Þróunarsjóður sjávarútvegsins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:29:14 (7964)


[14:29]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er samkvæmt 6. gr. frv. lögð til gjaldtaka sú sem fræg er orðin og hefjast á síðla árs 1996, en þá skal upp taka sérstakt gjald á hverja úthlutaða þorskígildislest sem nemur a.m.k. 1.000 kr., eins og segir í hinum fræga texta og ýmsir kannast við sé ég er. Það er margra manna mat að í þessu felist upphaf að upptöku auðlindaskatts og einnig er á það að líta að frágangur þessa atriðis tæknilega í frv. er með miklum endemum og í raun og veru óbrúklegt að afgreiða það eins og það er. Hér er á ferðinni niðurstaða af hrossakaupum stjórnarflokkanna, fremur ógeðfelldum svo ekki sé meira sagt. Með vísan til alls þessa þá erum við þingmenn Alþb. algjörlega andvígir þessu ákvæði frv. og munum greiða atkvæði gegn því.