Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:41:55 (7967)


[14:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því að ríkissjóður geri upptækar eignir Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins þar sem þær standa eftir ómerktar fyrirtækjum og skulu þær renna til að kosta ríkisreksturinn. Þessari eignaupptöku erum við stjórnarandstæðingar andstæðir burt séð frá því hvað verður um málefni Verðjöfnunarsjóðsins að öðru leyti og sömuleiðis má segja að allir helstu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi af eðlilegum ástæðum mótmæla því að sjóður sem sjávarútvegurinn hefur myndað með inngreiðslum á undangengnum árum sé gerður upptækur með þessum hætti. Fram hafa komið ýmsar hugmyndir um að ráðstafa þessu fé frekar til aðila eins og uppbyggingar á hafrannsóknaskipunum, til Lífeyrissjóðs sjómanna eða til slíkra hluta. Ég mun flytja brtt. við 3. umr. málsins verði þessi tillaga samþykkt, en sökum þess að hún gerir jafnframt ráð fyrir 10 millj. til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda munum við sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að þá ráðstöfun styðjum við í sjálfu sér.