Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 13:39:24 (7956)


[13:39]
    Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég heyri á forseta að gert er ráð fyrir að það verði atkvæðagreiðslur kl. tvö eða svo og miðað við það sem ég þarf að segja í þessu máli þá munu þær mínútur sem eru til stefnu fram að þeim tíma ekki endast mikið til að taka á því viðamikla máli sem hér er til umræðu, sem er frv. til laga um friðun, vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ég hef ekki rætt þetta mál síðan það var í 1. umr. í þinginu, utan lítillega í andsvörum við 2. umr., og var nú að vænta þess þá að menn næðu saman um þetta efni og raunar þó fyrr hefði verið. En eins og kunnugt mun vera hér í þingsölum og reyndar utan þeirra líka, þá hafa gerst margháttuð tíðindi í tengslum við þetta mál sem eru þess virði að vera rædd hér, þó ekki væri nema sem víti til varnaðar fyrir þá sem eru að flytja stór og viðamikil frumvörp inn í þingið og leita eftir stuðningi við þau af hálfu stjórnvalda. Í þessu tilviki af hálfu hæstv. umhvrh., öðrum umhvrh. Alþfl. sem starfar og umhvrh. nr. þrjú í röðinni frá því að ráðuneyti umhverfismála var sett á laggirnar og mun þetta mál vera komið hér fram í þriðja sinn.
    Það kom sem sagt fram stjfrv. í haust sem við ræddum þá og var vísað til umhvn. og nefndin tók til við það mál eins og önnur af dugnaði undir ötulli formennsku og leitaði umsagna um málið. Síðan var þetta mál á dagskrá mánuðum saman í nefndinni þar sem farið var yfir umsagnir og rætt við fjölda aðila um málið. En þá gerðust þau tíðindi í málinu þann 16. mars, þegar nefndin var komin vel á veg í sínum málatilbúnaði og sá í land, menn eygðu land í sambandi við afgreiðslu málsins í nefndinni, að þá barst erindi frá hæstv. umhvrh. til nefndarinnar. Það er rétt að ég kynni það hér svo að menn átti sig á hvert verið er að fara, með leyfi forseta:
    ,,Efni. Tillögur um breytingar á frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum.
    Ráðuneytið óskar eftir því að hv. umhvn. geri eftirfarandi breytingar`` --- þetta er nú ekki rétt orðað einu sinni --- ,,geri eftirfarandi breytingar verði á frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum sem nefndin hefur til umfjöllunar. Í stað orðsins ,,veiðistjóraembættinu`` í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. komi: Fuglaverndarfélagi Íslands.
    Í öðru lagi. 1.--5. mgr. 4. gr. falli brott og í stað þeirra komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
    ,,Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum, sbr. VI. kafla. Náttúrufræðistofnun Íslands leiðbeinir þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Stofnunin getur með leyfi ráðherra gerst aðili að rekstri hundabús sem rekið er af öðrum en ríkinu til ræktunar og þjálfunar minkaveiðihunda.``
    Í þriðja lagi. Í 12., 13., 14. og 17. gr. falli orðið veiðistjóraembætti niður og í staðinn komi Náttúrufræðistofnun Íslands. (Breytingu þessa þarf að gera á 4. málsl. 1. mgr. 12. gr., 1. málsl. 3. mgr. 12. gr., 3. málsl. 3. mgr. 12. gr., 2. málsl. 4. mgr. 12. gr., 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 13. gr., 1. og 4. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 17. gr.) Í stað orðsins ,,veiðistjóri`` í 3. og 4. mgr. 14. gr. komi: fulltrúi Náttúrufræðistofnunar.
    Í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að flytja ríkisstofnanir frá Reykjavík út á landsbyggðina hefur umhvrh. ákveðið að embætti veiðistjóra verði flutt frá Reykjavík til Akureyrar. Jafnframt hefur ráðherra látið kanna möguleika á því að sameina embættið og Náttúrufræðistofnun Íslands með hliðsjón af lögum nr. 60/1994, sem kveða á um að stofnunin skuli vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla og leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda. Það er ljóst að töluverð skörun er á starfssviði þessara tveggja stofnana, sérstaklega hvað varðar fugla og rannsóknir samkvæmt 4. gr. frv. Með því að sameina þessar tvær stofnanir má styrkja rannsóknastarfsemina, gera aðgerðir sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð villtra dýra skilvirkari og bæta nýtingu fjármuna. Í tillögum ráðherra um sameiningu stofnana er byggt á skýrslu um embætti veiðistjóra sem Kristinn H. Skarphéðinsson og Sigurður Rúnar Sigurjónsson hafa unnið að hans ósk. Í skýrslunni er lagt til að sérstök veiðideild verði stofnuð við setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri sem annist þau verkefni sem gert er ráð fyrir að embætti veiðistjóra fari með

samkvæmt frv. að rannsóknum undanskildum. Rannsóknirnar verði hluti af annarri rannsóknastarfsemi Náttúrufræðistofnunar.
    Í 7. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur, er heimild til þess að deildaskipta setrum Náttúrufræðistofnunar og í 16. gr. laganna er gert ráð fyrir því að ráðherra ákveði deildaskiptinguna í reglugerð. Með tilsjón af þessum lagaákvæðum þykir ekki rétt að nefna fyrirhugaða veiðideild sérstaklega í nýjum lögum um vernd, veiðar og friðun villtra dýra. Eðlilegra þykir að fela Náttúrufræðistofnun hlutverk veiðistjóra og kveða á um skipulag og framkvæmd í reglugerð um stofnunina.
    Sú breyting er einnig lögð til við 4. gr. frv. að Náttúrufræðistofnun verði heimilt með leyfi ráðherra að gerast formlegur aðili að hundabúi sem rekið er af öðrum en ríkinu í stað heimildar til að reka hundabú. Slík aðild getur verið með ýmsum hætti samkvæmt samningi, t.d. í formi aðstoðar við þjálfun eða leiðbeiningar við ræktun án endurgjalds. Samkvæmt gildandi lögum og frv. þessu hafa sveitarstjórnir umsjón með minkaveiðum og ráðningu veiðimanna. Eðlilegt þykir að þessir aðilar meti þörf fyrir veiðihunda og hafi frumkvæði að ræktun og þjálfun hunda. Unnið er að lokafrágangi fyrrnefndrar skýrslu um embætti veiðistjóra og verður skýrslan send hv. umhvn. innan fárra daga.`` Fyrir hönd ráðuneytisins. Ingibjörg Ólafsdóttir undirritar fyrir hönd ráðherra.
    Tilvitnun lýkur í þetta málsskjal sem dagsett er 16. mars sl.
    Þegar málið lá hér fyrir til 2. umr. og afgreiðslu með jákvæðum hætti varðandi efni hins upphaflega frv. þá lá enn jafnframt fyrir brtt. þar sem tilteknir fulltrúar í umhvn., fulltrúar stjórnarliðsins, sem við köllum svo, að frátöldum einum þingmanni, hv. þm. Tómasi Inga Olrich, sem myndaði minni hluta nefndarinnar og skar sig úr hópnum og stóð ekki að nefnaráliti og áskildi sér rétt til að fara eftir eigin sjónarmiðum eða öðrum sjónarmiðum en meiri hlutinn varðandi afgreiðslu tillagna, einnig þeirra tillagna sem menn höfðu talið að samstaða væri um í nefndinni. Við 2. umr. málsins, áður en hæstv. umhvrh. fór erlendis, þar sem hann mun vera staddur enn og er nú líklega dvöl hans orðin á aðra viku, án þess að ég hafi talið dagana, þá voru það síðustu orð hæstv. ráðherra þegar hann varði þessa sprengju sem hann lagði inn í umhvn. með því bréfi sem ég hef vitnað hér til, að hvað svo sem liði afdrifum þessara tillagna, sem síðan voru dregnar til baka af flutningsmönnum, þá skyldi nú vilji ráðherrans um flutning veiðistjóraembættisins fram ganga og að engu höfð sjónarmið annarra heldur en hans sjálfs í þeim efnum. Norður skyldi stofnunin hvað sem liði öllum aðstæðum og miðað við þá forsögu máls sem þessi ákvörðun ráðherrans tengdist, sem hann mun hafa kynnt þann 6. jan. sl., að öllum aðilum máls að heita má óviðbúnum vegna þess að ekki hafði verið talað orð við þá sem málið snerti mest, starfsmenn viðkomandi stofnunar, ekki orð, og brotin þau sjónarmið og fyrirheit í sérstakri starfsnefnd þingflokka fyrir hönd ríkisstjórnar sem fjallaði um flutning ríkisstofnana þar sem mjög skýrt er kveðið á um hvaða sjónarmið skuli viðhöfð í því efni.
    Ég tel nauðsynlegt hér við 3. umr. málsins, virðulegur forseti, vegna þess að ég hef ekki rætt þetta mál síðan við 1. umr. utan stutt orðaskipti í andsvörum, að fara yfir þennan þátt málsins sem enn stendur með þeim hætti sem ráðherra skildi við það að því er varðar flutning embættisins og gera þinginu grein fyrir því hvernig ég lít á það mál og hvernig það mál var kynnt eða lá fyrir umhvn. eftir samtöl við hlutaðeigandi aðila ýmsa. Ég tel þetta mál það alvarlegt, og bið hæstv. starfandi umhvrh. að leggja þar við hlustir, ég tel þetta mál af hálfu ráðuneytis umhverfismála það alvarlegt að það sé óhjákvæmilegt að fram fari rannsókn, formleg rannsókn af hálfu þingsins á aðdraganda þessa og málavöxtum öllum. Og þó að ekki séð ráðrúm til þess hér og nú á þessum síðustu starfsdögum eða starfstímum þessa þings að ræða það ítarlega og leggja fyrir tillögur þar að lútandi, þá mun ég beita mér fyrir því strax og nýtt þing kemur saman að fram fari á vegum þingsins sérstök rannsókn á vinnubrögðum ráðuneytisins í sambandi við ákvörðun ráðherrans um að flytja veiðistjóraembættið, ef marka má ummæli ráðherrans, í annan landshluta. En það er svo annað mál út af fyrir sig og hér er ég eingöngu að tala um þau fádæma vinnubrögð og alls óþekktu mér vitanlega í íslenskri stjórnsýslu sem liggja þar að baki og sem gerðust í tengslum við þetta efni.
    Hv. þm. Jón Helgason, sem talaði hér við 2. umr. málsins en hefur haft fjarvist frá fundum hér að undanförnu, fór dálítið yfir þetta efni og talaði býsna skýrt í málinu án þess þó að rekja í einstökum atriðum málavexti og gang mála þó að hann dræpi á það. Hann tók mjög fast til orða, sá hv. þm., sem ég held að flestir þekki að því að gæta hógværðar í málflutningi hér í þinginu. Það máttu allir skynja sem á hans mál hlýddu að honum var misboðið, svo ég segi ekki ofboðið, að því er varðaði vitneskju okkar í umhvn. um bakgrunn þessa máls og þau fádæma vinnubrögð sem þar liggja að baki.
    Það er ekki fyrr en á elleftu stundu við 2. umr. málsins að hæstv. umhvrh., þrátt fyrir margítrekaða hvatningu jafnt af stuðningsliði sínu innan stjórnarliðs hér á Alþingi sem og af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, hafði áhrif á þetta, að þeir hv. þingmenn og nefndarmenn í umhvn., sem gengu erinda ráðherrans og fluttu þá brtt. sem ráðherrann hafði óskað eftir með bréfi til nefndarinnar 16. mars sl., drógu þá tillögu til baka. Og það er gert undir því formerki að ráðherrann segir: Ég sem þyrfti að afla mér lagaheimildar til þess að geta lagt saman veiðistjóraembættið við setur Náttúrufræðistofnunar Íslands mun ekki beita mér fyrir því sérstaklega, en ég skal sjá til þess að vilji minn nái fram að ganga varðandi flutninginn. Þannig skildi hæstv. ráðherra við málið hér gagnvart Alþingi Íslendinga.
    Í þessu máli, virðulegur forseti, hafa gerst þeir atburðir sem ég mun rekja hér frekar eftir að málið er tekið hér fyrir eftir að því yrði frestað en ég vil aðeins áður en að því kemur, virðulegi forseti, nefna örfá atriði önnur sem tengjast þessu máli um leið og ég minni á brtt. sem ég hef flutt hér við 3. umr. ásamt

hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og er að finna á þskj. 1297.
    Af hálfu umhvn. þingsins var unnið að ég tel einarðlega, efnislega og málefnalega í þessu flókna máli ef frá eru talin þau atriði, þær truflanir sem stöfuðu af íblöndun hæstv. umhvrh. inn í störf nefndarinnar með því erindi sem ég hef hér rakið. Þannig skilaði meiri hluti umhvn., öll nefndin að frátöldum einum stjórnarþingmanni sem taldi sig í grundvallaratriðum vera ósammála öðrum nefndarmönnum og sá ástæðu til að skila sérstöku nál. án þess samt að gera nokkrar sjálfstæðar brtt. við frv., þar á ég við hv. þm. Tómas Inga Olrich, fyrir utan það skilaði nefndin heildstæðu áliti og samstæðum tillögum nema um eina grein sem varðaði friðun og veiðar á selum. Það mál er lagt hér fyrir við 2. umr. og það eru tillögur af hálfu nefndarinnar. Síðan gerðist það í framhaldi af umfangsmikilli umræðu sem fór fram við málið við 2. umr. að af hálfu umhvrn. er hlutast til um það að enn verði farið að breyta frv. frá því sem áður var gert ráð fyrir og fyrir þinginu liggja á sérstöku þingskjali, sem er nr. 1267, brtt. í fimm tölusettum liðum sem umhvrn. óskaði eftir að koma á framfæri við nefndina, þeir fulltrúar umhvrn. sem hafa haft hér daglega viðkomu í þinginu á undanförnum vikum og mánuðum og setið hér yfir og undir umræðum um málið komu á framfæri við nefndina og óskuðu eftir, þar á meðal breytingu á 12. gr., algjörri umorðun á 12. gr. sem ekki gekk til atkvæða við 2. umr. þar sem það var dregið til baka. Einnig breytingar sem mega með vissum hætti flokkast undir tæknilegar breytingar, en sett var fram gersamlega að þarflausu af hálfu umhvrn. og þeir hv. þm. sem nú kalla sig meiri hluta umhvn. og skrifa upp á þessar tillögur fóru að vilja ráðuneytisins að þessu leyti. Mér finnst þetta nú ekki vinnubrögð til þess að hjálpa til við það hér á Alþingi að koma þessu máli í höfn til viðbótar við það sem áður hafði gerst í málinu.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að í þessu máli ber hæstv. umhvrh. --- því auðvitað er það hann sem ræður hvað sem líður vilja starfsmanna hans sem hafa flutt hans erindi hér, starfsmanna sem eru sumpart komnir yfir í aðrar stofnanir en virðast sinna þessu sem alveg sérstöku aukaverkefni að fylgja þessu máli eftir hér, þá hefur ráðuneytið lagt sig í líma um það að spilla þeirri ágætu, málefnalegu vinnu sem fram fór innan umhvn. í málinu með því að vera að grípa upp sérsjónarmið sem heyra má í röðum þingmanna og eiga auðvitað fullan rétt á sér sem sjónarmið hér inni í þingsölum og verið er að taka undir með brtt. við 3. umr. málsins. Þetta eru ekki vinnubrögð sem staðið er að af þeim sem einhverja reynslu hafa af störfum hér á Alþingi. Ef þetta er ekki vitandi vits af hálfu ráðuneytisins verið að bregða fæti fyrir eigin verk, þá eru þessi vinnubrögð a.m.k. eins heimskuleg og þau geta verið, ef menn ætluðu að stuðla að því að ná hér fram lagabótum í flóknu og að mörgu leyti viðkvæmu máli sem varðar mjög marga. Ég lýsi því yfir, virðulegur forseti, að ég harma þessi vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins. Það er mér með öllu óskiljanlegt hvernig ráðuneytið hefur lagt þessi mál fyrir þingið og með hvaða hætti það er að hlutast til um störf þingsins eftir að málið er komið inn í þingnefndir. Ábyrgðin á afdrifum þessa máls hér í þinginu, hver sem þau verða, er fyrst og fremst ráðherra umhverfismála, hæstv. umhvrh. og þeirra sem hafa verið að blanda sér í þetta mál eftir að málið kom hér inn til þingsins. (Forseti hringir.)
    Ég mun, virðulegur forseti, um leið og ég fúslega geri hér hlé á ræðu minni frekar í umræðunni gera rækilega grein fyrir því sem hér hefur gerst í þessu máli og tengist tillögum umhvrn. varðandi veiðistjóraembættið, þau fráleitu vinnubrögð og óþekktu vinnubrögð að mínu mati og eftir minni vitneskju í því efni af hálfu hæstv. umhvrh. og því sjónarmiði sem ég hef þegar kynnt hér að það sé óhjákvæmilegt að fram fari opinber rannsókn af hálfu þingsins á þessari embættisfærslu þegar við fyrstu hentugleika og væntanlega þegar nýtt þing kemur saman. --- Ég fresta máli mínu, virðulegi forseti.