Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:49:13 (7983)


[15:49]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það var við 2. umr. þessa máls að ég áttaði mig á því í salnum hvernig ég taldi málið vaxið. Það er þannig vaxið að það er ætlunin hjá forráðamönnum Lífeyrissjóðs sjómanna að skerða

lífeyrisrétt sjómanna við 60 ára aldur um 0,4% á mánuði fyrir hvern mánuð sem þeir hefja töku lífeyris áður en þeir verða 65 ára gamlir. Þar með er verið að afnema má segja þessi sérstöku réttindi sem voru ákveðin á Alþingi 1981 í þágu sjómannastéttarinnar með breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna annars vegar og hins vegar með breytingu á lögum um almannatryggingar. Eins og væntanlega margir þingmenn vita þá er það þannig að sjómenn eiga rétt á lífeyri við 60 ára aldur frá almannatryggingum og sú breyting sem hér er verið að gera tillögu um mun engu breyta um þau ákvæði almannatryggingalaganna að því ég best fæ séð, ég vænti að það sé alveg á hreinu.
    Þegar málið var lagt fyrir þingið þá voru bornar fyrir því ýmsar tæknilegar röksemdir, t.d. þær að það væri skynsamlegt að vera með þessi lög öðruvísi en verið hefur og það væri mat ákveðinna starfsmanna Alþingis. Eftir að ég hafði farið yfir þetta mál í ræðu þann 25. apríl sl. þá drógu menn til baka með þessar tæknilegu röksemdir vegna þess að í raun og veru skiptu þær engu máli í þessu sambandi heldur væru það fjárhagslegar röksemdir sjóðsins sem réðu úrslitum um það að málið er lagt fram á Alþingi sem stjfrv. Þær fjárhagslegu röksemdir eru einhvern veginn þannig að það eru u.þ.b. 200 sjómenn sem fá lífeyri á aldrinum 60--67 ára gamlir. Þessir 200 sjómenn skiptast þannig að einn þriðji þeirra er ekki í neinu starfi lengur, u.þ.b. einn þriðji hópsins er á sjó enn þá og u.þ.b. einn þriðji hópsins er í landi. Hér er um að ræða nokkrar upphæðir en í rauninni ótrúlega smáar miðað við þá staðreynd að rekstrarkostnaður þessa sjóðs, sem er ótrúlega hár, er upp á 35 millj. kr. á ári. Sá sparnaður sem menn eru að tala um varðandi lífeyrinn til sjómannanna er þess vegna mjög athyglisverður með hliðsjón af þeirri háu upphæð sem þessi sjóður eyðir í rekstur.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. 5. þm. Norðurl. v. og öðrum sem þannig tala að lífeyrissjóðir eiga auðvitað að eiga fyrir sínum skuldbindingum eins og mögulegt er. Staðreyndin er hins vegar sú að fjöldinn allur af lífeyrissjóðum stendur ákaflega tæpt. Mín spurning er því sú: Hvernig stendur á því að það er byrjað að taka til í Lífeyrissjóði sjómanna en aðrir lífeyrissjóðir fá að halda áfram uppteknum hætti án þess að gripið sé til neinna ráðstafana eða nægilegra ráðstafana, skulum við segja, til að tryggja að þeir sjóðir eigi fyrir sínum skuldbindingum?
    Það er mjög athyglisvert að velta þessu fyrir sér og þetta dæmi þekki ég dálítið vegna þess að fyrir tveimur árum eða svo kom til mín lífeyrisþegi í Hafnarfirði og skýrði mér frá því að hún hefði fengið bréf sem var nokkurn veginn á þessa leið: Þar sem lífeyrissjóðurinn á ekki fyrir neinum greiðslum enn þá hefur verið ákveðið að fella niður greiðslur til þín frá og með 1. júní nk. Þetta var eftirlaunasjóður Rafha-starfsmanna í Hafnarfirði. Ég fór þá á stúfana og kannaði hver bar þarna ábyrgð? Gat t.d. verið að ríkið bæri ábyrgð af því að ríkissjóður var eigandi að þessu fyrirtæki að hluta til? Fjmrn. hafnaði því algerlega og ég fór yfir þessi mál með forustumönnum lífeyrissjóðanna, m.a. samtaka lífeyrissjóðanna og niðurstaðan var sú að þetta fólk væri algerlega réttlaust eins og staðan er. Það er hrikalegur veruleiki og það er frammi fyrir þessu sem forustumenn lífeyrissjóðanna standa. Þeir vilja ekki draga sitt fólk inn í þessa mynd að óþörfu heldur taka það á sig að skera niður réttinn í núinu þó það þýði ákveðna erfiðleika fyrir þessa aðila með hliðsjón af því að sjóðirnir geta ekki staðið við þann vanda sem uppi er.
    Ég tel hins vegar nauðsynlegt að draga það inn í þessa mynd varðandi Lífeyrissjóð sjómanna að hann er nokkuð sérstakur. Þessi ákvörðun um 60 ára lífeyrisaldur var pólitísk ákvörðun. Hún var tekin af ekki bara meiri hluta Alþingis, af Alþingi. Nál. heilbr.- og trn., sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir veitti forstöðu á sínum tíma í þeirri deild sem þá hét neðri deild, var samhljóða. Það var enginn fyrirvari í þessum efnum frá einum einasta þingmanni. Sjómenn gátu litið þannig á að Alþingi hlyti að ætla að tryggja að það væri hægt að inna þessar greiðslur af hendi. Mér er þess vegna spurn: Er það svo að það hafi verið lagðar fram núna á síðustu mánuðum fyrir ríkisstjórnina formlegar óskir um það hvort hún er tilbúin til þess að greiða með þessum lífeyrissjóði fjármuni á grundvelli hinna pólitísku ákvarðana beint út úr ríkissjóði? Hefur þessara upplýsinga verið leitað? Hefur verið talað við forráðamenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í þessu sambandi?
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að fá svör við því. Ef það er þannig staddur meiri hluti á Alþingi að það sé útilokað að fá þessa fjármuni þá vil ég ekkert útiloka að það geti verið óhjákvæmilegt og eðlilegt að mati forustumanna sjóðsins að breyta reglunum. En fyrst verður að spyrja: Hefur Sjálfstfl. neitað sjómönnunum um þessa fjármuni? Hefur Alþfl. neitað sjómönnunum um þessa fjármuni? Ef það liggur ekki fyrir þá er einn þáttur í málinu óunninn. Að því hlýt ég að spyrja.
    Hér hef ég fyrir framan mig bréf sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Reykjavík, 10. maí 1994.
    Fyrir Alþingi liggur nú frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna. Er það ósk fulltrúa neðangreindra samtaka sem aðild eiga að sjóðnum að frv. verði afgreitt hið fyrsta sem lög frá Alþingi. Frv. var unnið af stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna með hagsmuni sjóðsins í huga og er þess farið á leit að Alþingi samþykki frv. óbreytt frá því sem efh.- og viðskn. þingsins lagði til.``
   Þá vil ég segja, hæstv. forseti, að það er mjög erfitt að hafna þessari ósk. Ég skil það ákaflega vel að hv. efh.- og viðskn. telji sig eiga erfitt með að hafna þessari ósk.
    Þannig háttar til með langflesta lífeyrissjóði að þeir starfa eftir reglugerðum en ekki lögum og þess vegna geta stjórnir sjóðanna einhliða breytt reglugerðunum án þess að leita með það til Alþingis. Það er öðruvísi með Lífeyrissjóð sjómanna en það er ljóst að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna mundi breyta reglugerðinni svona ef hún hefði vald til þess. Spurningin er þá sú: Á Alþingi að neita eignaraðilum Lífeyrissjóðs sjómanna um þessa breytingu þar sem svo vill til að það eru lög um þennan sjóð en ekki bara reglugerð eins og gengur og gerist með aðra lífeyrissjóði? Þess vegna tel ég út af fyrir sig ekkert sérkennilegt við það þó hv. efh.- og viðskn. hlusti vandlega á þær óskir sem þarna koma fram.
    Hins vegar er ekki hægt að neita því, hæstv. forseti, að ég tel að ekki einasta hafi sú heimavinna verið vanrækt að spyrja stjórnarflokkanna hvort þeir vilja koma sjóðnum inn undir ríkissjóð heldur hafi sú heimavinna líka verið vanrækt að ræða við forustumenn viðkomandi sjómannasamtaka. Ég sé ekki betur en að menn hafi látið nægja að ræða fyrst og fremst við stjórn lífeyrissjóðsins eða hún við sjálfa sig. Voru haldnir fundir t.d. í stjórn Sjómannasambands Íslands áður en frv. var lagt fram? Var haldinn fundur í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins áður en frv. var lagt fram? Var haldinn fundur í Vélstjórafélagi Íslands áður en frv. var lagt fram? Hefur verið rætt við Vélstjórafélag Íslands? Var rætt við fulltrúa Landssambands smábátaeigenda t.d. áður en frv. var lagt fram? Eftir að frv. var lagt fram? Hefur verið farið yfir þessi mál t.d. sérstaklega með Alþýðusambandi Íslands?
    Ég held að svarið við þessum spurningum öllum sé nei. Ég segi alveg eins og er að forustumenn sjómannasamtakanna geta sjálfum sér um kennt, forustumenn sjóðsins geta sjálfum sér um kennt með að vera komnir með málið í þennan vanda. Og koma núna til Alþingis eftir að hafa vanrækt að sinna eðlilegri heimavinnu í þessu máli með því að tala við ríkisstjórnina og með því að tala við forustumenn viðkomandi samtaka sjómanna. Ég tel þess vegna að þeim sé engin vorkunn. Þeir hefðu átt að búa betur um hlutina en þeir hafa gert og ég gagnrýni þá fyrir það. Ég gagnrýni þessa aðila fyrir það.
    Ég beitti mér fyrir því við 2. umr. þessa máls, hæstv. forseti, að það færi aftur til efh.- og viðskn. og efh.- og viðskn. varð við þeirri ósk að málið fór þangað og var eitthvað rætt nánar um það þar. Ég sé að efh.- og viðskn. hefur nú flutt brtt., eða ég hygg að það sé efh.- og viðskn., þar sem gert er ráð fyrir því að leita þurfi samráðs við efh.- og viðskn. áður en reglugerð um sjóðinn verður sett. Út af fyrir sig tel ég að svona yfirlýsing sé merkingarlítil. Ég tel það líka vera ákaflega sérkennilegt að þingnefnd sé að blanda sér í reglugerðarútgáfu með þeim hætti sem menn eru að gera tillögu um. En ég skil þetta þannig að menn séu að reyna að finna pólitíska lausn á þessu máli vegna þess að mönnum sé mikið í mun að þoka málinu í gegnum þingið. Það verður að vera mat þeirra sem á því bera ábyrgð. Ég ætla ekki að blanda mér í það. En ég tel satt að segja að tillöguflutningur af þessu tagi breyti í sjálfu sér sáralitlu. Ég tel hins vegar ekki að ég hafi sem þingmaður, einn af mjög fáum, neina stöðu til að leggja mig þvert um dyr í máli af þessum toga þegar fyrir liggja þessar óskir frá þessum aðilum og þegar það liggur líka fyrir að efh.- og viðskn. leggur bersýnilega mikla áherslu á að málinu verði lokið. Ég teldi hins vegar miklu skynsamlegra að fara þá leið, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir lagði til áðan, að þessu máli yrði ósköp einfaldlega slegið til hliðar, það yrði saltað í sumar og kæmi svo aðeins betur undirbúið í haust. Ég held að það hryndu nú ekki gullhringarnir af Alþingi Íslendinga, þingmönnum og forustumönnum sjómannasamtakanna þó að menn hinkruðu til haustsins með að ljúka þessu máli. En úr því að menn eru svona í blóðspreng að ljúka því þá verða þeir að gera það sem eru í sprengnum en það á ekki við um undirritaðan.