Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:20:36 (7987)


[16:20]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Það líður nú að lokum þessa þings og því skal ég stytta mál mitt ( Gripið fram í: Hver segir það?) Ja, mér sýnist það a.m.k. ef ég lít hér yfir þá stóla sem notaðir eru hér að þá sé nú æði skammt eftir, hv. þm. En hér hefði vissulega verið ástæða til að eiga orðastað við hv. 5. þm. Norðurl. v., sem hefur talað hér fyrir efh.- og viðskn. sem hefur verið með þetta mál. En ég hef ástæðu til að spyrjast fyrir því hér er tillaga um að fella niður eða skerða 60 ára markið til eftirlauna sjómanna. Það er kjarni málsins. En ef ég man rétt og hef heyrt rétt í þessum umræðum sem hér fóru fram fyrir nokkrum dögum síðan þá var það svo, ég held það hafi verið haustið 1981 við gerð kjarasamninga, að það varð samkomulag um að breyta skyldi tvennum lögum við gerð þessara samninga. Annars vegar um að sjómenn fengju ellilífeyri samkvæmt þeim við 60 ára aldurinn og hins vegar um lífeyrissjóð að menn fengju lífeyri úr þessum sjóði við 60 ára aldur. Það kom skýrt fram í umræðum þá, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, þegar frá þessu máli var gengið var það alveg ljóst, var sagt hér úr þessum ræðustól öllum þeim sem að því stóðu að hér væri um að ræða tilteknar skuldbindingar sem Lífeyrissjóður sjómanna og ríkissjóður væru að taka á sig. Þetta kom skýrt fram hjá hv. þm. sem þá talaði. Því finnst mér ástæða til að spyrja hv. þm.: Hefur ekki verið staðið við þetta atriði? Ef svo er ekki hvar eru þá brestirnir í þessu máli? Ég held að það muni einfalda þessa umræðu ef menn tala bara skýrt út í þessu máli og það liggi ljóst fyrir. Ég held líka að það væri skynsamlegra vegna þess hvernig fyrir þessu máli er komið að menn tækju sér rýmri tíma. Ég sé ekki þann voða sem fram undan er þó þetta mál væri látið liggja til haustsins og menn skoðuðu það og ræddu það við sjómenn hvernig mætti reyna að koma við einhverjum vörnum og vitrænni hugsun inn í þetta mál. En ég sem sé ætla ekki að lengja þessar umræður. Ég tel nauðsynlegt áður en lengra er haldið að það

fáist svör við þessum spurningum: Ef hér voru gefin fyrirheit við gerð kjarasamninga árið 1981, hverjir eru það sem hafa brugðist í þessu máli? Það verður auðvitað að fást svar við því, hv. þm.