Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:13:18 (7986)


[16:13]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna sem er flutt að beiðni stjórnar þess sjóðs. Ég held einmitt að síðustu orð síðustu ræðumanna, þ.e. hv. þm. Guðna Ágústssonar og Svavars Gestssonar, hafi verið kjarni þessa máls. Lífeyrissjóðakerfið og lífeyrissjóðirnir eru tímasprengja. Það er alveg ljóst að það fé sem streymir inn í þá sjóði mun alls ekki duga til að mæta þörfum framtíðarinnar og ég tek mjög sterklega undir að það er lífsnauðsynlegt að við förum að snúa okkur að þessum málum og við þurfum að átta okkur á því hvernig við þeim verði brugðist.
    En þegar litið er á þetta mál sérstaklega þá háttar þannig til eins og ég nefndi hér áðan að um Lífeyrissjóð sjómanna gilda sérstök lög og eins og menn vita hér á hinu háa Alþingi þá gildir það einnig um einstaka aðra sjóði, örfáa sjóði eins og Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, alþingismanna og ráðherra. Til þess að bregðast við þeim vanda sem þessi sjóður stendur frammi fyrir þá verður einfaldlega að breyta lögunum. Það sem hér er að gerast er það að settur er lagarammi utan um Lífeyrissjóð sjómanna en sjóðurinn fær síðan sjálfdæmi um að haga sínum innri málum.

    Það hefur komið fram að það stendur til að gera breytingar á reglum sjóðsins sem munu fela í sér skerðingu fyrir ákveðinn hóp og það er bara staðreynd málsins að eins og sjóðurinn er staddur þá verður ekki hjá því komist. Það verður ekki hjá því komist. Ég veit ekki hvort mönnum er kunnugt um það að Samband almennra lífeyrissjóða eða þeir sjóðir sem þar eru hafa breytt sínum reglum. Þetta kom fram á fundi sem efh.- og viðskn. átti með stjórn og framkvæmdastjórum Sambands almennra lífeyrissjóða. Þar kom fram að þeir hafa þegar gripið til þess ráðs að breyta reglum og að skerða kjör sinna félagsmanna vegna þess að þetta er tifandi tímasprengja. Þegar menn eru að býsnast yfir því að stjórn þessa sjóðs ætli að gera á honum breytingar þá hljótum við auðvitað að spyrja: Hver á að borga? Ef reglunum verður ekki breytt og sjóðurinn heldur sig við sínar skuldbindingar, hver á þá að borga, hvaðan á að taka þá peninga? Hvers vegna ætti ríkissjóður að beina fjármagni inn í þennan sjóð en ekki til annarra?
    Ég get tekið undir það að störf sjómanna eru mikilvæg en ég er ekki tilbúin að fallast á það að sjómenn séu mikilvægasta stétt í heimi. Það eru aðrir í þessu þjóðfélagi sem vinna afar mikilvæg störf og mér verður t.d. hugsað til þeirra sem annast uppeldi barna og umönnun sjúkra. Það er ekki hægt að tala svona að einhver ákveðin stétt, þó hún sé mikilvæg og þó hún sé sá hópur sem aflar okkur gjaldeyris, að hún sé mikilvægari og nánast heilagri en allar aðrar stéttir. Svona er ekki hægt að tala. Það sem við þurfum að gera er að tryggja öllum almennan lífeyri og sjá til þess að fólk geti lifað góðu lífi í ellinni. En það er auðvitað fyrst og fremst málefni sjóðsins sjálfs hvernig hann hagar sínum málum og þeirra sem að honum standa.
    En þar kem ég nú kannski fyrst og fremst að því atriði sem ég vil gera athugasemd við varðandi þetta mál og okkur tókst því miður ekki að finna lausn á en það er varðandi skipan stjórnar sjóðsins. Vélstjórafélag Íslands hefur margoft haft samband bæði við nefndina og einstaka nefndarmenn og þeir eru mjög ósáttir við það að úr því að verið er að gera þessar lagabreytingar þá skuli þeir ekki fá aðild að stjórn sjóðsins. Þetta er stórt félag og málið snertir þeirra félagsmenn og í rauninni harma ég það mjög að það skyldi ekki takast að finna lausn á málinu. En ef það hefði átt að gerast þá hefði einfaldlega þurft að fresta þessu máli vegna þess að það hefði þurft að ræða ítarlega við þá aðila sem eiga aðild að stjórn sjóðsins, hvort um það hefði verið að ræða að stækka stjórnina eða einhver hefði vikið fyrir Vélstjórafélaginu.
    Menn hafa efast um að það hafi verið rætt við aðila. Það var auðvitað rætt við þá aðila sem eiga hér aðild að og okkur barst bréf í gær sem kannski hefur verið dregið inn í þessa umræðu. Bréf dagsett í gær, þar sem ítrekuð er af hálfu Farmanna- og fiskimannasambandsins og Sjómannasambands Íslands ósk um að þetta frv. verði samþykkt. Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að það sé ekki löggjafans að hafa vit fyrir þessum sjóði þótt okkur sé ljóst að þar eru vandamál á ferð. Ef í ljós kemur að einhver hópur verður illa úti og það illa að löggjafanum þyki ástæða til að taka sérstaklega á hans málum þá er auðvitað hægt að tengja þann vanda við Tryggingastofnun og taka upp sérstaka reglu sem snertir sjómenn sem eru á aldrinum 60--65 ára. Menn verða einfaldlega að athuga það mál ef svo reynist. En fyrst og fremst hlýtur það að vera verkefni stjórnar sjóðsins að skipa málum eins og þeir telja best. Þessi stóru sjómannasambönd eiga aðild að sjóðnum og þeir hljóta að gæta hagsmuna sinna félagsmanna. Þannig að ég treysti mér til að standa að þessu máli, virðulegur forseti, en ég harma það að við skyldum ekki hafa tíma til að ganga betur frá skipan stjórnarinnar og ég hefði stutt það dyggilega að Vélstjórafélagið fengi aðild að stjórninni og við hljótum að athuga það mál á næsta þingi.