Þróunarsjóður sjávarútvegsins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:22:22 (7962)

[14:22]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er til atkvæða tillaga okkar stjórnarandstæðinga um að þessu máli verði vísað frá, vísað til ríkisstjórnarinnar og þess í stað verði sett á laggirnar nefnd í sumar sem hafi það verkefni að endurskoða í heild sinni þau ákvæði sem gilda um úreldingar og hagræðingar og þróunarmál sjávarútvegsins sem og verði frv. til laga um breytingu á Verðjöfnunarsjóði vísað til endurskoðunar með sambærilegum hætti.
    Það er skemmst frá því að segja að í allri vinnu sjútvn. að þessu máli um hinn svokallaða Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem er hið argasta rangnefni, hafa ekki gefið sig fram í raun og veru neinir stuðningsmenn málsins óbreyttri mynd og hafa þó tugir aðila komið til viðræðna við sjútvn. eða sent henni umsagnir út af þessu máli þannig að það er alveg ljóst að frv. á sér í raun og veru ekki aðra stuðningsmenn í gervöllu þjóðfélaginu en þá stjórnarsinna sem ætla að greiða því atkvæði hér. Þeim væri því mestur greiði gerður sem og sjávarútveginum að því væri vísað frá og það tekið til meðferðar með þeim hætti sem við leggjum til.