Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:55:45 (7969)

[14:55]

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er margt mjög skringilegt við þetta mál og eitt af því óvenjulega er að það er hæstv. fjmrh. sem flytur frv. og lögin munu þar af leiðandi heyra undir hann, en hins vegar er hér flutt brtt. um að hæstv. forsrh. skuli setja reglugerð við lögin. Þetta samstarf innan Stjórnarráðsins er nokkuð óvenjulegt og segir sína sögu um það hvers konar samsetningur er hér á ferðinni og vantar ekkert nema hæstv. félmrh. skuli fá reglugerðina til umsagnar vegna þeirra þvingunarákvæða um sameiningu sveitarfélaga sem fólgnar eru í málinu til þess að þetta væri allt saman fullkomnað.
    Ég sé ekki ástæðu til að styðja þetta sérkennilega fyrirkomulag frekar en frv. í heild eins og það verður í pottinn búið ef brtt. okkar í minni hlutanum verða felldar og sit því hjá.