Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:09:28 (7975)


[15:09]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það má segja að það hafi unnist nokkur áfangasigur í sambandi við þetta mál, frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Eins og það var hér fram borið af hæstv. sjútvrh. í vetur þá gerði það ráð fyrir því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins yrði lagður niður án þess að nokkuð kæmi í staðinn fyrir hann. Við stjórnarandstæðingar lögðumst mjög hart gegn þessum áformum og töldum óhyggilegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, að leggja þannig niður þennan eina sjóð, þetta eina tæki sem fyrir hendi er til verðjöfnunar eða sveiflujöfnunar í íslenskum sjávarútvegi, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Það kom og í ljós að allir helstu sérfræðiaðilar á sviði hagstjórnar og efnahagsmála í landinu, svo sem eins og Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og aðrir slíkir aðilar, voru sama sinnis og satt best að segja var með ólíkindum að sjá hvernig umsagnir þessara aðila tættu niður málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar. Því ber að fagna þegar svo vel tekst til að menn taka sönsum og hæstv. sjútvrh. féllst á að það væri óráðlegt og óhyggilegt að fella úr gildi lögin um Verðjöfnunarsjóð án þess að nokkuð annað kæmi í staðinn og flutti sjálfur brtt. sem greidd voru um atkvæði áðan og samþykkt sem gengur út á það að lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins halda gildi sínu en sjóðurinn verður gerður óvirkur um skeið. Má það í sjálfu sér einu gilda vegna þess að aðstæður eru hvort eð er þannig að í sjóðnum er sáralítið fé og engar inngreiðslur væntanlegar í hann á næstu missirum ef svo heldur sem horfir með verðlag á íslenskum sjávarafurðum. Má því segja að þar hafi verið um eins konar sýndarmennskutillögu að ræða því í reynd breytir hún engu í sjálfu sér um starfrækslu Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins á næstu missirum.
    Hitt er að mínu mati mikilvægt og því ber að fagna að með þessu eru viðurkennd þau sjónarmið sem við stjórnarandstæðingar töluðum fyrir, að það gengur ekki að fella úr lögum einu ákvæðin sem til eru um verðjöfnun eða sveiflujöfnun í greininni og vísa því bara út í loftið hvað eigi að taka við eða hvernig eigi með slíka hluti að fara.
    Öllum sérfræðiaðilum ber saman um að fyrir hendi þurfi að vera með einum eða öðrum hætti tæki varðandi stjórn íslenskra efnahagsmála og/eða sjávarútvegs til þess að grípa til til að draga úr mestu sveiflunum í afkomu og tekjum greinarinnar.
    Það má segja að með þeim brtt. sem voru afgreiddar áðan hafi því máli verið bjargað fyrir horn og ber að fagna því en þá stendur eftir hinn þáttur málsins, því þetta frv. var frá upphafi tvíþætt, og það er sú græðgi hæstv. fjmrh. að gera upptækar eignir Verðjöfnunarsjóðs upp á liðlega 200 millj. kr. sem eftir standa í þeim sjóði og ekki eru merktar einstökum nafngreinum eigendum og verða þar af leiðandi ekki greiddar út með neinum venjulegum hætti. Þetta á við um innstæður vegna fyrirtækja sem ekki eru lengur starfrækt, hafa orðið gjaldþrota, eða vegna innstæðna sem af öðrum ástæðum er ekki hægt að merkja einstökum aðilum og greiða út sem slíkar.
    Við teljum við þessar aðstæður með öllu fráleitt að ráðstafa þessum innstæðum eins og hæstv. ríkisstjórn gerir ráð fyrir. Að mörgu leyti væri eðlilegast úr því að sú ákvörðun hefur verið tekin að fella ekki úr gildi lögin um Verðjöfnunarsjóð að þessar innstæður stæðu þar áfram og gætu orðið stofn að nýjum

verkefnum á vegum sjóðsins á komandi árum. En komi þær til útgreiðslu nú, eins og hæstv. ríkisstjórn virðist leggja ofurkapp á þannig að eftir stendur raun það eitt af þessu máli að ríkissjóður er að ná sér í, krækja sér í, gera upptækar --- stela, liggur mér við að segja, með leyfi hæstv. forseti, þessum eignum sjávarútvegsins þá tel ég að það sé a.m.k. tilraunarinnar virði að flytja hér tillögu um öðruvísi ráðstöfun á þessu fé.
    Ég legg því til á brtt., sem ég mun afhenda forseta eftir að hafa talað fyrir henni, að síðasti málsliður 2. gr. frv. orðist svo, hæstv. forseti: ,,Aðrar eignir sjóðsins skulu renna til helminga í byggingarsjóð hafrannsóknarskipa og til Lífeyrissjóðs sjómanna, utan 10 millj. kr. sem skulu renna til Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.``
    Um það atriði er samstaða að Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda fái greidda út fjármuni sem sú grein getur gert réttmæta kröfu til í innstæðum sjóðsins og verður því varið til sérstaks markaðsátaks á kaldsjávarrækju á mikilvægum mörkuðum félagsins. Það er samdóma álit þeirra sem að þessu hafa komið að þeim hluta fjármunanna sé vel varið en í stað þess að ráðstafa þá því sem eftir stendur, sem lætur nærri að vera um 200 millj. kr., í ríkisreksturinn þá renni það til helminga til byggingarsjóðs hafrannsóknarskipa og til Lífeyrissjóðs sjómanna. Það er alveg ljóst að báðir þessir aðilar eru í ríkri þörf fyrir fjármuni. Lífeyrissjóður sjómanna á í miklum erfiðleikum með að uppfylla sínar skuldbindingar og fyrir dyrum stendur væntanlega, því miður, að skerða bótarétt á næstu missirum og þó að þarna sé ekki á ferðinni einhver fjárhæð sem muni breyta miklu eða skipta sköpum fyrir afkomu Lífeyrissjóð sjómanna þá er þó viðleitni í þá átt að láta hann njóta nokkurs af þeim fjármunum sem ráðstafað skal með þessum hætti. Vísa má til fyrri fordæma svo sem þegar Lífeyrissjóður sjómanna hefur fengið fé úr gengismunasjóði, úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins við fyrri útgreiðslur og fleiri tilvika.
    Varðandi byggingarsjóð hafrannsóknarskipa er um það mál að segja að það hefur komið glöggt í ljós á síðustu árum að sá skipakostur sem Hafrannsóknastofnun hefur yfir að ráða er á engan hátt fullnægjandi miðað við þau verkefni sem stofnunin þarf að ráðast í og kemur þar sérstaklega til að þau skip sem nú eru í rekstri ráða ekki við aðstæður á dýpra vatni sem mikil þörf er þó á að rannsaka. Þannig hefur Hafrannsóknastofnun ekki getað sinnt rannsóknum eins og til hefur staðið á djúpmiðunum suður og suðvestur af landinu vegna þess annars vegar að stofnunin hefur ekki haft til þess skipakost sjálf, ekki skip sem hafa togkraft og burði til þess að sinna rannsóknum á djúpu vatni, og stofnunin hefur ekki haft fjármuni til að leigja önnur skip, frystitogara eða önnur slík stór skip sem ráða við þessar aðstæður en leigugjald fyrir slík skip er gjarnan á bilinu 1,5--2 millj. á sólarhring og liggur í hlutarins eðli miðað við naumt skammtaða fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar að þær hrökkva skammt til að standa undir margra vikna rannsóknarleiðöngrum á slíkum skipum. Í byggingarsjóði hafrannsóknaskipa munu vera einhverjir fjármunir, m.a. eftirstöðvar af fé sem stofnunin fékk þegar eldra rannsóknaskip, Hafþór, var selt og hér mundi því myndast þó nokkur stofn að byggingarsjóði fyrir nýtt hafrannsóknaskip eða kaup á stóru, notuðu skipi sem með lagfæringum mætti nýta til að sinna þessum þætti hafrannsókna sem mikil nauðsyn er á að gert verði.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg þessa brtt. fram og fer fram á að umræðunni verði frestað þangað til henni hefur verið dreift og afbrigða leitað þannig að hún fái að koma til atkvæða.