Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 12:56:00 (7953)


[12:56]

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði að vísu vænst þess að hæstv. utanrrh. mundi taka til máls. Hæstv. forsrh. hefur hins vegar lýst mjög ítarlega afstöðu ríkisstjórnarinnar og ég skil það þá á þann veg að það sé ekki ágreiningur milli ráðherranna um þá afstöðu. Í sjálfu sér fagna ég því að hæstv. utanrrh. skuli ekki sjá ástæðu til þess að taka til máls og lýsa öðrum viðhorfum. Það hljómar kannski dálítið undarlega því að almennt hafa stjórnarandstöðuflokkar áhuga á því að komast að ágreiningi milli ráðherra innan ríkisstjórnar en í þessu máli finnst mér vænlegra að hæstv. utanrrh. telji það nægilegt að hæstv. forsrh. lýsi afstöðunni á þann veg.
    Það er vissulega mikilvægt að ekki sé ágreiningur um þau viðhorf innan ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsrh. lýsti og tel ég það veigamikla niðurstöðu af þessari umræðu. Eins og ég sagði í andsvari við ræðu hæstv. forsrh. þá tel ég að þau viðhorf sem hann lýsti hér geti að mörgu leyti myndað ágætis grundvöll að umfjöllun þingflokkanna í sumar um höfuðatriðin í viðræðum Íslands og Evrópusambandsins um tvíhliða samning.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. hefur tímasett heimsókn sína til Brussel 15. júlí og vona að utanrmn. gefist kostur á því í aðdraganda þeirrar heimsóknar að fara nánar yfir þau atriði sem hér hafa verið rædd og koma til álita þegar ákveðið verður um framtíðarskipan samskiptanna þegar EES-samningurinn hættir að gilda. Auðvitað getur það verið rétt sem hér hefur verið bent á að ekki er hægt að slá því föstu á þessu stigi að öll EFTA-ríkin muni samþykkja niðurstöður samninganna og ganga í Evrópusambandið um áramót. Ef eitt þeirra, líklegast Noregur, fellir það, þá tel ég engu að síður að það sé alvarlegt umhugsunarefni fyrir íslensk stjórnvöld hvort æskilegt sé að vera innan Evrópska efnahagssvæðisins með Noregi eingöngu, sérstaklega ef Noregur verður í Evrópska efnahagssvæðinu eftir naum úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Það er líklegt að norsk stjórnvöld muni þá á næstu árum haga sér þannig í samstarfi við Evrópusambandið að nánast nota Evrópska efnahagssvæðið sem algera aðlögun að því sem gildir innan sambandsins og hafa þess vegna allt aðrar áherslur en Ísland og ef ríkin eru eingöngu tvö, þá getur orðið mjög þröngt um það tillit og samráð sem talað var um að gæti átt sér stað á vettvangi EFTA þegar fleiri ríki væru þar til staðar og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er þess vegna eitt af því sem þarf að hugleiða þar til menn vita niðurstöðuna og gott er nú að koma undirbúinn, ef niðurstaðan verður á þann veg að Noregur hugsanlega felli aðildarumsóknina, hver afstaða okkar verður í því tilviki.
    Varðandi úttekt Háskóla Íslands þá hef ég áður lýst efasemdum mínum um það að þeir ágætu fræðimenn sem þar eru séu í stakk búnir til þess að segja okkur eitthvað nýtt um þessi efni og ég vek nú athygli á því að fyrir utan prófessor Stefán Má, þá er mér ekki kunnugt um að það sé neinn sérfræðingur innan viðskiptadeildar, lagadeildar eða félagsvísindadeildar á þessu sviði, kannski því miður. Innan Háskóla Íslands hefur ekki verið þróuð sérstök þekking í þessum efnum. Þeir fræðimenn sem aðeins hafa fjallað um þetta hafa gert það meira sem áhugamenn og hafa ekki lagt mikinn tíma eða mörg ár í að koma sér upp þeirri þekkingu á þessum málum sem margir fræðimenn í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu hafa gert. Evrópufræðin innan félagsvísindanna, og á ég þar bæði við þau sem eru innan félagsvísindadeildar og viðskiptadeildar, hafa ekki átt sér marga liðsmenn innan íslensku fræðistofnanna. Hins vegar hefur í mörgum löndum um nokkra áratugi verið stundað slíkt fræðastarf en það finnst ekki hér á Íslandi. Mér finnst þess vegna vera nokkuð villandi að gefa það til kynna að Háskóli Íslands sé í stakk búinn til að geta látið í té einhverjar sérstakar athuganir á þessum málum. En það hefur hins vegar vakið athygli mína að háskólinn var ekki beðinn, og ég bið nú hæstv. ráðherra að veita því athygli, um hugmyndir eða álitsgerðir varðandi það form sem tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins gætu tekið á sig og það finnst mér nokkuð sérkennilegt varðandi óskina að hún var of einhæf og þröng og ég bið nú ráðherrann að athuga það ef þeir enn þá eru í viðræðum við háskólann um þessa ráðgjöf að bæta við óskina lýsingu á hinum ýmsum formum sem tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins gætu tekið á sig.
    Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að það hefur ekkert breyst sem ekki var hægt að sjá fyrir fyrir tveimur árum síðan. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. Það var líka afstaða Alþb. í júnímánuði 1992 þegar við staðfestum niðurstöðu okkar í þessum málum. Og eins og ég lýsti í upphafsræðu minni í dag þá hefur atburðarásin sýnt það að greiningin sem við settum fram fyrir tveimur árum hefur reynst vera rétt. Það er ekkert í atburðarásinni hingað til sem kemur okkur í Alþb. á óvart og ekki var um rætt í umfjöllun okkar um þessi mál í aðdraganda samþykktar okkar í júnímánuði. Það skilur hins vegar eftir spurninguna um það hvernig eigi að túlka tilvísun hæstv. utanrrh. í sjónvarpsfréttum nýlega til Galíleós þar sem hann hélt því fram að þrátt fyrir slíkar fullyrðingar um að ekkert hefði beyst, þá væri nú atburðarásin samt sem áður að snúast áfram og gaf þar með til kynna að um grundvallarbreytingar hefði verið að ræða. Ég ætla hins vegar ekki að elta uppi þær yfirlýsingar. Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur í dag komið einhuga til þingsins um þessi mál og sú afstaða sem hæstv. forsrh. lýsti hér sé afstaða ríkisstjórnarinnar. Þessi mál eru að mínum dómi allt of alvarleg til þess að það eigi að stuðla að því að ágreiningur sé milli flokkanna og ef þessi umræða í dag hefur leitt það í ljós að minna bil er á milli manna heldur en ætla hefði mátt, þá fagna ég þeirri niðurstöðu.