntun. Frumkvöðlastyrkir eru hér nefndir. Það er gert ráð fyrir því í nýrri reglugerð um úthlutun styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði og átak í atvinnumálum fatlaðra er hér nefnt og ég nefndi að það lægju á mínu borði tillögur þar að lútandi.
    Varðandi það sem er nefnt hér um námsatvinnu, deildar stöður og vinnuskipti þá hefur það þegar verið framkvæmt og þyrfti að gera meira af því og svo mætti lengi telja.

    Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hvað eigi að gera við fólk sem kemur úr námi, fær ekki bætur og fær ekki vinnu. Hvað á að gera við konur sem koma úr fæðingarorlofi og fleira nefndi hann í því sambandi, langtímaatvinnulausa. Það er verið að vinna að þessu, hv. þm. Það er nefnd að störfum sem er að skoða bóta- og þjónustukerfi atvinnulausra. Hún hefur starfað í 1--2 mánuði. Henni var gefinn skammur tími og hún mun skila af sér innan skamms, væntanlega í þessum mánuði. Þetta er viðamikið verkefni sem þessi nefnd fékk og hún mun skila af sér í þessum mánuði og gera tillögur varðandi þetta fólk og ég deili áhyggjum með hv. þm. um að það þarf að taka á máli námsmanna sem eru að koma úr námi og hafa ekki bótarétt og fá ekki vinnu. Mér finnst menn fara mjög frjálslega með tölur þegar verið er að tala um atvinnuleysi. Það er talað um 8, 9 og 10 þúsund manns. Staðreyndin er sú sem ég nefndi í minni framsögu að það er áætlað að atvinnuleysi hafi verið í aprílmánuði um 5,6%, sem er um 7 þúsund manns og ég er sannfærð um að það er minna í þessum mánuði þannig að mér finnst alveg óþarfi að menn séu að bæta við, það er nógu mikið atvinnuleysi þó að það sé ekki verið að bæta á það í tölum. Hér er talað um 17% atvinnuleysi skólafólks sem mælist í könnun Hagstofunnar. ( SvG: Ekki skólafólks. Ungs fólks.) Það var talað um skólafólk líka. Inni þeim tölum er fólk sem er að leita sér að vinnu og mælist í könnunum Hagstofunnar en er í námi. Og t.d. telja Danir ekki með atvinnulaust námsfólk inni í sínum tölum eða fólk sem er á námskeiðum. Ég vil nefna í lokin að það liggur fyrir reglugerð um sjálfstætt starfandi sem rýmkar verulega rétt vörubílstjóra og fleiri sem hér hafa verið nefndir. Það er samstaða um það milli fjmrn. og félmrn. Sú reglugerð liggur fyrir. Atvinnuleysistryggingasjóðsstjórnin þarf einungis að fara yfir þá reglugerð. Samkvæmt lögum er hún umsagnaraðili í því þannig að það á ekki að standa á því að hún verði gefin út.
    Ég vil nefna það í lokin, virðulegi forseti, að ég tel mjög brýnt að koma á sérstakri vinnumálastofnun sem verið er að vinna að og er í undirbúningi og hefur verið í undirbúningi á undanförnum mánuðum í félmrn. Þar þarf að samræma alla þætti vinnumarkaðsmála og skipuleggja vinnumarkaðsaðgerðir og viðbrögð við atvinnuleysi eftir því sem ástandið hverju sinni kallar á. Í þessari vinnumálastofnun sem er í undirbúningi á að fara fram rannsókn á atvinnuleysi. Þar á að samþætta þætti vinnumála eins og starfsmenntun, eftirlit með vinnumiðlunum, skráningu atvinnuleysis, atvinnumál útlendinga og veita almenna ráðgjöf og síðan framkvæmd atvinnuleysisbóta og réttindi atvinnulausra. Ég tel að með þeim hætti séum við með stofnun slíkrar vinnumálastofnunar betur í stakk búin til þess að taka á atvinnuleysinu, bæði að bregðast við því og eins að veita betri ráðgjöf og þjónustu við atvinnulausa. ( JónK: Afstaða um innflutning á fiski?)