Stjórn fiskveiða

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:15:39 (7959)

[14:15]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða eru eitthvert mikilvægasta mál sem Alþingi afgreiðir á þessu kjörtímabili. Hér er verið að móta sjávarútvegsstefnu næstu ára. Skiptir því miklu að vel takist til. Þær breytingar sem hér eru gerðar eru flestar til bóta en ganga of skammt, einkum hvað varðar krókaleyfis- og aflamarksbáta, svo og takmörkun á sölu og leigu á óveiddum fiski. Enn fremur tel ég að lög um stjórn fiskveiða eigi að taka bæði til veiða og vinnslu og að m.a. þurfi að stemma stigu við því að fiskvinnslan færist út á sjó í meira mæli en nú er, en á síðasta ári voru 23% heildarbolfiskaflans fryst um borð í fullvinnsluskipum. Þessum skipum fjölgar stöðugt og afleiðingin er aukið atvinnuleysi fiskvinnslufólks, vannýtt fjárfesting í fiskvinnsluhúsum, samdráttur hjá þeim sem veita fiskvinnslunni þjónustu, tekjusamdráttur sveitarfélaga og auknar greiðslur atvinnuleysisbóta, jafnframt því sem heildarverðmæti sjávaraflans dregst saman. Aukin sjóvinnsla vinnur gegn því markmiði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Að framansögðu treysti ég mér ekki til að standa að því frv. sem hér er til afgreiðslu og greiði ekki atkvæði.