Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:03:07 (7984)


[16:03]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en hér heyrði ég heitar ræður og fór að hugsa um stöðu Alþingis gagnvart lífeyrissjóðakerfinu og framtíðinni. Mér fannst að þingmenn töluðu sig í hita og segðu sem svo að það væri dæmalaust gáleysi af hálfu Alþingis að hugsa ekki meira um lífeyrissjóðina og stöðu þeirra og skal ég fullkomlega taka undir það um leið og ég minni hv. formann efh.- og viðskn. á það að í hans nefnd er frv. um lífeyrissjóðina. Frv. sem miðar að því að setja þeim reglur og marka þeim framtíðarskipulag sem er mikilvægt. Því staðreyndin er nú sú, að ég hygg, að þessi neyðarsending sem er komin inn á þing á síðustu dögum, breyting á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, stafar fyrst og fremst af því sem var sagt áðan, þ.e. fjárhagslegar röksemdir. Yngri kynslóðin er að tapa fyrir þeirri eldri í lífeyrissjóðakerfinu. Yngri kynslóðin verður að greiða þar inn, hin eldri er að fá þar út. Yngri kynslóðin stendur frammi fyrir því að hún fær ekkert úr þessum sjóðum þegar hún kemur að dyrunum ef ekki verður stefnubreyting. Þetta á við um Lífeyrissjóð sjómanna, þetta á við um lífeyrissjóði landsins. Í lífeyrissjóðakerfinu er fólgin ógnvænlegasta tímasprengja framtíðarinnar ef menn ekki þora að taka á því.
    Hér gerast menn heitir í þessari umræðu. Þing eftir þing hef ég flutt mál sem snýr að heildarhagsmunum fólksins gagnvart eftirlaunasjóði. Hvað oft hafa þessar ræður ekki verið fluttar? Ég hef vakið athygli á því hversu illa margir lífeyrissjóðirnir eru reknir, hversu rekstrarkostnaðurinn er mismikill og hver staða þeirra er og margoft bent á að þeir væru margir fleiri í þeirri stöðu að þegar yngra fólkið kemur að dyrum þeirra þá verða þeir tómir. Hvar hafa þessir þingmenn verið þegar ég hef rætt þetta?

    Ég vil, hæstv. forseti, lýsa því yfir að ég treysti mér ekki til að stöðva þetta mál. Ég hygg að þessi bæn stjórnar sjóðsins verði að takast til greina og það verði að viðurkennast að þessi sjóður, einn fárra, er vafinn í fjötra laga þannig að menn ráða ekki við reksturinn og auðvitað hafa engir viljað koma inn í þessi mál. Ég get tekið undir það að starf sjómanna og hagsmunir þeirra og það mikilvæga starf sem þeir vinna gerir það kannski að verkum að menn ættu að líta málið öðrum augum.
    En ég vildi fyrst og fremst minna á að hér hefur verið flutt mál sem snýr að því að gjörbreyta lífeyrissjóðum landsins. Þau mál hafa ekki verið mikið rædd. Ég hef rætt um það og flutt um það tillögu að stofnaðir verði eigin eftirlaunasjóðir sem væru miklu hagstæðari fyrir íslenska sjómenn og landsmenn alla. Eigin eftirlaunasjóðir sem væru þannig að þegar ungi maðurinn kemur út á markaðinn þá á hann sína lífeyrissjóðsbók sem fylgir honum gegnum lífið og er í bankanum hans. Ég hef reiknað það út að þó hann hefði einungis 70 þús. kr. á mánuði og fengi aðeins 5% vexti á þessa bók sína í þessi 45 ár þá ætti hann inni á bókinni þegar kæmi að eftirlaunum 13,5 millj. og gæti greitt sjálfum sér 74 þús. næstu 30 árin. Við þessari tillögu hefur verið daufheyrst. Þingið hefur ekki einu sinni viljað skoða hana. Jafnframt hef ég bent á það, sem er mjög mikilvægt í mínum huga, að samhliða svona breyttu kerfi verði stofnaður örorkusjóður og líftryggingarsjóður sem greiddi maka- og barnalífeyri þegar illa fer og að eitthvert gjald rynni þar inn.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara út í þetta mál þótt ég hafi ekki getað setið á mér að minnast á það að þingið hefur á þeim átta árum sem ég hef verið hér ekki viljað ræða málefni lífeyrissjóðanna. Þó blasir það við, sem hefur verið minnst á í dag enn þá frekar en áður var, að þeir verða tómir. Hvers vegna verða þeir tómir? Þeir verða tómir vegna þess að í dag eru 26 þús. manns á Íslandi 65 ára og eldri. Árið 2020 þegar hv. þm. Svavar Gestsson kemur að þessum dyrum þá verða þeir 50 þús. og þá fer nú að þrengjast um hag sjóðanna. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við.
    Ég vil að vísu segja um þetta mál að ég trúi ekki öðru en að formaður hv. nefndar og nefndin hafi haft samband við alla þá sem málið snertir og þar á meðal Vélstjórafélag Íslands.
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði þá treysti ég mér ekki til að stöðva þetta mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er neyðaróp stjórnarinnar vegna þess að þeir yngri eru að tapa fyrir þeim eldri vegna þess að sjóðurinn er vafinn í fjötra laganna. Hann þarf meira frelsi til að mæta þeim vanda sem hann býr við og að vera í svipaðri stöðu stjórnað eftir reglugerð eins og margir aðrir sjóðir.